Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Höft, skömmtun, og spilling

Það er nánast viðtekin skoðun, allavega meðal hagfræðinga, að hafta- og skömmtunarkerfi hafi spillingu í för með sér.

Höftin og Noregur

 En kenningin  skýrir ekki hvers vegna ekki var veruleg spilling í Noregi á skömmtunar- og haftaskeiðinu fyrstu 15-20 árin eftir stríð. Ein ástæðan var líklega sú að jafnaðarmenn voru við völd. Engir ríkisbubbar og engin einkafyrirtæki voru á þeirra snærum, því höfðu kratar engan hag af að ýta undir rassinn á einum eða neinum. Ólíkt þeim flokkum sem nánast alltaf voru í stjórn á Íslandi, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki.

Þó ber að nefna að flokks-frændhygli hvað störf hjá hinu opinbera var talsverð á velmektardögum norsku kratanna. Menn sögðu að maður yrði að hafa krata- flokksskírteinið í lagi ef maður vildi komast áfram í norska ríkiskerfinu. En þessu fylgdi ekki peningaleg spilling. 

Önnur sennileg ástæða fyrir lítilli peninga-spillingu   eru norskar hefðir. Norskir ráðamenn í hinum nýfrjálsa Noregi á nítjándu öldinni réðust  harkalega gegn spillingu í embættiskerfinu en það var harla spillt á meðan landið laut Danakonungi. Baráttan bar árangur, embættismennirnir  siðmenntuðust, segir norski hagfræðingurinn Einar Lie í blaðagrein. Hann bætir við  að norskir embættismenn þessa tíma hafi haldið aftur af sér þegar um löngun í spúslur var að ræða.

Ég vil bæta við að  Norðmenn eru  einfaldlega aldir upp til að verða góðir þjóðfélagsþegnar og eru það flestir. Því miður hefur þetta uppeldi í för með sér þrúgandi sáttamenningu en kosturinn er sá  að þjóðfélagið er lítt  spillt.

Höftin íslensku og spillingin

Þá kann einhver að spyrja hvort þráseta nefndra leiðindaflokka sé eina ástæða þess að íslenska hafta- og skömmtunarkerfið leiddi til spillingar. Ég held ekki, önnur mikilvæg ástæða var áhrif bandarískrar hersetu. Rannsóknir Þórólfs Matthíassonar sýna að skattsvik jukust mjög á stríðsárunum.

Mín tilgáta er sú að hin fámenna íslenska skattstofa hafi ekki haft bolmagn til að fylgjast með þeim stórauknu efnahagsumsvifum sem hersetunni fylgdi.

Í ofan á lag hafði hersetan þau sálrænu áhrif að menn misstu fótanna, urðu fyrir reglurofi (fr. anomie). Gömul siðferðileg gildi gjaldféllu, æði margir Íslendingar  knékrupu  Mammoni. Þeir sem mestan máttinn höfðu reyndi að hrifsa sem mest af þeirri auðlindrentu  sem hernum fylgdi. Nægir að nefna helmingaskipti Íhalds og Framsóknar.

Auk heldur  kann félagsmótun Íslendinga að hafa verið önnur en sú norska, að þeir hafi  (og séu enn) síður verið uppaldir til að verða nýtir þegnar en hinir norsku frændur þeirra.

Þess utan nútímavæddist Ísland  mjög seint en formóderni samfélög eru spillt frá sjónarmiði nútímasamfélaga. Fyrir daga nútímans þótti siðferðilega rétt að hygla sinni fjölskyldu eða ættbálki, slíkur hugsunarháttur vill lifa áfram í samfélögum sem nútímavæðast seint. Marx segir réttilega að hefðir hinna dauðu hvíli sem mara á hugum lifenda.

 Hvað sem þessu líður þýðir ekki að benda á smæð Íslands sem mögulegan spillingarvald. Spilltustu samfélag jarðarinnar eru risaríki á borð við Indland, Rússland og Úkraínu, íslensk spilling er sk… á priki samanborið við spillingu þessara landa. Stærð skiptir ekki sköpum þegar spilling er annars vegar, hin óspilltu skandinavísku lönd eru smáríki miðað við þær þrjár spillingarhítir sem nefndar voru.

 Lokaorð

 Það sem hér segir kann  að sýna að erfitt er að finna almenn lögmál um mannlega hegðun. Það er vart almennt lögmál að hafta- og skömmtunarkerfi valdi spillingu, dæmið um Noregi sýnir hið gagnstæða.  

Því er best að ofreyna sig ekki á alhæfingum um mannlífið þótt þær séu stundum frjóar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni