Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hrunið og lúðurþeytarinn

Jón Ólafsson skrifar prýðilegan pistil um nýjar hrunbækur. Hann bendir á

 nauðsyn þess að líta við og við í baksýnisspegilinn, rifja upp þá dramatísku atburði sem kenndir eru við hrun.

Baksýnisspegillinn

Ég vil líta í þennan spegil og spyrja „spegill, spegill, herm þú mér, hver bar mesta ábyrgð á hruni hér“. En speglar eru fámálir og hlýt ég því að svara spurningunni sjálfur. Ég á erfitt með að trúa öðru en að heimskreppan haustið 2008 sé ein meginorsök hrunsins. Þegar kreppti að alþjóðabönkum gátu þeir ekki lengur lánað íslenskum fjárglæframönnum fé. Önnur meginorsök er hve veikir innviðir útrásarfyrirtækjanna voru. Líkja má þeim við bolla með stórri sprungu í, alþjóðakreppunni við hönd sem lætur bollann detta á gólfið og hann brotnar í þúsund mola. Án sprungunnar hefði hann kannski þolað fallið. Spurt er hvort einkavinavæðingin eigi ekki mikinn þátt í þessum harmleik. Það skýrir ekki hvers vegna Glitnir fór nákvæmlega eins að og hinir útrásarbankarnir, mér vitanlega var hann ekki afurð einkavinavæðingar. En sú arma einkavæðing hefur sjálfsagt gert illt verra.

Lúðurþeytarar og útrásin

Ekki bætti úr skák allt halelújað í kringum útrásina. Stjórnmálamenn og álitsgjafar kepptust við að lofsyngja útrásina og nánast heilaþvoðu almenning. Raddir okkar sérvitringanna sem andæfðum útrásinni voru harla hjáróma í hinum margradda kór pólitíkusa, blaðasnápa og álitsgjafa allskonar. Er þessi kór saklaus af hruninu? Í dæmisögum forngrikkjans Esóps segir frá bardaga milli tveggja grískra borgríkja. Hermenn annars þeirra taka höndum lúðurþeytara úr liði hins ríkisins og búast til að höggva. Hann biður sé vægðar og segist ekki hafa tekið þátt í átökunum, hann hafi verið vopnlaus, bara blásið í lúður. Hermennirnir svara og segja hann sekan samt.  Hann hafi með lúðurblæstri espað félaga sína til orrustu og þeir drepið fjölda manns þess vegna.  Og höggva hann.

Mér er sem ég sjái glott í speglinum væna.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni