Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hvorki e.m.o.v.s. né Andríkismenn!

 Hægri vefurinn Andríki heldur mjög á lofti nýlegri rannsókn hins virta læknatímarits Lancets um

 heilbrigðisástand víða um lönd þar sem Ísland kemur afarvel út.  Segja Andríkismenn að hún sýni að óvíða sé betra að búa en á Íslandi. Stöðugt komi fram rannsóknir sem styðji þessa staðhæfingu.

Það er út af fyrir sig rétt að ýmsar rannsóknir benda til þess að margt sé gott á Íslandi. Ungbarnadauði er t.d.  sagður sá minnsti í Evrópu en svo væri varla nema heilbrigðiskerfið sé þokkalega gott, a.m.k. á vissum sviðum. Lítum á nýlega skýrslu sem ber heitið „Natixis Retirement Index“. Hún fjallar um kjör ellilífeyrisþega á  heimsvísu með statistískum hætti.  Niðurstaða hennar  er sú að óvíða sé   betra að eyða ævikvöldinu en á Íslandi, bara Noregur og Sviss skáki Fróni. Orðrétt segir í skýrslunni  á blaðsíðu 9: „Iceland continues to be a strong  example of positive retirement policies“. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það, statis-tíkin er viðsjárverð skepna.  Hún  bítur ef menn gá ekki að sér.

Andríkismenn  gleðjast sjálfsagt yfir þessum upplýsingum um kjör roskinna landa sinn. En þeir „gleyma“ því sem miður fer, okurvöxtum, húsnæðishraki ungmenna,  lágum  grunnlaunum, ofurveldi sægreifa og aðstöðuhagnaði sem almenningur sér alltof lítið af. Og ömurlegri  ríkisstjórn ríkisbubba.

 

Fúll karl?

 

Andríki hæðist að „fúlum körlum“ eins og Gunnari Smára Egilssyni sem talað hafi Ísland niður áratugum saman. Ég hlýt að skjóta skildi fyrir blaðamanninn vaska og benda á að ekki talaði hann Ísland niður á útrásarárunum. Hann lofsöng Ísland útrásarinnar  í leiðara eftir leiðara í Fréttablaðinu. Þann   sautjánda júní 2004 sagði  hann að Íslendingar gætu horft björtum augum til framtíðarinnar, nú væri búið að rjúfa tengsl stjórnmála og viðskipta (!!!!!!). Það er aldeilis  munur að vera raunsær og  spámannlega vaxinn!

Að gamni slepptu þá er ljóti andarunginn orðinn nokkuð snotur svanur,  Gunnar Smári hefur tekið miklu framförum eftir að hann tók að ritstýra Fréttatímanum. Greinar hans þar eru einatt málefnalegar nema þegar hann lætur e.m.o.v.s.ann heltaka sig.

 

Lokaorð

 

Hvað um það, Salómonsdómur minn er þessi: Hvorki  Íslands-halelúja Andríkismanna  né bölmóð e.m.o.v.s.anna! Andríki einblínir á björtu hliðarnar, eftirhruns móður- og vænissjúklingarnir  á dökku hliðarnar. Best er að horfa til beggja átta.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni