Hrunið og viðsnúningspiltarnir ("Fyrst á réttunni, svo á röngunni, tjú, tjú, trallala")
Áður fyrr á árunum höfðu bændur einatt snúningspilta. Eftir hrun urðu ónefndir snúningspiltar viðsnúningspiltar. Þeir sem áður höfðu vegsamað auðmenn og útrás sneru allt í einu við blaðinu. Einn vegsamaði bankana svo seint sem í desember 2007 en söðlaði svo um og stofnaði andkerfisflokk. Annar gekk feti framar og stofnaði tvo andkerfis flokka, hafandi áður verið tengdur útrásarmönnum og lofað þá í leiðurum. Sá þriðji talaði fyrst um útrásarsyni Íslands en réðist svo á bíl forsætisráðherra, organdi af reiði. Svo ég leyfi mér að vera ögn montinn þá gagnrýndi ég útrásina opinberlega frá fyrstu stundu. Í Silfri Egils u.þ.b. 2006 spáði ég því að útrásarmenn færu ýmist á hausinn eða yrðu að draga saman seglin all hressilega. Ég fordæmdi líka útrásarauðvaldið og fékk bágt fyrir, var kallaður „maður sem ekkert hefur lært síðan 1968“.
Á útrásarárunum hljóp íslenska læmingjahjörðin á eftir útrásargaurunum, galandi af hrifningu. En eftir hrun breytti hjörðin um stefnu, nú gólandi af bræði. Viðsnúningspiltarnir eru læmingjar inn við beinið.
Athugasemdir