Jón Ólafsson og kreppa frjálshyggjunnar
Jón Ólafsson skrifaði ágætan pistil um kreppu frjálshyggjunnar hér á Stundinni. Hann bendir á ýmsa annmarka þess að einkavæða alla almannaþjónustu.
Um leið segir hann réttilega að einkarekstur geti gegnt mikilvægu hlutverki í slíkri þjónustu.
Að svíkja helga hugsjón
En ég hnaut um eina staðhæfingu Jóns, þá að margir af helstu frjálshyggjumönnum Íslands væru „…engir sérstakir frjálshyggjumenn, heldur fyrst og fremst málsvarar ákveðinna prívathagsmuna“.
Þetta er eins og að segja að Stalín gæti ekki talist sósíalisti eða marxisti því hann hafi hreint ekki eflt alþýðuvöld eins og gera átti samkvæmt Kenningunni.
Heimspekingurinn Leszek Kolakowski hafði lög að mæla er hann sagði að þótt þróunin frá Marx til Stalíns hafi ekki verið óhjákvæmileg þá hafi hún heldur ekki verið nein tilviljun.
Mín kenning er sú að eitthvað svipað gildi um frjálshyggjuna.
Þróunin frá Friedman og Rand til eiginhagsmuna-einokunar-þjónanna meðal íslenskra frjálshyggjumanna var ekki óhjákvæmileg, en heldur engin tilviljun.
Sjáum nú hvers vegna.
Ofstæki, eiginhagsmunir og hugsjónasvik
Í fyrsta lagi á frjálshyggjan það sameiginlegt með marxismanum að vera stefna sem heillar ofstækismenn. Slíkir menn sjá venjulega það þeir vilja sjá, sjá einatt ekki þegar þeir sjálfir brjóta gegn Kenningunni.
Ástæðan er sú að báðar þessar stefnur hafa lykla að öllum skrám, lausn á öllum samfélagsvanda. Slíkt heillar hina ofstækisfullu.
Í öðru lagi hampa flestir skólar frjálshyggjunnar eiginhagsmunapoti. Skírast kemur það fram í svonefndri hlutlægnishyggju Ayn Rands. Hún vegsamar eigingirni.
Milton Friedman neitaði því að hann væri eigingirnis-sinni.
Samt telur hann af og frá að einkafyrirtæki eigi að sýna samfélagslega ábyrgð, það muni skekkja hinn ginnhelga markað.
Þau eigi að hámarka gróða sinn á frjálsum markaði.
Þá muni allir græða.
Sem sagt: Græðgi er góð, eigingirni ágæt. Og Friedman er ekki samkvæmur sjálfum sér, segir í einu orði að hann sé ekki eigingirninnar megin, í næsta orði telur hann eigingirni flestra meina bót.
Auðvitað eru hugsjónasvik eins algeng og kvef, eiginhagsmunapot líka.
En lítum á manninn sem trúir á þetta guðspjall eigingirni og græðgi.
Er hann ekki líklegri (að öllu jöfnu) til að láta sérgirni trompa hugsjónir en sá sem ekki trúir á guðspjallið?
Þróunin frá frjálshyggju til einokunar-eigingirni er ekki óhjákvæmileg en hún er heldur engin tilviljun.
Óframkvæmanleg hugsjón
Í þriðja lagi er erfitt, jafnvel ómögulegt, að koma frjálsum markaði á koppinn.
Hvers vegna er svona erfitt að raungera markaðsfrjálst samfélag?
Svarið við þessari spurningu er margþætt, við skulum láta nægja að ræða tvo þætti.
Lítum fyrst á málflutning nóbelshagfræðingsins vaska, Joseph Stiglitz.
Hann segir að frjáls markaður hafi að forsendu að allir markaðsgerendur þekki alla mögulega kosti sem markaðurinn bjóði upp á, hafi fullkomna yfirsýn yfir hann.
En slíkt sé ekki mögulegt í þeim táradal sem mennirnir byggja, enginn er alvitur.
Auk heldur hafi frjáls markaður að forsendu að allir markaðsgerendur hafi jafnmikla þekkingu, jafn góða yfirsýn yfir kosti.
En þekking markaðsgerenda sé einatt ósamhverf (e. asymmetric), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir þegar markaðsþekking er annars vegar.
Það er munur á Jónu og séra Jóni í markaðsprestakalli, hinir ríku og voldugu hafi meiri aðgang að markaðsþekkingu og eigi betri færi en sauðsvartur almúginn.
Þess vegna geti frjáls markaður ekki verið til.
Þessa staðhæfingu má efla rökum breska heimspekingsins John Grays. Hann var áður frjálshyggjumaður og ráðgjafi Thatchers en vitkaðist.
Hann segir að allar tilraunir til að raungera alfrjálsan markað séu dæmdar til að misheppnast enda verði þær aðeins framkvæmdar með því að efla ríkisvaldið til muna.
Það hafi Thatcher orðið að gera til þess að geta markaðsvætt af viti, t.d. varð hún að siga ríkinu á verkalýðsfélögin.
Auk þess hafi orðið að beita ríkisvaldinu fyrr á öldum til að skapa einkaeign á bresku beitarlandi sem áður var almenningur.
Almenningur hafi einfaldlega verið rekinn af almenningnum svo hægt yrði að skapa “frjálst” markaðskerfi.
Í ofan á lag verði ríkið að borga fyrir markaðsbresti sem einkavæðingin skapi.
Gray hefði getað nefnt hina rótttæku einkavæðingu raforku í Nýja Sjálandi.
Hagfræðingurinn John Kay gerir hana að umtalsefni og segir að hún leitt til versnandi þjónustu og margra vikna rafmagnsleysis í Auckland-borg.
Að lokum varð herinn að skerast í leikinn og bjarga málunum. Eitthvað hefur það kostað skattgreiðendur.
Gray segir vandan þann að tilraunir til að auka markaðsfrelsi þýði eflingu ríkisvaldsins sem aftur dragi úr slíku frelsi.
Tilraunir til víðtækrar einkavæðingar séu því dæmdar til að misheppnast.
Mín niðurstaða er sú að erfitt sé að ásaka frjálshyggjumenn fyrir að hafa ekki framkvæmt hið óframkvæmanlega, þ.e. öldungis markaðsfrjálst samfélag.
Lokaorð
Best er að hunsa pólitísk hugmyndakerfi, gjalda varhug við Hugsjónunum Miklu og Kenningunum Sönnu.
Hvort sem þær eru ættaðar frá vinstri, hægri eða miðjunni.
P.S. Það sem hér segir um Rand, Friedman, Stiglitz, Gray og Kay á sér rætur í bók minni Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni, bls. 21-22, 71-80, 243-245 og víðar.
Ég ræði ögn um gagnrýni Kolakowskis á marxismann í „Marx í boði banka. Um Kommúnistaávarpið“, Skírnir (hausthefti),2011, bls. 397-422.
Athugasemdir