ÍSLENSKT ARÐRÆNINGJATAL
Íslendingar hafa í tímans rás trúað því að þeir væru arðrændir, reyndar með vissum rétti.
En þeir breyta einatt um skoðun á því hverjir arðræningjarnir séu, meintur arðræningi í gær er gleymdur í dag.
Sá sem var talinn bjargvættur þjóðarinnar í gær er arðræningi dagsins í dag.
Þess utan eru litlar sættir um hverjir arðræningjarnir séu. En um eitt er obbinn af þjóðarinni sammála: Landsmenn eru hlunnfarnir og arðrændir.
Hér á eftir fylgir arðræningjatal í lexíkonformi, ekki ber að taka öllu sem hér stendur alvarlega. Menn munu sjá að vit er í sumum arðránskenningum, aðrar eru úti í hött.
A
Arkitektar. Þegar ég var í byggingarvinnu á námsárunum töldu margir iðnaðar- og byggingarverkamenn að arkitektar væru óþarfir. Þeir væru bara áskrifendur að laununum sínum enda ynni þeir ekki með höndunum (sjá Byggingarverkfræðingar)
B
Bankamenn. Féfletta þeir ekki menn með ofurvöxtum? Nokkuð til í því. En á útrásarárunum voru bankamenn vegsamaðir og taldir færa björg í íslensk bú. Engum hefði dottið í hug að kenna þá við arðrán (sjá útrásarmenn).
Bændur. Á mínu bernskuskeiði hvarflaði ekki að mönnum að bændur væru arðræningjar. Börn voru send í sveit, m.a. til að kynnast hinu sanna lífi, lífi bóndans. Bóndi var bústólpi, bú landsstólpi. En nú telja flestir sig vita að bændur séu ómagar á ríkissjóði og valdi alltof háu matvöruverði. Til að bæta gráu ofan á svart hafi bændur fyrr á öldum staðið í veg fyrir bæjarmyndun, m.a. með því að koma á vistarbandi. Spurt er: Var Diðrík Píning íslenskur bóndi? (sjá Dani).
Byggingarverkfræðingar. Þegar ég var í byggingarvinnu forðum tíð sögðu vinnufélagar mínir að byggingarverkfræðingar væru bara gaurar sem pissuðu upp í vindinn. Þeir fengju laun án þess að vinna hörðum höndum, ó hvílíkir arðræningjar! Spurt er: Hve mörg hús í Reykjavík væru uppistandandi ef byggingarverkfræðinga og arkitekta hefði ekki notið? (sjá Arkitekta).
D
Danir. Einu sinni héldu Íslendingar að fátækt og eymd Íslendinga til forna hafi verið danskri konungsstjórn að kenna. Einokunarverslunin hafi mergsogið saklausa Íslendinga. En nú má ekki lengur nefna það, menn vilja trúa því að allt illt á Íslandi hafi verið stórbændum að kenna. Svona smáatriði eins og að danski konungurinn hafi verið stærsti landeigandi landsins má ekki nefna fremur en snöru í hengds manns húsi. Kóngur hafði sem slíkur hag af vistarbandinu enda var sá sem því kom á, Diðrik Píning, konungsins löggilti hirðstjóri (sjá Bændur).
F
Fólk í landi. Sjómenn „vissu“ að þeir einir framleiddu eitthvað, allir aðrir væru afætur á þeim. Bertold Brecht velti því fyrir sér í ljóði hvort rétt væri að Alexander mikli hefði lagt undir sig þriðjung heimsins einn og óstuddur. Hafði hann ekki með sér svo mikið sem einn kokk? Ég spyr: Þurfti ekki að verka sjávaraflann? Þurfti ekki menn til að selja hann í útlöndum? Þurfti ekki lækna til að lækna veika sjómenn? Þurfti ekki að búa til mat handa sjóurunum? Þurfti ekki bændur? Þurfti ekki vonda menntamenn til að finna upp vélar í skip og tæki til að veiða með skilvirkum hætti? Án þeirra væru hetjur hafsins enn á smákænum og fiskuðu sama sem ekkert. Þess utan skildu þessir sjómenn ekki að útflutningsverðmæti er ekki það sama og þjóðarframleiðslan í heild. Þótt sjávarafli hafi verið 80% útflutningaverðmæta þá var hann langt undir helmingi þjóðarframleiðslu ((sjá Arkitekta, Byggingarverkfræðinga, Listamenn, Menntamenn, Námsmenn)
.
H
Heildsalarnir. Hvar er snjórinn sem féll í fyrra? Hvar eru heildsalarnir og þeirra mikla arðrán? Þjóðviljinn hamaðist gegn þeim. Í skáldssögum var ljóti karlinn einlægt heildsali.
Í
Íslenskan. Frumlegasta hugmyndin um arðrán! Því var haldið fram að það væri kostnaður af því að tala íslensku vegna þess að einhverjir útreikningar sýndu að gróði væri af að tala ensku. Útreiknuði láðist að reikna út kostnaðinn af að leggja íslenskuna niður og taka upp kúlmálið ensku. Einnig voru útreikingar af meintum kostnaði við að tala íslensku hreinar ágiskanir.
L
Listamenn. Lifa þeir ekki á skattgreiðendum? Því trúir stór hluti þjóðarinnar. En hann vill ekki skilja að list færir ríkinu talsverðar tekjur og afrek íslenskra listamanna er landkynning sem aftur skilar sér í auknum þjóðartekjum (sjá Menntamenn og Námsmenn).
M
Menntamenn. Í mínu ungdæmi voru menntamenn öfu…ég meina hataðir, og taldir lið sem ekki ynni neina alvöruvinnu og væru afætur á þjóðarlíkamanum.Jónas Guðmundsson, stýrimaður, orðaði þessa „hugsun“ í ljóði á þá leið að háskólamenn teyguðu safann úr þjóðarlíkamanum og borðuðu síldaraflann (úr ljóðabókinni Með sand í augum). Hvað skyldi hafa verið í augum Jónasar þegar hann orti þetta? Hvernig væri heilsa landsmanna ef háskólamenntaðra lækna nyti ekki? Væru hús uppistandandi án háskólamenntaðra byggingarverkfræðinga og arkitekta? Getur réttarkerfið virkað án lögfræðinga? Án lágmarksmenntunar borgaranna getur nútíma efnahagslíf ekki virkað í tvær sekúndur. En þarf ekki menntaða kennara til að sjá um það? Þurfti ekki vonda menntamenn til að finna upp vélar í skip og tæki til að veiða eða stunda landbúnað með skilvirkum hætti? Þess utan er engan veginn gefið hvaða geiri menntunar geti stuðlað að aukinni þjóðarframleiðslu. Heimspekingurinn Blaise Pascal fann nánast upp reiknivél sem var forveri tölvunnar. Breski stærðfræðingurinn og rithöfundurinn Ada Lovelace gerði fyrsta tölvuforritið. Annar breskur stærðfræðingur, George Boole, lagði grundvöllinn að stærðfræðilegri rökfræði. Þýski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Gottlob Frege þróaði hana áfram. Seinna kom í ljós að nota mætti hana til að gera tölvuforrit, án þessarar rökfræði hefðum við engar tölvur. Vart þarf að segja að tölvan hefur verið efnahagnum mikil lyftistöng, hún er sköpuð af vondum menntamönnum. Fólki sem hefur unnið með vitinu, ekki stritinu.
(sjá Arkitekta, Byggingarverkfræðinga, Fólk í landi,Listamenn, Námsmenn)
N
Námsmenn. Á mínum námsárum vissi pöpullinn að námslán væru þýfi og námsmenn þjófar. Að reyna að útskýra fyrir fólki að þetta væru lán, ekki styrkir, var vonlaust. Enda var margt af því þjakað af öfund í garð þeirra sem gátu lært
(sjá Arkitekta, Byggingarverkfræðinga, Fólk í landi, Listamenn, Menntamenn)
O
Orkufyrirtæki. Er ekki orkan seld erlendum stórfyrirtækjum á smánarverði? Hlunnfara þau ekki Íslendinga með bókhaldsbrellum? Njóta þau ekki óréttlætanlegra skattfríðinda? Sennilega rétt. Samt er erfitt að trúa því að Íslendingar hafi engan hag af öllum þessum verksmiðjum og hinum mikla útflutning af áli og öðru slíku. Norskur hagfræðingur segir að ekkert land hafi iðnvæðst vegna erlendra fjárfestinga. Alla vega er alls ekki ósennilegt að þessi fyrirtæki og þeirra íslensku attaníossar séu raunverulegir arðræningjar.
R
Reykvíkingar. Sjómenn, fiskverkunarfólk og bændur „vissu“ hér í eina tíð að Reykjavík væri krabbamein á þjóðarlíkamanum, arðræningjabæli. Þeir töldu sig framleiða allt sem einhvers virði var. En þeir skildu ekki að án sæmilega stórrar stjórnunar- og verslunarmiðstöðvar hefði sú framleiðsla orðið mun erfiðari. Einhver þurfti að sjá til þess að flytja inn dráttarvélar og skip, sjá um skynsamlega réttarumgjörð fyrir framleiðslugeirann o.s.frv. Eins og áður hefur komið fram er frumframleiðsla á fiski og landbúnaðarvörum ekki nema hluti af þjóðarframleiðslunni ((sjá Arkitekta, Byggingarverkfræðinga, Fólk í landi, Listamenn, Menntamenn, Námsmenn)
S
Sægreifar. Sú var tíðin að útgerðarmenn töldu obbann af þjóðinni vera afætur sem lifðu á sér og sjóurunum. Nú er öldin önnur, þjóðin telur að útgerðarmenn séu arðræningjar sem stingi auðlindarentunni í vasann. Töluvert til í því en kvótakerfið er ekki án sinna kosta, t.d. virðist það hafa stuðlað að stöðugra gengi, áður voru sífelldar gengisfellingar til að bjarga útgerðinni. Gengisfelling var kjararýrnun, e.k. arðrán.
Ú
Útrásarliðið. Nú veit þjóðin að þetta lið ástundaði arðrán. En fyrir fáeinum árum var það talið bjargvættur þjóðarinnar (sjá Bankamenn).
Athugasemdir