Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kynferðisleg áreitni og réttarríkið

Flestir siðmenntaðir menn fagna þeirra andófsbylgju gegn kynferðislegri áreitni sem rís nú víða um heim. Fólk stígur fram og segir sögur um frægðarmenn sem misnota vald sitt til að áreita konur, og jafnvel karla, með kynferðislegum hætti. Engin ástæða er til annars en að ætla að alltof algengt sé að valdamiklir karlmenn noti aðstöðu sína með þessum ógeðfellda hætti. Ég man eftir slíku frá námsárum mínum, sumir kennara minna notuðu aðstöðu sína til að fífla saklausar stúdínur sem litu upp til þeirra. Auk þess er velþekkt að konur hafa löngum verið hræddar við að kæra nauðgun, m.a. af ótta við að fá druslustimpilinn. Svo mætti lengi telja, allt ber að sama brunni.

Varnaglar og réttarríki

En samt ber að slá ýmsa varnagla. Eru til sannanir fyrir öllum þeim sögum sem sagðar eru nú um nauðganir og aðra áreitni? Getur verið að stór hluti sagnanna séu sannar en sumar tilbúningur fjörugs ímyndunarafls, jafnvel lygasögur sem sumt fólk notar til að vekja á sér athygli? Eða til að ná sér niður á mönnum sem þeim líkar illa við? Getur verið að hafnar séu nornaveiðar gegn þeim sem ásakaðir hafa verið fyrir slíka áreitni? Samkvæmt meginreglum réttarríkisins ber ekki að líta á menn sem seka fyrr en sekt þeirra hefur verið sönnuð. Jafnvel ógeðfelldir karlrembupungar eiga rétt á lögvernd.

Sörli gamli og áreitnin

Víkur nú sögunni vestur til Kaliforníu, nánar tiltekið háskólans í Berkeley þar sem heimspekingurinn frægi, John Searle, hefur löngum kennt. Ég sótti tíma hjá Sörla gamla  haustið 2009, ekki hvarflaði að mér að hann myndi fáeinum árum síðar verða ásakaður fyrir stórfellda kynferðislega áreitni. Fjöldi kvenna hefur leyst frá skjóðunni og sagt ýmsar sögur um karlinn. Svo margar að tæpast geta allar sögurnar verið tilbúningur, þess utan er karlinn talsvert röff og „macho“ í framgöngu. En spurningin er hvort menn hafi farið offari í að refsa honum. Það telur alltént útgefandi þýska vikuritsins Die Zeit, Josef Joffe, sem reyndar er vinur Searles. Þann fyrsta nóvember skrifaði hann grein í tímaritið sem ber heitið „Schuldig! Sofort!“ („Sekur! Strax!“). Þar segir hann að menn eins og Searle og Harvey Weinstein séu dæmdir frá kjóli og kalli án sanngjarnra réttarhalda (slík réttarhöld eru meðal meginþátta réttarríkisins). Searle sé fórnarlamb hrikalegra nornaveiða. Honum sé bannað að kenna og hafa samband við stúdenta á Berkeley, stofnun í hans nafni hafi verið lögð niður. Cambridgeháskóli hafi hætt við ráðstefnu um speki hans og forlag neiti nú að gefa út nýjustu bókina hans. Searle sé kominn á hausinn vegna gífurlegra útgjalda til lögfræðinga.

Lokaorð

Þetta kann að vera rétt en ekki má gleyma þjáningum fórnarlambanna. Þeirra vegna ber okkur að ganga gegn kynferðislegu ofbeldi og beita þrýstingi til að útrýma þessum viðbjóði. En við megum ekki hunsa meginreglur réttarríkisins, án þeirra skapast svigrúm fyrir engu minni valdníðslu og viðurstyggð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni