Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kúba Castros

Castro,  Kúbujöfur, er fallinn frá. Óvíst er um framtíð landsins, óvissan

 kannski ekki minni þegar fortíðin er annars vegar. Saga Kúbu á dögum Castros er túlkuð með mismunandi hætti. Hægrimenn telja Kúbu Castros einfaldlega dæmi um kommúnískt  einræði og misheppnað efnahagskerfi. Sovétríkin hafi bjargað landinu frá efnahagshruni með því dæla peningum í hagkerfið. Þau  hafi viljað gera kommúnismann aðlaðandi með því að styðja mennta- og heilbrigðiskerfi eyjunnar.

Sósíalistar bera í  bætafláka fyrir stjórn Castrobræðra og segja að hún hafi lyft grettistaki á mennta- og heilbrigðissviði. Efnahagserfiðleikarnir stafi aðallega af viðskiptabanni Bandaríkjanna. Þrýstingur Bandaríkjanna hafi gert einræðið að illri nauðsyn. Alla vega sé Kúba ekki eyðilögð af dópsala-glæpahringjum sem rústað hafi lönd Mið-Ameríku.

Vinstrið og Kúba

Lítum  á staðhæfingar vinstrimanna. Samkvæmt tölum Alþjóðabankans frá 2015 er  ungbarnadauði á Kúbu er með þeim  minnsta í heimi, minni en Bandaríkjunum. Í skýrslu sömu stofnunar  frá 2014 segir að kúbverska menntakerfið sé það besta í latnesku Ameríku. Samt  er Kúba bara í 67 sæti mannþróunar ( e. human development) samkvæmt mannþróunarstaðli S.Þ. Hann á að mæla velferð sem ekki er auðveldlega mæld með stöðlum um verga landsframleiðslu, til dæmis menntun og heilbrigðisástand. Ekki eru allir vinstrimenn hrifnir af Kúbu kommúnismans. Spænski rithöfundurinn Fernando Arrabal varð að flýja Spán Francos vegna vinstriskoðana. En Kúba hreif hann ekki. Fyrir rúmum þrjátíu árum skrifaði hann bókina Bréf til Fidels árið 1984. Þar beinir hann orðum sínum til Fidels Castro og fer hörðum orðum um stjórnarfarið. Það sé ekki einu sinni rétt að menntakerfið hafi batnað, árið 1984 hafi háskólastúdentum fækkað hlutfallslega um helming frá byltingunni (1959).  Meðallaun verkamanna hafi ekki aukist frá 1959 til 1984 en kaffi þrjátíufaldast að verði. Castro sé þjófráðungur (e. cleptocrat), hann eigi 25 glæsiíbúðir og lystisnekkju, stærri en þá sem Onassis átti. Gallinn við bók Arrabals er að hann vitnar hvergi í heimildir. Þó má þess geta að fyrrum lífvörður Castros, Juan Reinaldo Sanchez, tekur í sama streng um líferni kúbverska leiðtogans, hann eigi heila eyju og lifi þar í vellystingum pragtuglega.

Lokaorð

Um sannleiksgildi þessara staðhæfinga skal ekki fjölyrt. Ekki heldur um áðurnefndar staðtölur, taka ber allri statistík með varúð, ekki síst þeirri sem kemur frá einræðisríkjum. Lesandinn verður sjálfur gera upp við sig hvort hann telji Kúbu paradís verkalýðsins eða ömurlegt einræði. Eða undarlega blöndu beggja.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni