Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hugmyndir, rit og stuldur

Margir lesenda þekkja bók Bergsveins Birgissonar um svarta víkinginn þar sem settar eru fram djarfar kenningar um landnám Íslands.

Bókin er hin læsilegasta og vekur mann til umhugsunar um eitt og annað sem varðar uppruna Íslandsbyggðar.

En nú bregður svo við að Bergsveinn geysist fram á ritvöllinn og sakar Ásgeir Jónsson,  seðlabankastjóra,  um ritstuld og rangfærslur.

Seðlabankastjóri hafi í nýlegri bók um landnámsöldina tekið drjúga hluta af bók Bergsveins ófrjálsri hendi, ekki nefnt hana sem heimild. 

Bergsveinn er ekki einn á báti. Ekki alls fyrir löngu staðhæfði Kristín Eiríksdóttir, rithöfundur, að hugmyndir og söguþráður  í þáttaröðinni Systrabönd væru stolnar  úr leikriti sínu History.

Ég þekki hvorki leikritið né þáttaröðina og hef heldur ekki lesið bók Ásgeirs og er því ekki dómbær um ásakanir Bergsveins og Kristínar.

En ég er í hæsta máta dómbær um  að bók Þráins Bertelssonar, Hundalíf með Theobald frá 2020 líkist meira en góðu hófi gegnir texta sem ég hef skrifað, "Samræður  við stjúphundinn". 

Hann birtist í bók minni Bókasafninu árið 2017 og átti flestar rætur í eyjubloggi mínu frá 2010-2013.  Sem sagt, þó nokkuð áður en bók Þráins kom út. 

Ég hef áður bent á dæmi um samlíkindi bókanna og hyggst ekki endurtaka það. Vil þó nefna að ég notaði ekki stóryrði á borð við "stuld". 

Alla vega spyr ég: Verður ekki að ræða þessi mál á breiðum grundvelli? Hvað segir löggjöfin og hvað segir siðvitund manna?

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu