Hundrað ára meinsemd: Rússneska byltingin 2.0
Færsla mín um rússnesku byltinguna drukknaði í írafárinu út af lögbanninu, hér birtist hún á ný, ögn lagfærð:
Í dag eru hundrað ár liðin frá hinni svonefndu rússnesku byltingu. Eiginlega var bylting bolsévíka valdarán fámennrar klíku. Það var í samræmi við flokkshugmyndir Leníns sem hann kynnti til sögunnar í kverinu Hvað ber að gera? Hann taldi verkalýðinn of mótaðan af auðvaldsskipulaginu til að skilja hvað honum væri fyrir bestu. Verkamenn geti aldrei öðlast meira en fagfélagsvitund, bundist samtökum um að bæta kjör sín o.s.frv. Þeir gætu ekki orðið byltingarsinnar nema lúta forystu atvinnubyltingarmanna sem kynnu marxismann upp á sína tíu fingur. Flokkur þeirra skyldi vera miðstýrður stigveldisflokkur. Lenín talaði reyndar um lýðræðislega miðstýringu flokksins en erfitt er að sjá hvernig lýðræði fái þrifist í slíkum samtökum. Það fylgir sögunni að Lenín sagði beinum orðum sumarið 1917 að bolsévíkar ætluðu sér að fremja byltinguna einir, samstarf við aðra flokka kæmi ekki til greina. Þá var hann nýkominn til Rússlands úr útlegð, þýska keisarastjórnin kostaði heimför hans.
Í desember 1917 fóru fram nokkurn veginn frjálsar þingkosningar sem fyrirrennarar bolsanna höfðu skipulagt. Bolsévíkar hlutu þar háðulega útreið, fengu aðeins tæpan fjórðung kjörinna þingmanna, hinn vinstrisinnaði flokkur félagsbyltingarmanna fékk um 40% þeirra. En bolsévikar ráku þingið heim með vopnavaldi í janúar árið eftir, einræðið var staðreynd. Það þótt bolsévíkarnir segðu að nú hefðu verkamannaráðin völdin.
Vinstrigagnrýni á byltinguna
Þegar í byrjun aldarinnar vöruðu byltingarmennirnir Rósa Lúxemburg og Lev Trotskí við flokkshugmyndum Leníns. Þau bentu á að næði slíkur flokkur völdum myndi það þýða einræði flokksins yfir almúganum. Þau höfðu lög að mæla en Trotskí gleymdi (?) sinni gagnrýni og varð einn helsti gerandi októberbyltingar. Lúxembúrg hélt sínu striki og gagnrýndi einræði bolsévíka frá marxísku sjónarmiði þegar árið 1918. Með því að koma í veg fyrir opna umræðu meðal verkamanna hafi bolsévíkar lokað uppsprettulind reynslu og framfara. Frelsi bara handa flokksmönnum og þeim sem styðja stjórnina sé ekkert frelsi, frelsi sé ávallt frelsi þeirra sem hugsa öðruvísi en aðrir. Skortur á prentfrelsi og almenn kúgun rýri ráðslýðræðið inntaki.
Sama ár tók annar yfirlýstur marxisti, Karl Kautsky, í sama streng og fordæmdi bolsana. Þeir hafi fyrst kastað lýðræðishugsjónum fyrir róða, svo hafi sósíalisk prinsipp farið sömu leið. Þeir ræni landbúnaðarafurðum frá bændunum og þrælki meinta meðlimi borgarastéttarinar á villimannlegan hátt. Að nafninu til njóti verkamenn sérréttinda en í reynd ríki stétt skrifráðunga yfir þeim. Afleiðingin geti ekki orðið neitt annað en ógnarstjórn.
Fáeinum árum síðar tók enn einn vistrimaðurinn að efast um ágæti byltingarinnar. Sá var víðfrægur heimspekingur, Bertrand Russell að nafni. Hann fór til Rússlands, hitti helstu forystumenn byltingarinnar að máli, og skrifaði bók um málið, The Practice and Theory of Bolshevism. Þar segist hann telja hugsjónir kommúnismans af hinu góða en efist mjög um að rússneska byltingin hafi verið rétt skref í kommúníska átt. Þvert á móti, hún gæti leitt til skelfilegrar kúgunar og hrikalegra styrjalda.
Hér ber að staldra við og íhuga hvað það var við hugsjónir kommúnista sem mönnum á borð við Russell þótti aðlaðandi. Marx og fylgismenn hans töldu að í sósíalísku skipulagi yrði samfélaginu stjórnað með lýðræðislegum hætti og ríkið myndi smám saman hverfa. Í þess stað kæmu frjáls samtök framleiðenda sem Marx kenndi við kommúnisma. Þessa stefnu boðaði Lenín í riti sínu Ríki og bylting, í sósíalismanum myndi eldabuskann taka þátt í stjórnarstörfum. En leiðin að því marki væri alræði öreiganna sem nyti leiðsagnar miðstýrðs byltingarflokks. Er líklegt að slíkur flokkur sé tækið til þess að skapa alllýðræðislegt samfélag? Eru hugmyndir Marx og Leníns framkvæmanlegar?
Ýmsar skýringar
Þá kann einhver spyrja hvort íhlutunar- og borgarastríð hafi ekki neytt bolsévíka til að koma á heraga sem síðar hafi einkennt alla þeirra stjórnmálastefnu. Því er til að svara að íhlutunarstríðið hófst ekki fyrr en vorið 1918, nokkrum mánuðum eftir að bolsévíkar höfðu tekið sér einræðisvald. Þess utan var íhlutun erlendra stórvelda fálmkennd enda höfðu þau öðrum hnöppum að hneppa. Þau voru önnum kafin við að berja hvert á öðru í hildarleiknum mikla, heimsstyrjöldinni fyrri. Uppreisn hvítliða kann aftur á móti hafa gert illt verra, þeir víluðu ekki fyrir sér að slátra Gyðingum í stórum stíl, töldu þá bera ábyrgð á byltingunni. Hvíliðarnir voru flestir hverjir keisara- og einræðissinnar, engu skárri en bolsarnir. Enn kunna menn að spyrja hvort rússneskar einræðishefðir hefðu ekki haft sitt að segja. Svar: Þær hafa örugglega ekki verið til bóta. Enn er spurt: Er Marx alsaklaus? Varla, hugmyndin um að verkamenn geti ekki séð í gegnum auðvaldið er frá honum komin. Hann taldi að verkamenn (og auðseggir líka) væru á valdi blekkingarvefs sem varan spinnur en vöruskipti séu meginás kapítalismans. Ekki þurfi að heilaþvo verkamenn að neinu ráði því varan skapi hugmyndir um að vöruskipti á auðvaldsmarkaði séu réttlát. Þótt Marx segi það ekki beinum orðum þá erfitt að sjá annað en að til þess að sjá gegnum þennan vef verði menn að vera hámenntaðir, kunna skil á sértækum kenningum marxismans. Verða byltingarsinnaðir menntamenn þá ekki að leiða verkalýðinn inn í sæluríki sósíalismans? Er þá ekki hætta á því að menntamennirnir einfaldlega taki völdin og ríki yfir alþýðunni? Rétt eins og hinir hámenntuðu atvinnubyltingarmenn Leníns gerðu. Nefna má að anarkistinn Mikael Bakúnín spáði því þegar um 1870 að bylting í anda Marx myndi leiða valdatöku vísindamanna og prófessora, ekki verkalýðsins. Hinn marxíski sósíalismi myndi leiða til skrifræðis. Spyrja má hvort sagnarandi hafi komið yfir Bakúnín.
Lokaorð
Um eftirleikinn sovéska skal ekki fjölyrt, um milljónirnar sem létu lífið fyrir hendi ódrengja bolsévismans. Bæði um daga Leníns, eins síðar þegar ógnarstjórnin varð alger og bitnaði á bolsunum sjálfum. Enn sjáum við blóðug fingraför bolsévíkanna hér og hvar, til dæmis í Tséténíu og austurhluta Úkraínu. Pútín er réttnefndur „auðvaldsbolsévíki“. Því tala ég um rússnesku byltinguna sem hundrað ára meinsemd.
PS Byltingin, ásamt veru Kanahersins, átti mestan þátt í að kljúfa íslenska verkalýðshreyfingu með þeim afleiðingum að Íhald og Framsókn hafa getað vaðið uppi. Mál er að linni.
Heimildir:
Kafla úr ritum Trotskís, Kautskys og Lúxembúrg um byltinguna hef ég meðal annars lesið í norsku safnriti frá 1967 sem ritstýrt var af Jens A. Christopersen: Bolsjevikrevolusjonen 1917 (Pax forlag gaf út). Bók Russels las ég fyrir margt löngu en hana má finna á Netinu eins og fram kom í meginmáli. Mig minnir að ég hafi lesið Hvað ber að gera? á íslensku í árdaga. Það kann að vera misminni, kannski las ég hana á norsku. Alltént er auðvelt að finna hana á Netinu. Marx skrifaði um blætiseðli vörunnar í frægum kafla í fyrsta bindi Auðmagnsins (auðfinnanlegt á Netinu). Sá kafli var (illa) þýddur á íslensku og birtist í Marx Engels úrvalsrit.
Athugasemdir