Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þjóðinni sem seinkaði

Þýski hugsuðurinn Helmuth Plessner varð að flýja land þegar Hitler tók völdin. Í útlegðinni setti hann saman bók um vanþróun Þýskalands og kallaði „Die verspätete Nation“, „Þjóðinni sem seinkaði“. Þjóðverjar hafi nútímavæðst seinna en nágrannalönd þeirra. Þegar upplýsingaröld hófst og frjálslyndi jókst í Frakklandi og Bretlandi hafi Þýskaland verið að molna niður í smáríki þar sem furstar voru allsráðandi. Þjóðverjum seinkaði, Bretum og Frökkum ekki.  

Hvernig Íslendingum seinkaði

Svipaða sögu má segja um Ísland. Þegar nágrannalöndin tóku að nútímavæðast voru Íslendingar enn í greipum einokunarverslunar og vistarbands. Sumpart yfirstéttinni íslensku að kenna, sum part Danakonungi sem hefði verið í lófa lagið að afnema vistarbandið (því var komið á með fulltingi konungs enda var hann stærsti landeigandi Íslands). Á meðan Danakonungar leyfðu frjálsa verslun í Noregi og byggðu upp gott stjórnkerfi þar lyftu þeir ekki litla fingri til slíkrar uppbyggingar á Íslandi. Enda landið ekki hernaðarlega mikilvægt, gagnstætt Noregi. Danakonungur þurfti að hafa norska bændur góða til að geta notað þá sem fallbyssufóður. Íslenskir búandkarlar voru honum einskis virði, þeir máttu falla úr hor með fulltingi íslenskra stórbænda. Afleiðingin varð sú að  íslensku þjóðinni seinkaði. Íslensk borgvæðing gerist nánast í einu vetfangi, á fimmta tug síðustu aldar þegar herinn kom. Íslendingar fluttust í hrönnum úr einangruðum sveitum og tóku að búa í borg án þess að kunna borgaralega siðu. Lengi vel stóðu Íslendingar ekki í biðröðum enda ekki þörf á slíku í afdölum. Þeir keyra enn eins og þeir séu einir á fjallvegum, taka ekki tillit til annarra bílstjóra. Þeir finna aðeins til samstöðu með sínum nánustu rétt eins og forfeður þeirra gerðu í einangrun afdalanna. Maðurinn í næsta bíl er ekki meðal þessara nánustu og því engin ástæða til annars en að svína á honum.

Samstaða í Noregi, sundrung á Fróni

Eins og áður segir artar norsk þjóðerniskennd sig sem samstaða með dauðum, lifandi og ófæddum Norðmönnum. Þessi samstaða gerir olíusjóðin norska mögulegan, íslensk ættbálkasamstaða gerir Vafningsfléttur mögulegar. Og höfrungahlaup í kjarasamningum þar sem sérhvert verkalýðsfélag reynir að skaffa sér betri samning en hin með þeim afleiðingum að allir tapa. Gagnstætt því vinna norsk og skandinavísk verkalýðsfélög vel saman og eiga gott samstarf við atvinnurekendur. Sem ekki geta hangið í pilsfaldi voldugra hægriflokka eins og íslenskir atvinnuveitendur hafa löngum gert. En eins og áður segir þá hefur hin norska/skandinavíska samstaða sína galla, oft virðist vanta frumkvæði hjá norskum einstaklingum.

Lokaorð

Upp á sitt besta eru Íslendingar framtakssamir en framtakssemin vill ganga út í öfgar í æðibunugangi. Samstöðu er þörf á Fróni en til þess að hana megi efla  þarf góða leiðtoga, leiðtoga sem menn geta treyst. Þá kannski hættir þjóðin að seinka sér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni