Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Jón Daníelsson um G&G málið. Fyrri hluti.

 

 

Ég vil þakka Jóni Daníelssyni fyrir að senda mér bók sína um Guðmundar og Geirfinnsmálið, Sá sem flýr undan dýri. Það er ýmislegt forvitnilegt í henni, sérstaklega þegar hann ræðir mögulega vanhæfni og léleg vinnubrögð lögreglu, jafnvel sumra Sakadómara. Þess utan á hann hrós skilið fyrir að halda ágæta vel á penna.

En að öðru leyti er bókin meingölluð, jafnvel léleg. Flestar staðhæfingarnar um meint misferli í G&G málinu svífa í lausu í lofti, sannanavana. Sumar varða jafnvel við meiðyrðalög.

Inngangur

Á yfirborðinu virðist Jón hafa vandað sig og safnað miklum upplýsingum og verið nákvæmur. Gallinn er sá að Jón vanvirðir allar nákvæmnis- og sannanakröfur   þegar hann reynir að rökstyðja sínar megintilgátur. Þessar tilgátur   svífa í lausu lofti og mega kallast „dylgjutilgátur“, sumar jaðra við meiðyrði. Ekkert bendir til þess að hann hafi neinar sannanir fyrir þeim.

Um hvaða tilgátur er að ræða? Þær að einhvers konar allsherjar samsæri hafi verið í gangi gegn sakborningum, að játningarnar hafi verið skáldaðar af rannsóknarlögreglu og að dómarar hafi brotið lög við meðhöndlun málsins. Ég mun nú leitast við að sýna fram á að þessar tilgátur séu hreinar getgátur, jafnvel skáldskapur Jóns. Í því sambandi mun ég rökstyðja að eins og málin horfðu við dómurunum bæði Sakadómi 1977 og Hæstarétti 1980 virtist samkvæmt lögum og fyrirliggjandi sönnunargögnum alls ekki óeðlilegt að sakfella sakborninga en að dómararnir hafi vel mögulega verið blekktir. Það er auðvelt að vera vitur eftir á og segja að í ljósi þess sem síðar hefur komið fram um málið hafi verið eðlilegra að sýkna sakborninga.

Hvað sem því líður ber að viðurkenna að margt var skrítið, jafnvel gruggugt við þessi mál. Lögreglurannsóknin virðist hafa verið hálfgert klúður og Sakadómur sýndi óþarfa dómhörku. Hann dæmdi sakborninga í langt gæsluvarðhald og einangrunarvist, við réttarhöldin voru tveir þeirra dæmdir í ævilangt fangelsi (bls. 119). Út af fyrir sig var það í samræmi við bókstaf lagana en varla í anda þeirra. Það fylgir sögunni að Hæstiréttur mildaði þann dóm verulega (bls. 120-124).

Ég tel líklegt að sakborningar hafi verið saklausir en mjög ólíklegt að illur ásetningur hafi valdið því að þeir voru dæmdir. Ég mun hefja mál mitt á því að gera grein fyrir eðli þeirra rök- og þekkingarvillna sem koma við sögu í kveri Jóns. Að því búnu mun ég taka megintilgátur hans skipulega fyrir í tveimur færslum. Athugið að þessar færslur eru firnalangar, áhugamenn ættu að prenta þær út.

Undirkaflarnir í þessari fyrri færslu eru eftirfarandi:1. Rök- og þekkingarvillur 2. Viðvaningsháttur lögreglu. 3. Karl Schütz, Hitler G&G málsins? 4a. Játningarnar (fyrri hluti).

Í síðari færslu: 4b Játningarnar (harðræðisrannsóknir,  sálfræðikenningar). 5. Fjarvistar- og sakleysissannanir 6. Dylgjur um dómara. 7. Lokaorð.

1.Rökvillur og þekkingarvillur

Eins og lesandi mun sjá beitir Jón hvað eftir annað ad hominem rökum, gefur mönnum sjálfdæmi, hrapar að niðurstöðum, lendir í mótsögn við sjálfan sig, gerir sig sekan um „ásetningarvillu“, hefur hneigð til að trúa á samsæriskenningar, setur fram staðhæfingar án sannanna og sýnir skilningsleysi á fjölbrigði kenninga. En áður en lengra er haldið verður útskýra sum af þeim hugtökum sem hér koma við sögu.

Hvað er átt við með „fjölbrigði kenninga“? Það að sérhvert safn staðreynda megi skýra með fjölda meira eða minna jafngóðra kenninga. Eðlisfræðikenningar um að ljósið væri eindakyns og sú að það væri bylgjufyrirbæri gátu skýrt velflestar staðreyndir jafnvel. Á tímabili virtist bylgjukenningin hafa unnið afgerandi sigur en seinna var báðum kenningunum steypt saman (t.d. Brown 1992, bls. 131-132). Að breyttu breytanda má finna fleira en eina kenningu sem skýra Guðmundar og Geirfinnsmálið jafn vel. Ég mun sýna fram á að ýmsar þær staðreyndir sem Jón skýrir með kenningum um illan ásetning, jafnvel samsæri, megi skýra jafn vel eða betur með tilvísun til vanhæfni lögreglu. Oftrú hans á samsæriskenningum kemur m.a. fram í því að hann skortir sannanir fyrir þeim og athugar ekki aðra möguleika.

Hvað er átt við með „ad hominem rökum“? Að beita slíkum rökum er að taka manninn, ekki staðhæfingar hans, venjulega með þeim hætti að bera brigður á staðhæfingar hans með því að gera manninn tortryggilegan: „Þú segir þetta bara vegna þess að þú öfundar Gunnu“. Jón beitir slíkum „rökum“ m.a. þegar hann „skýrir“ þá staðreynd að fjölmiðlar gagnrýndu ekki rannsókn lögreglunnar með því að þeim hafi verið nauðsyn hafa gott samband við hana, annars myndi sala blaða minnka (bls. 258). Fyrir þessu hefur Jón engar sannanir. Í tilvikum þegar sakborningar hafa sagt eitthvað sem ekki hæfir tilgátum Jóns afgreiðir hann yrðingar þeirra með tilvísun til sálarástands þeirra. Til dæmis „skýrir“ hann játningu Alberts Klan með því að hann hefði ávallt verið jámaður (bls. 153). „Heimildin“ er náttúrulega Albert sjálfur, ekki eina skiptið sem Jón gefur sakborningum sjálfdæmi. Þess utan athugar hann ekki að jámaður gæti rambað á sannleikann, játað af einlægni.

Víkjum aftur að eftirlætisrökum Jóns, ad hominem rökunum. Ein meginveila þeirra er að þau eru það sem ég kýs að nefna „bjúgverplarök“. Þau lenda í hausnum á þeim sem beitir þeim. Afgreiða má staðhæfingar Jóns með því að gera honum upp annarlegar hvatir. Þannig bitna ad hominem rök hans á honum sjálfum, vopnin snúast í höndum hans.

Hvað er átt við með „ásetningarkenningu“? Það er nýyrði mitt og þýðir „trú á að illur, meðvitaður ásetningur ráði miklu um margþætta, dramatíska viðburði“. Trú á slíkar kenningar leiðir oft til þess að menn fremji „ásetningarvillu“. Sú villa felst í ofurtrú á ásetningarkenningar og barnaleg sannfæring um að auðvelt sé að geta sér til um ásetningu manna, jafnvel þótt þeir hafi verið látnir um langt skeið.

Þeim sem þessu trúa væri hollt að íhuga visku Hávamála:

„Hugur einn það veit er býr hjarta nær,

einn er hann sér um sefa.“ (vísa 95).

Jón talar eins og illur ásetningur hafi verið meginhreyfiafl G&G málsins og að ekkert mál sé að sanna hvaða ásetning gerendur höfðu þótt þeir séu flestir komnir undir græna torfu. Hann fremur ásetningarvillur villevekk.

Bæta má við að ýmislegt bendir til þess að drjúgur hluti af vitrænni starfsemi manna sé ómeðvitaður. Vitundin geti ekki höndlað allar þær upplýsingar sem skynfæri okkar gefa, því vinni heilinn úr þeim án okkar vitundar. Nefna má að menn geta ekið bíl án umhugsunar , það þótt akstur krefjist vitrænnar starfsemi (t.d. P. Churchland 2013). Hafa ber í huga að tölvur stunda vitræna starfsemi á háu plani en ekkert bendir til þess að þær séu meðvitaðar. Ómeðvitaðir fordómar gætu líka haft áhrif á gjörðir lögreglu og dómarar, vestanhafs eru nú tölvur látnar dæma í vissum málum vegna þess að öruggt sé að þær hafi ekki slíka fordóma. Vandinn er sá að illmögulegt er að sannreyna tilgátuna um ómeðvitaða fordóma í G&G málinu þar eð stór hluti gerenda er látinn og aðstæður allar gerbreyttar. En hér ber að slá varnagla, margt bendir til þess að sálfræði og skyld fræði séu ekki komin langt í skilningi á sálarlífinu (sjá t.d. Nosek og fleiri 2015). Þess vegna eru engar þvingandi ástæður til að trúa kenningunni um ómeðvitaða vitræna starfsemi. Samt gæti hún verið sönn, sé svo veikist ásetningarkenningin fyrir vikið, og þar með málflutningur Jóns.

Hvað er átt við með „samsæriskenningum“? Slíkar kenningar eiga að skýra flókin og margþætt ferli með tilvísun til allsherjar samsæris og eru því ákveðin gerð ásetningakenninga. Þær eru einatt settar fram án tækra sannana. Það þýðir ekki að rangt sé að gera ráð fyrir smá-samsærum, þau eru eins algeng og kvef. En auðvitað verða menn að hafa einhverjar sannanir fyrir þessum litlu samsærum.

Samsæriskenningar eru líka bjúgverplarök, sá sem vill skýra dramatíska viðburði með samsærum án þess að hafa sannanir fyrir þeim getur uppskorið ásakanir um að kenningar hans séu liður í samsæri. Það gildir líka um Jón, einhverjum gæti dottið í hug að segja að skrif hans væru bara liður í samsæri og/eða illur ásetningur sé að baki. Tekið skal fram að Jón segir hvergi beinum orðum að G&G málið megi skýra með tilvísun til stór-samsæris, samt er freistandi að túlka ásetningarkenningar hans sem verandi af samsæristoga. Þar eð samsæriskenningar um G&G málið hafa verið vinsælar skulu slíkar kenningar gagnrýndar hér. Ekki er óalgengt að menn setji fram samsæriskenningar til að skýra dramatíska og flókna atburði. Til dæmis „skýra“ Gyðingahatarar dramatíska heimsviðburði með tilvísun til samsæris Gyðinga, „heimildin“ er einatt bókin Gjörðabók öldunga Zíons. Vandinn er sú að bókin var nánast örugglega fölsuð, samin af leyniþjónustu Rússakeisara (sjá Encyclopedia Britannica).

Í ofan á lag hefur heimspekingurinn Karl Popper bent á að litlar líkur séu á að veröldinni sé stjórnað af duldum samsærismönnum. Hún sé einfaldlega of flókin til þess að henni verði stjórnað þannig (Popper 1963/1994: 165-168 og víðar). Nasistar hafi gert tilraun til meginsamsæris en það hafi blessunarlega misheppnast. Yfirleitt sé frjórra er að skýra dramatíska stórviðburði sem óætlaðar afleiðingar (e. unintended consequences) fjölda ákvarðana. Hann tekur sem dæmi mann sem hyggst selja húsið sitt. Sá vill fá sem hæst verð fyrir það en það að bjóða húsið til sölu eykur framboð á húsnæði og hefur þau áhrif að verðið lækkar. Þvert gegn ætlun mannsins. Ég hygg að hann hafi á réttu að standa og vil benda á að varla nokkur ráðamaður vildi hefja heimsstríð árið 1914, stríðið var óætluð afleiðing margra ákvarðana. Einnig má nefna að hagfræðingar beita einatt þess lags skýringum, samanber dæmi Poppers.

Við má bæta  að oft má skýra dramatíska atburði sem keðju af samhangandi tilviljunum og fjölda „smárra“ viðburða sem ekki hafa neinn rauðan þráð sem tengir þá. Óreiðukenningin sýnir slíkar keðjur, samkvæmt henni getur það að fiðrildi blaki vængjum á tilteknum stað á tilteknu augnabliki verið dropinn sem fyllir mælinn, það sem þarf til að skelfistormur verði 1000 kílómetra í burtu. Mikill viðburður á sér ekki endilega mikla orsök en stundum keðju „lítilla“ orsaka. Kosningasigur Trumps kann að vera dæmi um slíkt, hefðu 77000 manns í þremur fylkjum kosið öðru vísi eða setið heima hefði hann ekki orðið forseti. Hefðu Demókratar valið öflugri andstæðing hefði hann tæpast sigrað, "skítur skeður".  Kannski má skýra megi ferlið í G&G málinu sem keðju margra, óskyldra viðburða og/eða með því að telja það óætlaða afleiðingu fjölda ákvarðana. Illur ásetningur ákveðinna aðila kann að hafa haft eitthvað að segja en varla verið burðarás málsins. Eins og áður segir er hægt að skýra sömu viðburði með ýmsum meira eða minna jafngildum kenningum. „Óreiðukenningin um G&G málið“ er ekkert verri en samsæriskenningar án sannana, nánar um hana í lok síðari færslu.

Popper hélt því fram að ást manna á samsæriskenningum stafaði m.a. af barnalegri sannfæringu um að sannleikurinn lægi einatt á lausu. Sé sannleikurinn hulinn sé það vegna að vondir menn hafi gert samsæri um að hylja hann. Jón virðist sama sinnis, hann virðist gefa sér að dómarar og rannsóknarlögreglumenn hafi vitað að sakborningar væru saklausir en hafi gert samsæri til að hylja sannleikann (t.d. bls 205 og 238). Eins og sýnt verður fram á hefur Jón engar sannanir fyrir þessu.

Popper bendir á að erfitt sé að höndla sannleikann og að þekkingarskortur valdi miklu um atferli manna en samsærissinnar skilji það ekki heldur vilji skýra slíkt atferli með samsærum. Þeir telji sjálfa sig alvitra. Ég mun leiða rök að því að sá möguleiki sé fyrir hendi að dómararnir hafi ekki haft nógu miklar upplýsingar um G&G málið án þess að vera í aðstöðu til að vita það. Þessi þekkingarskortur gæti hafa valdið miklu um atferli þeirra, þ.e. dómsuppkvaðningarnar. En auðvitað er spurningin um samsæri reyndaratriði, ég útiloka ekki að samsæri hafi komið við sögu sem einn af mörgum þáttum málsins. Ég á m.a. við þann möguleika að pólitíkusar hafi kippt í þræði rannsóknarlögreglu til að bjarga sér tengdum Klúbbmönnum úr prísund, jafnvel reynt hylma yfir með einhverjum mögulegum ástmanni konu Geirfinns (Jón hafði litla trúa á sekt ástmannsins (bls. 18-19) en síðan hefur verið gerð heimildarmynd þar sem annað er gefið í skyn). Líka að einhverjir lögreglumenn hafi vísvitandi blekkt verjendur og dómara. Slíkt smá-samsæri kann að hafa verið liður í langri keðju þar sem vanhæfni lögreglu og alls konar tilviljanir hafi komið við sögu. En eru til afgerandi sannanir fyrir þessu mögulega smá-samsæri? Ekki mér vitanlega.

Vanþekking Jóns á eðli þekkingar veldur því að hann sér ekki að í G&G málinu má finna fjöldann allan af álitamálum, vafa- og túlkunaratriðum. Fólk sem trúir á samsæriskenningar skilur ekki slíkt og alls ekki að mistök geti átt sér stað, að mannlegt sé að skjátlast. Ég mun síðar ræða þann möguleika að slík mistök hafi verið gerð í meðferð G&G málsins. Hvað um það, Jón talar eins og sannleikurinn sé auðfundinn, alla vega sannleikurinn um G&G málið. Engin ástæða er til að ætla að svo sé, eins og ég mun síðar sýna fram á.

Víkjum að sjálfdæmi, ekki er til siðs að gefa mönnum sjálfdæmi, enginn er dómari í sjálfssök, hvorki í sakamálum, vísindum né öðru. Ef svo væri þá mundu rithöfundar geta ritdæmt eigin bækur og sakborningar dæmt í eigin málum. Í ofan á lag geta menn logið, trúað eigin lygum, séð það sem þeir vilja sjá, og treyst brigðulu minni sínu, minni sem kannski blekkir þá. Ýmsar rannsóknir benda til þess að valt sé að treysta á viðburða-minni, (e. episodic memory). (sjá t.d. Loftus 1997: 70-75). Ég var full gagnrýnin á þessa kenningu í fyrri færslu, m.a. vegna þess að ég hélt ranglega að hún varðaði allar gerðir minnis. Í ljósi þessa er rangt að selja mönnum sjálfdæmi en þá sölumennsku stundar Jón grimmt, t.d. þegar hann segir að Erla Bolladóttir hafi reynt að koma vitinu fyrir Karl Schütz (á blaðsíðu 252). Heimildin fyrir þessu getur ekki verið önnur en Erla sjálf, sé svo gefur Jón henni sjálfdæmi. Hún gæti vissulega hafa sagt sannleikann en ekki verður séð að tækar sannanir séu fyrir því. Eins og áður segir gaf Jón Alberti sjálfdæmi um jámennsku. Hvað er átt við með orðasambandinu „að hrapa að niðurstöðum“? Það að draga ályktanir af gefnum forsendum sem alls ekki eiga sér stoð í forsendunum. Jón gerir sig sekan um slíka rökvillu þegar hann dregur þær ályktanir af upplýsingum um ólíka meðferð Klúbbmanna og sakborninga að Klúbbmenn hafi fengið betri meðferð vegna þess að þeir voru ekki utangarðsmenn í samfélaginu, gagnstætt sakborningum. Forsendur Jóns eru m.a. tölulegar upplýsingar um það hve oft þessir aðilar hafi notið lögmannsþjónustu á tilteknu, klúbbmenn notið hennar mun oftar en sakborningar (bls. 248-251). En af þessum forsendum er alls ekki hægt að draga þá ályktun að klúbbmenn hafi fengið betri meðferð vegna stéttarstöðu sinnar. Í ofan á lag hefur Jón engar sannanir fyrir þessari staðhæfingu, hann fremur hér eina af sínum helstu þekkingarvillum, þá að setja fram staðhæfingar án sannanna. Auk þess má skýra þessa mögulegu betri meðferð klúbbmanna með ýmsum öðrum hætti, t.d. með viðvaningshætti lögreglu en svo virðist sem hægri hönd hennar hafi ekki vitað hvað sú vinstri gerði (nánar um það síðar). Kannski þeir áttu frænda í löggunni. Jóni til varnar skal sagt að Klúbbmenn áttu volduga vini, kannski fengu þeir sérmeðferð þess vegna og áttu auðvelt með að losna úr prísundinni af sömu ástæðu (um vini þeirra, sjá bls. 47-48).

Víkjum að lokum að sönnunum. Afgerandi góðar sannanir fyrir staðhæfingum Jóns um meint lögbrot lögreglu og dómara myndu helst vera eiðsvarnar játningar hlutaðeigandi eða vitnisburður fleiri en eins aðila sem til þekktu, bréf og skjöl þar sem skýrt kemur fram að lögregla og dómarar hafi brotið lög. En í þeim táradal sem mennirnir byggja er sjaldan völ á svo fullkomnum sönnunum, vinnureglan hlýtur að vera sú að því fleiri af þessum afgerandi góðu sönnunum sem menn bjóða upp á, því betra. Eins og menn munu sjá hefur býður Jón sjaldnast upp á eina eða neina af þessum sönnunum, nokkuð sem gerir mestan partinn af málflutningi hans grútmáttlausan og mögulega meiðyrðandi.

2.Viðvaningsháttur lögreglu

Karl Schütz, þýska rannsóknarlögreglumaðurinn, sem fenginn var til að aðstoða íslensku lögregluna við lausn Geirfinnsmálsins, var beðinn um að koma með tillögur um endurskipulagningu lögreglunnar. Í bréfi mun hann hafa bent á að íslenskir rannsóknarlögreglumenn hefðu einungis hlotið þá menntun sem nauðsynleg var til að gegna almennum lögreglustörfum. Þeir hafi ekki haft neina þá menntun sem gerði þeim kleift að upplýsa afbrotamál. Hann bætir við að nauðsynlega verði að þjálfa verðandi rannsóknarlögreglumenn í öflun sönnunargagna og rannsóknartækni. Í ofan á lag vanti þá kunnáttu í yfirheyrslutækni, sæmilega greindir afbrotamenn geti hæglega leikið á þá (bls. 132-133).

Nefna má að um svipað leyti lá það orð á fíkniefnalögreglunni að vinnubrögð hennar væru fúskkennd. Mikilvægt er að hafa í huga að „fíknó“ var ný af nálinni og starfsmenn hennar reynslulausir, einnig að rannsóknarlögreglan hafði litla sem enga reynslu af morðmálum, dómararnir ekki heldur (þetta viðurkennir Jón fúslega bls. 131). Því má heldur ekki gleyma að fúsk, viðvaningsháttur og virðingarleysi fyrir reglum eru eins algeng og kvef á Íslandi. Sem dæmi má nefna að kjararáð mun hafa gleymt að láta gera fundargerð í tilteknu máli. Reyndar talar Jón sjálfur um hefðbundið sleifarlag Íslendinga og nefnir sem dæmi að rannsóknarhópur lögreglunnar, sem lúta átti forystu Schütz, var ekki formlega skipaður og fékk ekki einu sinni ákveðið nafn (bls. 62).  

Samt er eins og Jón sætti sig ekki almennilega við að klúður lögreglumanna hafi mögulega ráðið miklu um niðurstöður rannsókna. Það er sem hann vilji trúa því að illur ásetningur rannsóknarlögreglu hljóti að hafa um vélt enda skilja samsæriskenningasmiðir ekki annað. Klaufaskapur, reynsluleysi og túlkunaratriði eru ekki til í þeirra heimi, heimi fáfræði.

Jón segir að mikil ófærð hafi verið í Hafnarfirði nóttina sem Guðmundur hvarf, svo mikil að venjulegir fólksbílar gátu ekki ekið um götur bæjarins eftir klukkan u.þ.b. fjögur. Lögreglan hefði hreinlega látið eiga sig að rannsaka málið (bls. 170-174, 263-264). Lögreglumaður er sagður hafa gleymt að skrifa skýrslu um vitnisburð nágranna Sævars um hvort hávaði hafi borist frá íbúð hans nóttina sem Guðmundur hvarf (bls. 176). Ef satt er gætu þetta verið merki um viðvaningshátt lögreglu. Reyndar er hugsanlegt að sumir lögreglumenn hafi orðið æði ákafir í rannsókninni og eygt von um frægð og frama gætu þeirleyst málið. Kannski var ákafinn svo mikill að lög og reglur voru vanvirtar, kannski toguðu óprúttnir pólitíkusar í spottana.

Alltént er Jón þeirrar hyggju að rannsóknarlögreglumenn hafi trúað í blindni á kjaftasögur um meinta sekt sakborninganna og beitt lygum og prettum til að réttlæta handtöku (bls. 287). Hann staðhæfir að rannsóknarlögreglan hafi logið að sakborningum til að fá þá til að játa (bls. 143 og 154).

Nefna má að í Bandaríkjunum þykir sjálfsagt að blekkja sakborninga til að knýja fram játningar en það er bannað í Bretlandi. Alla vega kann hér að vera dæmi um ruddaleg vinnubrögð lögreglu og ofursterka þrá að upplýsa málið og uppskera hrós fyrir vikið. Annað dæmi kann að vera möguleg fölsun lögregluskýrslu (bls. 144). Einnig handtaka Alberts Klans Skaftasonar en Jón staðhæfir að handtaka hans hafi verið ólögmæt þar eð hann var handtekinn sem vitni og lög bönnuðu það í flestum tilvikum (bls. 154). Jón segir að í báðum G&G málunum hafi gögnum verið stungið undan og mál falin fyrir verjendum og dómurum (bls. 260).

Sé þetta rétt þá má telja kenninguna vinsælu um allsherjar-samsæri lögreglu og dómara gegn sakborningum ósanna, lögreglan hafði samkvæmt þessu hreinlega blekkt dómarana (hafi lögreglumenn logið grimmt að sakborningum væri þeim trúandi til að blekkja dómara). Hún hafi með því framið samsæri sem bitnaði á dómurunum. Í ljósi þess má telja að Jóni geri of mikið úr samkrulli Sakadómara og lögreglu (t.d. bls. 285-286). Sem dæmi um samkrull nefnir Jón að Örn Höskuldsson kvað bæði upp gæsluvarðhaldsúrskurð en tók samt þátt í yfirheyrslum (bls. 131). Um leið viðurkennir hann að Hæstiréttur hafi staðið utan við þetta samkrull (bls. 130). Alla vega telur undirritaður líklegt að talsvert sé til í gagnrýni Jóns á lögreglurannsóknina, m.a. vegna nýlegra hneykslismála sem varða lögregluna. Og reynslu af lögreglu í tveimur löndum.

3.Karl Schütz, Hitler Geirfinnsmálsins?

Af einhverjum ástæðum er Jóni einkar uppsigað við Schütz. Hann viðurkennir að þýski lögreglumaðurinn hafi verið mjög hæfur en kallar hann öllum illum nöfunum, t.d. skúrk (bls. 290). Skúrkur þessi sé greinilega þátttakandi í samsæri gegn sannleikanum (t.d. 268). Langlíklegast sé að hann hafi tekið ákvörðun um að láta Sævar, Erlu og Kristján játa sig rangar sakagiftir (bls. 269). En fyrir þessu hefur Jón engar sannanir fremur en venjulega. Áfram segir hann að Hitler-Schütz hafi augljóslega fljótlega verið búinn að uppgötva að Geirfinnsmálið væri þvæla (bls. 238). En hvar eru heimildarnar fyrir þessu? Getur Jón lesið hugsanir látinna manna? Enn og aftur setur Jón fram fullyrðingu án sannanna.

Hann heldur áfram þessum ljóta leik með því að staðhæfa að þessi Hitler Geirfinnsmálsins hafi brotið vilja sakborninga á bak aftur og fengið þá til að játa lognar (?) sakir (bls. 240 og 269). Enn á ný skortir sannanir, fullyrðing Jóns svífur í lausu lofti. Í ofan lag má teljast furðulegt að Jón treysti vitnisburði Schütz um vanhæfni rannsóknarlögreglu en engu öðru sem hann sagði.

Meginsök þýska lögreglumannsins virðist hafa verið sú að komast að annarri niðurstöðu en Jón um möguleika á akstri til Keflavíkur kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Jón telur sig geta sýnt fram að sakborningar hefðu ekki getað ekið þessa leið á nægjanlega stuttum tíma til að hafa getað verið stödd í Keflavík á þeim tíma sem morðið hafi átt að eiga sér stað. Schütz komst að annarri niðurstöðu eftir að hafa rannsakað málið í kjölinn, þau hefðu vel getað ekið þangað á þessum tíma. Ekki nóg með það, Jón ber það á Schütz að hann hlyti að hafa vitað að tímataflan stæðist ekki (bls. 205). Athugið að Schütz gat athugað akstursmöguleika á Keflavíkurveginum eins og hann var um 1975, Jón ekki. Þýski lögreglumaðurinn gat látið prófa að aka bílum frá þessum tíma, Jón tæplega. Schütz hafði mikla reynslu af rannsókn slíkra mála og sérfræðiþekkingu, Jón ekki. Hvorum á að treysta? Ég sé enga ástæðu til að treysta Schütz síður en Jóni, þar til annað sannara reynist. Eða hvers vegna höfðu verjendur sakborninga ekkert að athuga við mælingar Þjóðverjans (bls. 203)?

Jón hefur sennilega skilið að hann lendir í vandræðum hér og reynir að leysa málið með því að beita sínu uppáhalds bragði, ad hominem rökum, bera lygar og fals á Schütz. Auðvitað gæti Schütz hafa skjátlast um Keflavíkuraksturinn, Jón hafa rambað á sannleikann. En hann hefur engar sannanir fyrir því að Schütz hafi falsað niðurstöður akstursprófa. Auk heldur má telja sérkennilegt að annars vegar hafi Schütz verið fullkunnugt um sannleikann í Geirfinnsmálinu, hins vegar hafi Erlu ekki tekist að koma honum í skilning um sannleikann. Hér fremur Jón enn eina rökvilluna, hann er í mótsögn við sjálfan sig.

Eina „sönnunin“ fyrir meintu misferli Þjóðverjans er sú staðhæfing Jóns að ekki hafi verið upplýst um laun hans (bls. 270). Schütz hafi eflaust „…farið heim með nokkuð gildan sjóð“ (bls. 289). Hvernig veit Jón þetta? Hann hefur engar sannanir fyrir þessu. Ekki verður annað séð en að hann telji að Þjóðverjanum hafi verið mútað. Hver stóð fyrir því? Hvar eru sannanirnar?

Jafnvel þótt þetta kunni að vera satt að ekki hafi verið upplýst um launakjörin kunna aðrar skýringar að vera jafngóðar. Starfsmenn dómsmálaráðuneytisins gæti hreinlega hafa gleymt að bóka laun Þjóðverjans, samanber það sem áður segir um landlægt fúsk. Hvers vegna í dauðanum ætti virtur rannsóknarlögreglumaður með farsælan feril að baki allt í einu að fara að gerast lögbrjótur? Hið virta þýska vikurit Der Spiegel sagði um hann að hann væri „ein Mann von Ruf“, þ.e. mikilsvirtur maður, og dásamaði afrek hans sem rannsóknarlögreglumanns (Der Spiegel 1979, nr 39). Það er ekki í samræmi við reynslu manna að slíkir menn gerist allt í einu lögbrjótar, komnir á sjötugsaldur. „Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja“, segir máltækið, menn breytast venjulega ekki mikið, komnir á þennan aldur. Auk þess var Schütz enginn asni og ólíklegt að hann hafi tekið áhættuna á því að vera afhjúpaður, lenda í fangelsi og missa eftirlaunaréttindi.

Der Spiegel nefndi hina þekktu tilvitnun í hann, að hann hefði verið fenginn til að skera dómsmálaráðherra úr snörunni (sjá líka bls. 238). En ekki er sjálfgefið hvernig túlka eigi þessi ummæli hans, þau virðast hæðnisleg og því ólíklegt að hann hafi meint þau bókstaflega (Jón tekur þeim náttúrulega bókstaflega enda túlkunaratriði ekki til í hans heimi). Geirfinnsmáls-Hitler gæti hafa meint að svo hafi viljað til að niðurstaða sín hafi verið dómsmálaráðherra í hag þótt hann hafi alls ekki endilega stefnt að því í rannsókninni.

Auk heldur má spyrja hvers vegna Schütz lagði það á sig að koma á skipulagi og aga á rannsóknina ef hans hlutverk var bara að redda dómsmálaráðherra (bls. 61).

Þýski lögreglumaðurinn hlýtur að vera löngu látinn, ekki er það stórmannlegt að ráðast á látinn mann með þessum hætti. Þess utan gætu ættingjar Schütz vel mögulega unnið meiðyrðamál gegn Jóni.

Nema einhverjum öðrum aðila takist að sanna misferli á þýska lögreglumanninn. Jóni tekst það ekki.

4a.Játningarnar (fyrri hluti)

Jón gerir mikið úr því að sakborningar hafi breytt framburði sínum alloft og allsnöggt (t.d. bls. 32-45). En hann athugar ekki þann möguleika að þeir hafi gert það meðvitað til að rugla lögreglu í ríminu. Hið sama kann að gilda um þá staðreynd að þeir bentu stöðugt á nýja staði þar sem líkið af Guðmundi átti að hafa verið huslað (bls. 86). Einnig kunna það að hafa verið samantekin ráð með þeim að koma með misvísandi játningar í Geirfinnsmálinu (bls. 53, 68-9, 71).

En auðvitað kunna þetta að vera merki um að eitthvað hafi verið bogið við  lögreglurannsókninni, að yfirheyrendur hafi ætlað að fá fram þá niðurstöðu að þau væru sek, hvað sem það kostaði (munið fjölbrigði kenninga!). Sú er trú Jóns sem reynir að sýna fram á að játningarnar hafi verið samdar af lögreglu og/eða verið afurð sálræns þrýstings, jafnvel hótana og ofbeldis.

En við yfirheyrslu fyrir Sakadómi byrjar Sævar á því að „…rekja sögu kvöldsins nokkurn veginn í samræmi við fyrri játningar sínar“ (bls. 101). Það þýðir að hann byrjaði á að játa sekt sína í Guðmundarmálinu en dregur játninguna svo til baka við sömu yfirheyrslu og ber ofbeldi á lögreglu (bls. 101-102). Hverju áttu dómararnir að trúa? Datt þeim ekki bara í hug að Sævar hafi ákveðið að reyna að bjarga sínu skinni með því að draga játningarnar allt í einu tilbaka?  

Jón reynir að snúa sig út úr þessu með því að staðhæfa að Sævar hefði alls ekki játað eitt eða neitt heldur verið að rekja ásakanir á hendur sér til þess að neita þeim. Hann ber á dómarana að þeir hafi skýrt frá þessu með villandi hætti en „…ekki kunnað við að ljúga alveg opinskátt…“(bls. 167). Svo vill til að dómararnir voru til staðar þegar Sævar hélt sína tölu og hafa túlkað hana öðruvísi, jafnvel betur, en Jón. Alla vega er líklegt að þessi ummæli Jóns séu ærumeiðandi.

Hann lendir líka í vandræðum með fyrstu játningu Erlu, hún játaði sem vitni, áður en hún var handtekinn (bls. 55-56, 220). Varla hefur sú játning verið samin eða verið afurð mikils sálræns þrýstings. Jón reynir að bjarga kenningunni fyrir horn með því að afsaka Erlu, beita eins konar öfugri ad hominem kenningu. Hún hafi kannski óskað eftir því að komast til nýfædds barns og því játað (bls. 141). En getur kona ekki bæði þráð að komast til krakka og sagt sannleikann? Hún dró ekki játningar sínar tilbaka fyrr en mörgum árum síðar, enga þeir fyrir dóminn1977 og bara aðra fyrir dóminn 1980 (Dómur 1980, bls. 6).

Athugið að ekki er skynsamlegt að gefa mönnum sjálfdæmi, Erla er eina heimildin um sálarástand sitt við þessa yfirheyrslu. Síðar dró hún upp allt aðra mynd af málinu, m.a. yfirheyrslunum, t.d. í sjálfsævisögu sinni sem út kom árið 2008. Jón viðurkennir að margt geti skolast til á svo löngum tíma en staðhæfir samt að það sé líklegt að yfirheyrslurnar séu henni minnistæðar og ólíklegt að hún hafi skáldað þessu öllu: „Þess vegna hlýtur þessi frásögn að teljast trúverðug“ (bls. 143). Hann gefur Erlu sjálfdæmi eina ferðina enn og athugar ekki þann möguleika að minnið geti blekkt menn, Erlu ekki síður en aðra. Bæta má við að hin áðurnefnda eiðsvarna skýrsla Erlu skapar Jóni líka vandkvæði, hún var tekin eftir að Erla hafði bara verið viku í haldi og einangrun.

Eins og áður segir afgreiðir Jón játningar Alberts með því að hann hafi verið jámaður. Aftur er manni gefið sjálfdæmi og öfugum ad hominem „rökum“ beitt.

Lítum á rök Jóns fyrir því að játningarnar hafi verið skáldskapur (köllum þá kenningu „samningakenninguna um játningarnar“). Hann staðhæfir   að í dómabók segi að Sævar játi að hafa sparkað í höfuð Guðmundar en hafi ekki játað það við fyrri yfirheyrslur. Hann dregur þá furðuleg ályktun að það þýði að þessi nýja játning sé skáldskapur (bls. 163). Hvers vegna? Kannski þorði Sævar ekki að játa það fyrr, kannski mundi hann það allt einu, kannski reyndi hann að rugla lögguna í ríminu. Fleiri en ein skýring er möguleg, Jón hrapar að niðurstöðum af gömlum vana.

Miklu athyglisverðari er umfjöllun hans um lögregluskýrslu þá sem hann telur vera falsaða. Hann leiðir rök að því að skýrslan hafi að stofni til verið skrifuð eftir að yfirheyrslu Sævars hafi lokið og bætir við ýmsum eftirtektarverðum rökum fyrir því að hún hafi hreinlega verið skálduð (bls. 144-152). Vandinn er sá að verjandi Sævars var viðstaddur yfirheyrsluna og eins og Jón viðurkennir staðfesti hann skýrsluna, reyndar fjórum árum síðar. Hann telur verjandi hafi farið skýrsluvillt, talið sig staðfesta aðra skýrslu en játar að erfitt sé að skera úr um það (bls. 150-151). Hvað ef verjandinn fór ekki skýrsluvillt? Myndi ekki tilgáta Jóns um samningu skýrslunnar veikjast fyrir vikið?

Við má bæta að sú staðreynd að ekki var haft fyrir því að skrifa skýrsluna jafnharðan á meðan yfirheyrslu stóð kann einungis að vera dæmi um sleifarlag lögreglu, ekki sönnun á ásetningi um að semja játningu. Af þessu má sjá að Jóni tekst ekki að sanna samningakenninguna enda aðalheimildin sakborningar sjálfir. Með fullri virðingu fyrir þeim er ekkert vit í að selja mönnum sjálfdæmi.

Þegar litið er á játningarnar eins og þær eru raktar í Dómi 1980 virðast þær svo lifandi að freistandi er að telja þær annað hvort sannar eða stórskáld hafi verið fengið til að semja þær. Það gildir líka um hina eiðsvörnu skýrslu Erlu, sem jú var gerð skömmu eftir handtöku hennar, hún er æði lifandi (bls. 28-29). Skyldi Laxness hafa verið í aukavinnu hjá löggunni?   Að gamni slepptu er ekki hægt að útiloka að einhverjir lögreglumenn hafi haft nægt hugmyndaflug til að semja svo lifandi játningar.

Við höfum séð í þessari færslu að Jóni tekst nokkuð vel upp þegar hann gagnrýnir vinnubrögð lögreglu, þó ekki þegar hann ræðst á þýska lögregluforingjann. Jón fremur rök- og þekkingarvillur í stórum stíl og tekst illa upp er hann reynir að rökstyðja samningakenninguna um játningar. Í næstu færslu held ég áfram að ræða játningarnar, auk þess sem Jón segir um fjarvistasannanir og dómara.

Heimildir:

Brown, Erik (1992): Vitenskapsfilosofi. Bergen: Sigma forlag.

Churchland, Patricia (2013): Touching a Nerve. Our Brains, Our Selves. New York: W.W. Norton.

Der Spiegel (1979): «Bundeskriminalamt: Rest Unbehagen» nr. 39

http://www.spiegel.de/spiegel/print/d-39868883.html   Sótt 15/3 2019.

Dómur 1980 http://www.rikissaksoknari.is/media/arsskyrslur/Domur-i-mali-Haestrettar-nr.-214.1978.pdf Sótt 5/10 2018

Encyclopedia Britannica um Gjörðabók Zíons https://www.britannica.com/topic/Protocols-of-the-Elders-of-Zion  Sótt 1/6 2019.

Hávamál, í Úr Mímisbrunni. Reykjavík: Mál og menning, 1990.

Jón Daníelsson (2016): Sá sem flýr undan dýri. Reykjavík: Mýrún.

Popper, Karl (1963/1994): “Towards a Rational Theory of Tradition”. Conjectures and Refutations. London: Routledge & Kegan Paul, bls. 161-182.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni