Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hundrað ár frá fæðingu John Rawls

Í dag eru hundrað ár liðin síðan bandaríski heimspekingurinn John Rawls var í heiminn borinn. Hér skal hans minnst en það sem hér segir er að mestu ættað úr bok minni Kredda í kreppu.

                                                Kenning um réttlæti

Bók hans um réttlætishugtakið, A Theory of Justice, olli straumhvörfum í stjórnspeki. Þar staðhæfir hann að réttlæti geti ekki falist í því að menn fái eftir framlagi því menn verðskuldi ekki þá hæfileika sem þeim eru gefnir í vöggugjöf, annað hvort vegna erfða eða umhverfis.

Menn hafa  ekki gert neitt sjálfir til að vera fæddir með tiltekna eiginleika í tilteknu umhverfi.

Hið réttláta sé ekki það sama og hið góða. Samfélag verði ekki sjálfkrafa réttlátt þótt allir þegnar þess lifi góðu lífi, þ.e. lífi sem er þess virði að lifa.

Menn hafi ótölulegan fjölda hugmynda um hið góða líf og það sé engin leið að skera úr um hver þeirra sé best. Sumir telji besta lífsmátann þann að lifa í samræmi við boðorð einhverra trúarbragða, aðrir vilja græða peninga, enn aðrir lifa hefðbundnu lífi, enn einn hópurinn vilji lifa tilraunalífi, t.d. sem sandalahippar.

Ríkið eigi að vera hlutlaust um val einstaklinga á lífsmáta.

Hefð er fyrir því í heimspeki að gera hugsanatiltraunir til að glöggva sig á heimspekivanda. Rawls gerir hugsanatilraun sem lið í leit sinnin að svari við spurningunni um hvað réttlæti sé.

Hann hugsar sér hina upprunalegu stöðu (e. original position) þar sem meira eða minna sértækir og algerlega einangraðir einstaklingar liggja undir fávísisfeldi og eiga að ákveða hver fyrir sig hvaða samfélagsskipan sé réttlát.

Þá spyr lesandi kannski hvað það þýði að þeir séu undir fávísisfeldi (e. behind the veil of ignorance).  Það þýðir að þeir vita ekki hvers kyns stöðu í samfélaginu þeir muni fá, hvaða hugmyndir um hið góða líf þeir muni hafa o.s.frv. Þeir vita ekki einu sinni hvors kyns þeir eru, hve gamlir þeir eru eða hvernig húð þeirra er á litinn.

Þetta eru algerlega sérteknir einstaklingar, menn fárra eiginleika. Einn af þeim fáu eiginleikum sem þeir eru gæddir er upplýst eigingirni, þeir hugsa fremur um eigin hag en annarra og eru upplýstir með þeim hætti að þeir vita það sem vita þarf um samfélagsmál.

Rawls segir nú að þessir ímynduðu einstaklingar myndu að líkindum uppgötva að það þjóni hagsmunum þeirra að hámarka hag allra, að hag þeirra verst stæðu meðtöldum.

Í ljósi þess myndi fólkið undir fávísisfeldinum sættast á tvær meginreglur um réttlæti:

Í fyrra lagi frelsisregluna, þ.e. þá reglu að sérhver einstaklingur skuli hafa jafnan rétt til frelsis svo fremi það sé samrýmanlegt frelsi annarra (menn mega sem sagt ekki troða á öðrum).

Í síðara lagi mismunarregluna en hún kveður á um að félagslegur og efnahagslegur munur milli manna skuli vera með þeim hætti að hann þjóni hagsmunum allra. Um leið skuli málum þannig háttað að samfélagsstöður séu öllum opnar.

Ójöfnuð sé aðeins hægt að verja ef hann þjóni hagsmunum hinna verst stæðu. Þetta þýðir á mannamáli að leyfilegt sé að dreifa lífsgæðum fremur ójafnt svo fremi sú dreifing leiði í fyrsta lagi til þess að hinir verst stæðu njóti betri kjara en þeir hefðu notið ef lífsgæðum hefðu verið jafnar dreift (m.ö.o.  ef brauðmolakenninin skyldi vera sönn).

Í öðru lagi til þess  að þeir best stæðu útiloki ekki þá lakar stæðu frá samkeppni um samfélagsgæði.

Rawls segir að frelsisreglan trompi mismunarregluna og að reglan um jafnan rétt til að keppa um stöður trompi regluna um að ójöfnuður sé aðeins réttlætanlegur þjóni hann hagsmunum hinna verst stæðu.

Frelsisreglan sér til þess að hægt sé að lifa í samræmi við allra handa hugmyndir um hið góða líf.

Mismunarreglan varðar almenn lífsgæði á borð við einstaklingsfrelsi og pólitísk réttindi, tekjur, eignir, stöður og sjálfsvirðingu. Slík gæði eru réttnefnd “almenn lífsgæði” því þau má nota til að raungera margs konar lífsmáta.

Trúfrelsi gerir mönnum kleift að lifa trúarlífi eða lífi hins trúlausa, góðar tekjur auðvelda mönnum að lifa sem nautnaseggir o.s.frv. (Rawls 1971: 60-65 og víðar).

En hvers konar efnahagsskipan á að vera í réttlátu samfélagi? Rawls segir í Theory of Justice að ekki sé gefið hvaða efnahagsskipan hæfi réttlætisreglunum best, hagkerfi einkaeignar og sósíalisma komu bæði til greina (Rawls 1971: 265-274).

Þótt Rawls útiloki ekki möguleikann á lýðræðislegum sósíalisma virðist grunnt á frjálslyndisstefnu í Theory of Justice.

Hann skipar jú frelsi í öndvegi en hafnar þeirri hugmynd að frjálst markaðskerfi hljóti að vera besta skipan samfélagsins.

Yfirleitt hafa frjálslyndir jafnaðarmenn talið Rawls sinn mann enda skín í gegn að hann hafði talsverða samúð með stefnu þeirra.

                                      Rawls færist til vinstri

 En hann virðist hafa færst til vinstri með árunum. Í ritinu Justice as Fairness endurskoðaði hann réttlætisreglurnar og leggur nú áherslu á að ekki sé nóg að stöður séu öllum opnar.

Búa verður þannig um hnútanna að allir hafi raunhæfa möguleika á að komast áfram. Ytri aðstæður, t.d. fátækt, megi ekki hindra þá í að fá stöður sem séu formlega séð öllum opnar.

Hvað frelsisréttindi varðar þá beri að greina milli þeirra frelsisréttinda sem mikilvægust séu og þeirra sem minna vægi hafi. Tjáningar-, samvisku- og stjórnmálafrelsi beri að setja í öndvegið.

Öðru máli gegnir um frelsi til að ráðstafa eigum sínum, Rawls virðist vilja skipa því á lægri bekkinn nema þegar um persónulegar eigur er að ræða (eignarhald á makrílkvóta  í öðru landi er varla persónuleg eign, gagnstætt tannburstanum) (Rawls 2001: 42-50 § 13).

Aðeins tvenns konar samfélagsgerðir geti verið réttlátar, annars vegar samfélagsgerð sem hann kallar “séreignarlýðræði”, hins vegar frjálslyndur sósíalismi.

Hið fyrrnefnda skipulag sé skipulag þar sem eignarhald á auði og framleiðslutækjum sé dreift. Síðarnefnda skipulagið virðist vera e.k. markaðssósíalismi með lýðræðissniði. Fyrirtækjum sé stjórnað beint af starfsmönnum eða kjörnum fulltrúum þeirra.

Slíkur sósíalismi geti virt frelsisregluna þótt ríkið eigi framleiðslutækin enda leyfi hann persónulega eign. Í báðum þessum kerfum sé tekjum og yfirráðum yfir framleiðslutækjum fremur jafnt dreift þannig að stöður séu öllum opnar á borði, ekki bara í orði. Meðal annars þess vegna geti þessi kerfi virt mismunaregluna.

Gagnstætt þessu geti ríkisstýrður sósíalismi, kapítalískt velferðarríki og frjálst markaðskerfi ekki verið réttlát samfélög.

Hvað ríkissósíalisma varðar þá traðki hann á frelsi og fylgir því ekki fyrstu réttlætisreglunni. Auðvald þjaki slíkt kerfi ekki en slíkt hið sama verði ekki sagt um hin tvö kerfin.

Í kapítalísku velferðarríki raki fámennur hópur saman fé og stingi dúsum upp í þá fátæku. Í slíku “velferðarríki” sé hættan sú að auðurinn ráði stjórnmálunum þótt almenningur njóti afkomuöryggis.

Ekki sé hættan minni í frjálsu markaðskerfi, til að gera illt verra njóti menn ekki afkomuöryggis í slíku hagkerfi. Hagur hinna verst stæðu verði fyrir borð borinn og þar með mismunarreglan.

Í báðum þessum kerfum sé munur á mönnum, hinir fátæku hafi ekki eins góða möguleika á að komast áfram og hinir velstæðu. Þótt stöður séu öllum opnar í orði þá sé ekki svo á borði, þessi kerfi eru því óréttlát, fylgi ekki mismunarreglunni í hennar nýju útgáfu (Rawls 2001: 135-162 § 41-49).

                                     Kenningar Rawls í samræmi við frjálshyggju?

Um kenningar Rawls hefur verið hart deilt. En ekki er kostur á að ræða deilurnar af neinu viti hér. Ég ætla þó að nefna athugasemdir Hannesar Gissurarsonar um kenningar Rawls. Hann ræðir reyndar bara það sem Rawls segir í Theory of Justice en hefði vel mátt nefna Justice as Fairness.

Hann fylgir frjálshyggjumönnum sem vilja samþýða (frum)kenningar Rawls og Hayeks enda sagði sá síðarnefndi berum orðum að hann væri ekki andsnúinn því sem Rawls segir í Theory of Justice (Hayek 1993: 100). Besta leiðin til að fullnægja réttlætiskröfum Rawls sé að koma á frjálsri markaðsskipan, segja þessir menn (Gordon 2008).

Hannes spyr til hverra samkomulagið undir fávísisfeldinum eigi að ná, bara til fólks í gefnu samfélagi eða allra núlifandi manna? Þessu er fljótsvarað, í Theory of Justice segir Rawls beinum orðum að réttlætisreglurnar eigi að gilda fyrir eitt gefið samfélag, ”…conceived for the time being as a closed system isolated from other societies” (Rawls 1971: 8).

En Hannes hefur lög að mæla er hann segir að erfitt sé að henda reiður á því hverjir hinir verst stæðu séu, eru það fátækustu tíu prósentin, fimm prósentin eða verst stæða prósentið? (Hannes 1999: 184). Nú eða þeir verst stæðu árið 2200.

En hann hefur á röngu að standa þegar hann staðhæfir  eins og Gordon  að frjáls markaðsskipan þjóni best hagsmunum hinna verst stæðu (Hannes 2007: 85-92).

Eins og ég hef margsagt þá hafa kjör hinna verst stæðu, já alls almennings, versnað eða staðið í stað í Bandríkjunum  og Bretlandi á hinum síðustu og verstu frjálshyggjuárum.

Nýlega rannsóknir Economic Policy Institute benda til þess að á síðustu fjórum áratugum hafi raunlaun verkamanna vestanhafs alls ekki aukist eins mikið og sem nemur framleiðniaukningu. Öðru nær, þau hafi nánast staðið í stað á meðan framleiðnin jókst talsvert  (Bivens og Mishel 2015).

En á fyrstu áratugunum eftir stríð (fyrir Reagan) hafi aukning raunlauna og framleiðni haldist í hendur.

Við má bæta að dregið hefur verulega úr félagslegum hreyfanleika í Bandaríkjunum, nú er sá hreyfanleiki meiri í hinum vondu velferðarríkjum Norðurlanda (t.d. Cawhill og Morton 2008). Samkvæmt nýlegri rannsókn World Economic Forum er hvergi í heiminum meiri félagslegur hreyfanleiki en á Norðurlöndum. Þau raða sér í fimm efstu sætin, Bandaríkin eru í 27 sæti, Bretland í 21 sæti (reyndar er hið frjálshyggjusinnaða Sviss mjög ofarlega, í sjöunda sæti). 

Það þýðir að í reynd eru ekki  allar stöður opnar öllum vestanhafs og í Bretlandi. Sé þessi vanþróun afleiðing frjálsari markaðshátta þá er ekki hægt að fylgja mismunarreglunni í sæluríki frjálshyggjunnar. Velferðarríkin aftur móti standa sig betur við að fylgja þessari reglu.

Ég hef  grun um að þessi vanþróun sé ein af ástæðum þess að Rawls færðist til vinstri.  

Svo orti Matthías Jochumsson: „Fullvel man ég fimmtíu ára sól“, fullvel man ég fimmtíu ára ritdeilur okkar Hannesar. Hannes hefur hér tækifæri til að hefja afmælisritdeiluna.

                                    Lokaorð

Rawls var kannski áhrifamesti stjórnspekingur síðustu áratuga. Verk hans eru enn uppsprettulindir allra handa pælinga, rökræðna og túlkana. Minning hans lifir góður lífi.

 

Heimildir

Bivens, Josh og Mishel, Lawrence 2015: „Understanding the Historic Divergence Between Productivity and Typical Worker‘s Pay“, Economic Policy Institute, https://www.epi.org/publication/understanding-the-historic-divergence-between-productivity-and-a-typical-workers-pay-why-it-matters-and-why-its-real/ Sótt 21/2 2021.

Cawhill, Isabell og Morton, John E. 2008: Economic Mobility: Is the American Dream Alive and Well? http://www.economicmobility.org/ Sótt 10/9 2009.

Gordon, David 2008: “Going off the Rawls”, The American Conservative, 28 júlí, http://www.amconmag.com. Sótt 2/9 2008.

Hannes Hólmsteinn Gissurarsson 1999: Stjórnmálaheimspeki. Reykjavík : Hið íslenzka bókmenntafélag.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson 2007: ”Réttlæti, jöfnuður og öfund”. Skírnir, vor, bls. 82-95.

Hayek, Friedrich von 1993: The Mirage of Social Justice, í Law, Legislation and Liberty. Volumes 1-3. Volume 2. London: Routledge.

Rawls, John 1971: A Theory of Justice. Harvard: Belknap.

Rawls, John 2001: Justice as Fairness. A Restatement. Harvard: Belknap.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu