Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þjóðarmorðið á Armenunum

 

Í dag minnast Armenar víða um heim þjóðarmorðsins sem Ottómana-Tyrkir frömdu fyrir hundrað árum.

 Siðað fólk víða um heim tekur þátt í minningarathöfnum, beint og óbeint. Sumir með því að syrgja í kyrrþey, aðrir með því að ræða málið.

En ekki ofreyna Íslendingar sig á því að minnast þessara hörmunga.

Hvað koma þeir seðlaveski Íslendinga við? Seðlaveskið íslenska er sem kunnugt er miðdepill alheimsins.

Það má helst ekki tala um neitt annað og alls ekki nema í mæðu- og sjálfsvorkunnsemistóni.

Þjóðarmorðið

Nóg um sveitamennsku og græðgishugsun á Fróni. Beinum sjónum okkar að fjöldamorðunum.

Soldánsveldi (og kalífat) Ottómana-Tyrkja barðist með þýska og austurrísk-ungverska keisaradæmunum (Miðveldunum)  í fyrri heimsstyrjöld.

Meðal andstæðinga Miðveldanna var rússneska keisaradæmið en stór hluti hinna kristnu Armena var undirsáti þess.

Allstórir hópar Armena bjuggu í veldi Ottómanasóldánsins og taldi stjórnin í Konstantínópel (nú Istanbul) að þeir væru hallir undir hið kristna Rússland.

Er ekki að orðlengja að Tyrkir hófu fjöldamorð á Armenum, talið er að allt að ein og hálf milljón þeirra hafi fallið í valinn.

En Tyrkir þverskallast við að játa sekt sína, þeir vilja helst ekki viðurkenna að neitt þjóðarmorð hafi átt sér stað.

Armenar

Armenar eiga sér gamla sögu. Þeir turnuðust til kristni fyrstir þjóða og eiga sína sérstöku kirkju sem er afbrigði af réttrúnaðarkirkjunni.

Þeir hafa dreifst víða um heim vegna ofsókna og eru þekktir sem dugmiklir kaupsýslumenn og andlegir afreksmenn.

 Þeir eru þekktir fyrir mikla skákgetu, Tigran Petrosjan, heimsmeistari, var Armeni í húð og hár, Garrí Kasparov ermskur að hálfu.

Einn sterkasti skákmaður samtímans, Levon Aronian, er Armeni líka. Hann er reyndar hálfur Gyðingur eins og Kasparov.

Það er lóðið! Armenar og Gyðingar eiga margt sameiginlegt: Þeir eiga sér trúarbrögð sem aðskilja þá frá öðrum þjóðum.

Þeir hafa verið fórnarlömb þjóðarmorðs, eru afrekamenn á sviði andans, slyngir kaupsýslu- og skákmenn.

Lokaorð

Dagurinn í dag er dagur reiði, dagur sorgar, dagurinn þegar siðmenntaðir menn drúpa höfði og minnast þjóðarmorðsins armenska.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni