Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hitler og Stalín: Hvor drap fleiri? Hvor kúgaði meir?

Um daginn fór ég í kvikmyndahús og sá myndina Mr. Jones í leikstjórn hinnar pólsku Agnieszku Holland. Hún byggir á raunverulegum atburðum, því þegar breski blaðamaðurinn Mr. Jones uppgötvaði hungursneyðina miklu í Úkraínu í byrjun fjórða áratugarins.

Milljónir manna sultu í hel, „þökk“ sé Sólinni miklu, Jósef Stalín, sem lét taka afurðir af bændum til að fjármagna meinta iðnvæðingu. Bændurnir stóðu eftir slyppir og snauðir, þessar skelfingar kalla Úkraínumenn "Holodomor".

Mannjöfnuður (skrímslajöfnuður).

Löngum hefur verið vinsælt að bera þá saman, Hitler og Stalín, og velta því fyrir sér hvor hafi verið atgangsharðari í manndrápum og kúgun. 

Því var haldið fram í hinni svonefndu Svartbók   kommúnismans  að kommúnistar beri beina eða óbeina ábyrgð á dauða allt að hundrað milljón manna, nasistar „aðeins“ tuttuguogfimm milljón (Courtois 2009).  Reyndar  gagnrýndi einn af höfundum bókarinnar, Nicolas Werth, meginhöfundinn, Stéphane Courtois, fyrir að ofmeta tölu fórnarlamba kommúnismans (samkvæmt t.d. Arch Getty 2000 og wikipediu). 

Sagnfræðingurinn Timothy Snyder segir að gögn frá Sovéttímanum sýni að Stalín hafi „bara“ látið drepa sex til níu  milljónir manna, nasistar hafi látið drepa ellefu til tólf milljónir óbreyttra borgara. Í ofan á lag séu nasistar ábyrgir fyrir mestöllu mannfalli síðari heimsstyrjaldar (Snyder 2011).

Við má bæta að þetta  þýðir  að nasistar hafi drepið tæpa milljón á ári, Stalín „aðeins“ um hálfa milljón.

Niðurstaðan er sú að ekki eru afgerandi sannanir fyrir því að annað kerfið hafi verið morðóðara en hitt.

 Alræði.

Voru kerfi Hitlers og Stalín hreinræktuð alræðiskerfi? Þýski sagnfræðingurinn Martin Broszat dró í efa að nasistastjórnin hafi haft alræðisvald. Ýmsar valdmiðjur hafi verið í kerfinu, t.d. hafi SS orðið að hartnær sjálfsstæðri höfuðskepnu.

Ákvarðanir hafi einatt verið handahófskenndar bráðabirgðaákvarðanir enda hafi hugmyndafræðin verið óljós.

Ekki hafi verið skipulega stefnt að útrýmingu gyðinga fyrr en líða tók á heimsstyrjöldina, and–semítisminn hafi upphaflega aðallega verið tæki til að afla flokknum og Hitler vinsælda  (Broszat 1981) (Broszat 1983: 52–76).

Það fylgir sögunni að  þýski fræðimaðurinn Franz Neumann dró  upp svipaða mynd af veldi nasista þótt hann kendi það við alræði. Það hafi verið e.k. óreiðuríki með ýmsum valdamiðjum, sum  nánast eins og glæpasamtök.

Hann líkti nasismanum við skrímslið Behemoth sem nefnt er í Biblíunni. Óreiðuskrímsli sem ríkti yfir hafinu en stigveldisskrímslið Levíathan réði landjörðinni. Átökum Þýskalands og Sovétríkjanna líkir Neumann við átök skrímslanna sem sagt er frá í Ritningunni  (Neumann 1942).

Með líkum hætti  hafa  ýmsir sagnfræðingar borið  brigður á að stjórn Stalíns hafi verið hreinræktuð alræðisstjórn. Endurskoðunarsinnaðir sagnfræðingar  á borð við John Arch Getty segja að myndin af  ógnarstjórn Stalíns byggi í of miklum mæli á vitnisburði útlaga.

Gögn  úr sovéskum skjalasöfnum, sem aðgengilega hafa orðið eftir fall Sovétríkjanna,  sýni annað. Ríkisvaldið hafi að mörgu leyti verið veikt, ógnarstjórnin hafi verið tilraun til að styrkja það.

Ógnarstjórnin hafi verið handahófskennd, í sumum tilvikum hafi Stalín reynt að hafa hemil á morðæði sveitaleiðtoga en hafði ekki alltaf erindi sem erfiði (Arch Getty 2002: 113–138).

Enda hafi  89% allra ákvarðana  stjórnmálanefndarinnar  verið teknar án aðkomu Stalíns (nefndin sú var æðsta valdamiðstöð Sovétríkjanna). Samt hafi nefndin alls ekki verið alvöld, staðbundnir ráðamenn haf haft  talsvert að segja. 

Arch   Getty segir beinum orðum:

„ In fact, the chain of command collapsed more often than it functioned. The Communist Party, far from having penetrated every corner of Russian life, was more an undiciplined force with little influence outside the cities. Soviet Russia in the thirties resembled a backward traditional society far more than a sophisticated order of totalitarianism.“(Arch Getty 11985: 27).

Margar deildir kommúnistaflokksins til sveita hafi ekki haft neina  möguleika á símasambandi við miðstöðvar flokksins. Eini möguleikinn á að ferðast hafi verið sá að beisla þarfasta þjóninn, hestinn.

Einnig var mannskapurinn í deildarstjórnum misjafn, æðimargar fyllibyttur, tækifærissinnar og fólk sem vissi ekki hvað marxismi og kommúnismi var  (sjá einnig kynningu á og umræðu um kenningar Arch Gettys, Davies og Harris 2011: 1–17).

En Simon Sebag Montefiore dregur upp aðra mynd af Sovétríkjunun um daga Stalíns. Hann byggir  líka   skrif sín á nýlega opnuðum skjalasöfnum, og talar eins og Stalín og nánustu samverkamenn hans hafi verið einráðir að kalla. Hann hafi reyndar  fyrst orðið alræðisherra árið 1937 (Montefiore 2004: 247).

Ekki skal lagður dómur á þessar pælingar hér nema það sem Broszat sagði um gyðingahatrið. Ekki þarf að lesa mikið í Mein Kampf til að sjá þar hrikalegt hatur á Gyðingum, svo mikið að tæpast hafa skrifin verið eingöngu í áróðursskyni (Hitler 1943). Aftur á móti var hjal nasista um sósíalisma aðallega í nösunum á þeim eins og rakið skal hér að neðan.

Hitler og hugmyndafræðin.

Einhver kann að hnjóta um þau orð Broszats að hugmyndafræði nasista hafi verið á reiki.  Enda hefur áróðursvél hinnar íslensku frjálshyggju  fengið marga til að trúa því að nasistar hafi verið e.k. sósíalistar og trúað á sögulega nauðsyn eins og kommarnir (sjá t.d. Ólaf 1978).

Þetta er tóm tjara, nasistar hófu sinn „glæsta“ feril á að einkavæða í stórum stíl (Bel 2011: 34-55). Eða hví skyldi Hitler hafa lofsungið einkaframtakið í ræðu árið 1935? (Hitler 1935: 11 )

Sá er flugufótur fyrir kenningu frjálshyggjumanna að framan af voru e.k. sósíalistar áhrifamiklir í nasistaflokknum en þeir misstu völdin og var mörgum þeirra stútað á nótt hinna löngu hnífa árið 1934. Þegar nasistar náðu völdum gerðu þeir ekkert til að framkvæma vinstriliðina í stefnuskrá sinni  (sjá t.d. Tingsten 1992: 113-121). 

Því til sannindamerkis má nefna að þeir   þjóðnýttu aldrei neitt. Þeir hófu áætlunarbúskap til að undirbúa stríð og var búskapur sá í náinni samvinnu við einkafyrirtæki (Kitchen 1976: 55).

Fyrir utan Auschwitz getur að líta mikla verksmiðju í eigu I.G. Farben þar sem fangar máttu þræla dag og nótt. Skrítinn sósíalismi atarna!

Nasistar höfðu hvorki eiginlega efnahagsstefnu, heimspekistefnu  né stefnu í trúarmálum, gagnstætt kommúnistum (sjá t.d. Neumann 1942: 187).

Tilraun Alfreds Rosenbergs til að skapa e.k. nasíska söguskoðun var misheppnuð þar eð Hitler og kó höfðu lítinn áhuga á henni (Rosenberg 1934) (Kitchen 1976: 28).

Þeir voru yfirleitt ekki ginnkeyptir fyrir sértækri hugsun enda töldu þeir hana gyðinglega.

Hugmyndafræði þeirra fólst  helst í kynþáttahyggju og -hatri,  stríðshyggju, þjóðrembu,  auk dýrkunar á Hitler. Gyðingahatrið, hatrið á vinstrisósíalistum,  hatrið á lýðræði, þjóðremban  og stríðshyggjan eru einu fastarnir í Mein Kampf Hitlers en hún fjallar aðallega um höfundinn sjálfan, þann leiða fýr (Hitler 1943).

Glæpir þeirra voru að miklu leyti drifnir af þessari hugmyndafræði en hún var engan veginn altæk, gagnstætt hinni kommúnísku. Stríðshyggja þeirra átti mikinn þátt í síðari heimsstyrjöld, þeim fannst hreinlega styrjaldir vera af hinu góða.

Snyder hefur því á að réttu að standa er hann segir nasista bera meginábyrgð á mannfallinu í síðara heimsstríði, dauða 50-70 milljóna manna.

Lokaorð um morð.

Fyrir rúmum aldarþriðjungi heyrði ég hinn þýsk-franska Daniel Cohn-Bendit flytja sérdeilis skemmtilega ræðu þar sem hann ræddi anarkisma sinn  og sagði frá því þegar hann var alræmdur leiðtogi stúdentauppreisnar í París árið 1968.

Hann nefndi þá Stalín og Hitler og spurði hvort eitthvað vit væri í að telja skópör hinna myrtu og bera saman fjöldann. Spurningin er hvort svona mannjöfnuður sé frjór, pólitískt morðæði er morðæði hvort sem það er framið í miklum eða litlum mæli.

Heimildir:

Arch Getty, J.   1985.  Origin of the Great Purge. The Soviet Communist PartyReconsidered, 1933–1938. Cambridge: Cambridge University Presss.

Arch Getty, J. 2000. „The Future Did Not Work“, The Atlantic, mars, Sótt 3/4 2020 á https://www.theatlantic.com/magazine/archive/2000/03/the–future–did–not–work/378081/  

Arch Getty, J. 2002.  „Excuses are not Permitted“: Mass Terror and Stalinist Governance in the Late 1930s“, The Russian Review, Vol. 61, No. 1 (janúar):  113–138.

Bel, Germa. 2010. „Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany“, Economic History Review, 63 (1):  34–55.

Broszat, Martin. 1981. The Hitler State (þýðandi John W. Hiden). London og New York: Longman.

Broszat, Martin. 1983. “Zur Struktur der NS–Massenbewegung“, Vierteljahrshefte für Zeitgeschichte, Jahrgang 31, Heft 1: 52–76.

Courtois, Stéphane (ritstj). 2009. Svartbók kommúnismans. Þýðandi og ritstjóri Hannes H. Gissurarson. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Davies, Sarah og Harris, James. 2011.“Josef Stalin: power and ideas” í Davies, S og Harris, J (ritstj.): Stalin: A New History. Cambridge: Cambridge University Press: 1–17.

Hitler, Adolf. 1935.  Lighed giver fred (þýðandi  Clara Hammerich): København: Hasselbalch.

Hitler, Adolf (1943): Mein Kampf. München: Zentralverlag der NSDAP. Sótt 8/5 2019 á https://archive.org/details/Mein–Kampf2 “Holodomor” https://en.wikipedia.org/wiki/Holodomor Sótt 22/8 2020.

Montefiore, Simon Sebag. 2004.  Stalin. The Court of the Red Tsar. London: Phoenix.

Neumann, Franz. 1942. Behemoth. The Structure and Practice of National Socialism. London: Victor Gollanz Ltd.   

 Ólafur Björnsson. 1978.  Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Kitchen, Martin. 1976. Fascism. London: MacMillan Press.

Rosenberg, Alfred (1934): Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch–geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen–Verlag. Sótt 8/5 2019 á https://archive.org/details/Rosenberg–Alfred–Der–Mythus–Text

Snyder, Timothy2011.„Hitler vs Stalin. Who was Worse? New York Review of Books, 27/1.  Sótt 3/4 2020 á https://www.nybooks.com/daily/2011/01/27/hitler–vs–stalin–who–was–worse/  

Tingsten, Herbert. 1992. Nazismen och fascismens idéer. Den nationella diktaturen. Gautaborg: Ratio.

«The Black Book of Communism» https://en.wikipedia.org/wiki/The_Black_Book_of_Communism     Sótt 22/8 2020

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu