Kalli og kapítalistarnir
Karl Th. Birgison skrifaði snaggaralega ádrepu hér á Stundinni um Gunnar Smára og sósíalistatilburði hans. Ég var sammála mörgu en hnaut um eina setningu, þar stóð að auðmenn hefðu sjaldnast völd nema fyrir fulltingi stjórnmálanna.
Vald auðsins
Svar mitt er að nokkuð mörg dæmi eru um hið gagnstæða, að ríkisbubbar og stórfyrirtæki hafi öðlast talsverð völd án aðkomu ríkisins. „Besta“ dæmið um þetta er breska Austur-Indíufélagið sem Þorvaldur Gylfason gerði að umtalsefni í prýðilegum pistli. Félag þetta nánast lagði Indland undir sig án teljandi stuðnings breska ríkisins. Það varð að hnattrænu stórveldi sem stofnaði risastóran einkaher (sjá um það hér grein eftir William Dalrymple sem skrifað hefur mikla bók um félagið). Karl Marx hélt því fram að félagið hefði lært klæki sína af hollenska Austur-Indíufélaginu sem átti mikinn þátt í að koma því sem nú heitir Indónesía undir hollenska stjórn (sjá hér).
Athugum gylltu öldina amerísku 1870-1905. Markaðurinn bandaríski var á þessum árum nánast frjáls, hlutur ríkisins í þjóðarframleiðslu um 2-3% og ekkert velferðarkerfi. Undantekningarnar frá reglunni um markaðsfrelsi voru háir verndartollar. Samt eða þess vegna náðu auðkýfingar eins og Carnegie og Rockefeller að öðlast einokunaraðstöðu með markaðsklækjum einum.
(Skylt er að geta þess að frjálshyggjuhagfræðingurinn F.A. Hayek telur að verndartollarnir hafi átt mikinn þátt í að skapa einokun. En höfðu þeir mikið að segja fyrir jafn stóran markað og þann bandaríska?)
'Auð sinn notuðu þessir menn og „starfsbræður“ þeirra til að kaupa dómara, stjórnmálamenn og hafa óviðurkvæmileg áhrif á úrslit kosninga.
Tölvu- og netfyrirtækin í Kísildal hafa náð svipaðri einokunaraðstöðu og Standard Oil og US Steel á gylltu öldinni. Ekki verður séð að ríkið bandaríska hafi skapað þessa einokun, það þótt framlag ríkisins til grunnrannsókna og þörf hersins fyrir háþróaðan tölvubúnað hafi verið tölvubransanum mikil lyftistöng. Án þessara ríkisþátta væri tölvu- og netbransinn tæpast til en ekki verður séð þessir þættir hafi stuðlað að einokun.
En hvernig varð Kísildalseinokunin til? Eins og ég segi í bók minni Kredda í kreppu er ástæðan sennilega að miklu leyti sérstakra einkenna þess varnings sem þau framleiða. Microsoft er svo gott sem heimseinokunaraðili á forritunarmarkaðnum, sú einokun var ekki sköpuð af ríkisvaldinu. Það kostar firnaháar fjárhæðir að búa til nýja útgáfu af Windows en bókstaflega ekkert að afrita þær. Norski fræðimaðurinn Bent Sofus Tranøy segir að við þessar aðstæður er stórrekstur mjög hagkvæmur, kostnaðurinn dreifist á urmul afrita en um leið er mjög erfitt fyrir keppinautana að komast inn á markaðinn því ný forrit eru ógnardýr. En athugið að það er engan veginn gefið svo muni vera til frambúðar, kannski finnur einhver snillingur aðferð til að framleiða hræódýr forrit. „Allt er í heiminum hverfult“, þar með talið einokunaraðstaða.
Hvað um það, fyrir aldarfjórðungi tók hinn fokríki George Soros stöðu gegn breska pundinu og tókst með markaðsbrögðum einum að skaða það verulega með slæmum áhrifum á afkomu Breta. Og ekki alls fyrir löngu afhjúpaði þýska tímaritið Der Spiegel leynilegan kartell-samning þýsku bílaframleiðenda, þar sem þeir lofuðust til að keppa ekki hver við aðra. Slíkir samningar eru líklega ekki óalgengir og hafi áhrif á efnahagslega afkomu fjölda manns.
Bara auðvald?
Nú kann einhver að spyrja hvort ég telji slíkar uppákomur regluna en ekki undantekninguna í kapítalískum samfélögum. Svar mitt er nei, það er sjálfsagt að minnsta kosti jafn algengt að auðmenn verði valdamiklir þökk sé stjórnmálatengslum. Enn spyr „einhver“ hvort ég telji að auðstéttin hafi öll völd í nútímasamfélagi, eru það réttnefnt auðvaldsamfélag? Aftur svara ég neitandi en bendi á að hætta á auðvaldi sé kerfislæg hætta í markaðssamfélagi, samanber þróunina í Bandaríkjunum á gylltu öldinni og þróun vestrænna samfélaga í dag.
Gagnstætt þessu taldi Marx að vald auðstéttanna og stéttarbarátta hennar við verkalýðinn væri grunnþáttur og hreyfiafl kerfisins. Reyndar taldi hann að auðmagnið drottnaði yfir samfélaginu án aðkomu manna, jafnt auðmenn sem verkamenn væru þrælar þess. Auðmagnið væri eins og búktalari sem talar í gegnum okkur, skapar drjúgan hluta af hugsunarhætti okkar. Þessi kenning er æði langsótt, er ekki skynsamlegra að tala um mörg auðmögn fremur en eitt? Tæpast getur mýgrútur auðmagna verið alvaldur.
Alla vega viðurkenndi Marx stundum að ríkið væri sjálfstæð höfuðskepna sem ekki væri endilega á valdi auðmanna. Til dæmis í greininni „Borgarastríðið í Frakklandi“ segir hann að borgarastéttin franska hafi gefist upp á að stjórna um 1848 og falið ríkinu mestöll völd. Eins og ég hef löngum sagt: Ríkið hefur sínar ástæður sem auðvaldið veit ekkert um. Ríkisstarfsmenn og stjórnmálamenn hafa sinna hagsmuna að gæta og engan veginn gefið að þeir séu hinir sömu og hagsmunir stórauðvaldsins.
Það er ekki mjög frjótt að skilja vestræn nútímasamfélög sem stéttasamfélög þar sem borgarastéttin hefur öll völd. Frjórra að líta á þau sem samfélög þar sem nokkur fjöldi valdahópar er næst valdatindinum en þessar valdahópar halda aftur hver af öðrum m.a. með því að bítast um völd og áhrif (auðstéttir ýmsar, stjórnmálamenn, jafnvel menningarvitar og álitsgjafar geta myndað slíka hópa). Auk þess hefur alþýða manna viss völd, bæði sem kjósendur og neytendur.
Það sem ég hef reifað hér er fjölelítulíkanið sem vinsælt er í stjórnmálafræði. Athugið að Teddy Roosevelt gat dregið vígtennurnar úr stórfyrirtækjunum. Það hefði hann ekki getað gert ef þau hefðu verið allsráðandi og stjórnmálamenn bara þjónar þeirra. Norrænir kratar hefðu heldur ekki getað vængstýft auðvaldið ef það hefði haft öll völd.
En á síðari árum hafa menn farið að tala um hlutdræg fjölelítusamfélög, þ.e. samfélög þar sem einn valdahópur er tekinn að skáka hinum. Bandaríkin væru á leið með að verða slíkt samfélag eins og þau voru á gylltu öldinni. Ég leiddi getum að því í bloggfærslu fyrir nokkrum árum að Ísland væri á sömu leið. Það er kunnara en frá þurfi að segja að nokkur hluti stjórnmálastéttarinnar er nátengdur auðvaldinu, ekki síst þeim geira sem ráðskast með kvóta.
(Þó er vandséð að þessir hópar myndi eiginlega valdastétt, það sem m.a. mælir gegn eru nýjar staðtölur sem sýna eiga að félagslegur hreyfanleiki á Íslandi sé með þeim mesta í heimi. Valdastéttir hindra slíkan hreyfanleika).
Þessi kenning um hlutdrægt elítusamfélag er í samræmi við það sem segir um kerfislæga hættu á auðvaldi. Gætu risið upp fyrirtæki á borð við Austur-Indíufélagið sem hafa sína eigin heri og völd á við öflug ríki?
Hvernig leysa vandann? Í tilvikum þar sem auðvald er sköpunarverk ríkisins þá kann aukið markaðsfrelsi að vera leið til að draga úr einokun. Þó þekki ég ekkert skárra móteitur gegn þessum ósóma en einhvers konar jafnaðarstefnu, helst mildaða með smá frjálslyndi. Um það erum við Karl örugglega sammála.
Athugasemdir