Hinsta heimspekiþingið (ritdómur)
Arild Pedersen (2013): The Last Conference. A
Pragmatist Saga. Ósló:: Akademika Publishing.
Einhvern tímann skrifaði Þórarinn Eldjárn smellna háðssögu sem ber heitið Síðasta rannsóknaræfingin. Rannsóknaræfing er eða var árlegt þing og veisla íslenskufræðinga. Koma margir þeirra við sögu hjá Þórarni og mátti kenna lifandi fyrirmyndir. Gert er heiftarlegt grín að mörgu í fari þeirra og ýmsu í hefðum fagsins. Norski heimspekingurinn Arild Pedersen hefur áreiðanlega aldrei lesið smásögu Þórarins, samt hefur hann sett saman skáldssögu sem á margt sammerkt með henni. Hún fjallar um alsíðustu heimspekiráðstefnu sem haldin verður og eiga margar persónur hennar sér lifandi fyrirmyndir. Höfundur hæðist mjög að þeim og heimspekingum almennt, samhljómurinn við smásögu Þórarins er augljós. Ráðstefnan er haldin á Íslandi á tímum búsáhaldabyltingar og eldgosa í Eyjafjallajökli. Umræðuefnið er hugtakið um reynslu. Á ráðstefnunni leiða saman hesta sína helstu fílusópar veraldar, sögumaður er bandarískur blaðamaður. Hann undirbýr sig fyrir ferðina með því að lesa íslenskar fornsögur og þykir mikið til koma.
Heimspekingar ræða kenningar
Ráðstefnan hefst á fyrirlestri prófessors Vitts sem er lamaður að neðan enda gefið í skyn að hann boði geldingaspeki. Hann er fylgjandi hatrammri rökspeki Bretans Timothy Williamsons (f. 1955) sem er prófessor í Oxford. Táknrökfræði er allra heimspekimeina bót, segja þeir Vitt og Williamson. Og dyggð að búa til heimspekileg stærðfræðilíkön. Leysa má vandamál á borð við þau sem tengjast reynslunni með því að gera hugsanatilraunir, sitjandi á borunni í hæginda- eða hjólastól. Fá eða engin óskýr mörk séu milli fyrirbæra í heiminum, hann er stafrænn, ekki analogur (þetta er fræg kenning Williamsons). Blaðamaðurinn leikur barnið sem benti á að keisarinn væri allsber og spyr hvort hægt sé að lýsa ferlinu að verða ástfanginn sem ferli þar sem klár mörk séu milli þess að vera ástfanginn og vera um það bil að verða það. Einnig spyr hann hvort ástarreynslu sé hægt að skilja með hugsanatilraunum einum (blaðamaðurinn er við það að falla fyrir heimspekidís nokkurri). Vitt þykir lítið til þessara athugasemda koma. Næst á dagskrá er norsk valkyrja og karlaæta sem blótar Immanuel Kant (1724-1804). Hann taldi að reynslan væri með nauðsyn mótuð að skoðanahorfum og hugtökum sem væru byggð inn í hugann (réttara sagt eru þau forsendur hugarstarfsemi). Valkyrjan ræðir heimspekikenningar hins breska John McDowell (f. 1942) sem telur alla reynslu gegndreypa af hugtökum. Blaðamanninum verður hugsað til ástarreynslu sinni með heimspekidísinni og þykist fullviss að sú reynsla sé að miklu leyti handan hugtaka. Þá stígur í pontu íslenskur heimspekingur og jarðfræðingur sem Gunnar nefnist og er grunsamlega líkur nafna sínum frá Hlíðarenda. Hann er hallur undir kenningar Hegels og Bandaríkjamannsins Robert Brandom (f. 1950). Hegel taldi að ekki væri hægt skilja reynslu öðruvísi en að skoða hana sem lögbundið, sögulegt þróunarferli frá einfaldri skynreynslu til heildrænnar sýnar á heiminn. Brandom gengur ekki eins langt en lýsir merkingarheimi okkar sem miklum vef setninga er leiða röklega hver af annarri. Þennan vef vill hann gera ljósan enda heitir meginrit hans Making it Explicit. Meginlandsspekingurinn Wunsch (Ósk) lætur í sér heyra og segir í póstmódernískum stíl að allur heimurinn sé einn allsherjar texti.
Ragnarök heimspekinnar
Nú flytur ráðstefnan til Þingvalla enda er þar gjá milli Evrópu og Ameríka sem samsvarar gjánni milli bresk-bandarískrar greiningarspeki (e. analytical philosophy) og evrópskrar meginlandsspeki. Ráðstefnugestum er komið fyrir í Lögréttu og ber ráðstefnuhaldið nú keim af fornu þinghaldi Íslendinga. Þar leysist ráðstefnan upp vegna ósættis enda var oft barist á þingum til forna. Norska valkyrjan Hallgerður neitar að lána Gunnari hljóðnema sinn og fær hann því ekki ávarpað samkomuna (sem frægt er orðið neitaði Hallgerður langbrók Gunnari frá Hlíðarenda um hár úr höfði sér á ögurstundu). Gerist nú margt á skömmum tíma, Eyjafjallajökull gýs og farast nokkrir heimspekingar í gosinu, þar á meðal sá sem trúði á alveldi textans. Hallgerður ríður inn í eldhraunið, ögn eins og Sigurður Fáfnisbani í Wagneróperunni Ragnarökum. Enda hafði völva nokkur spáð þessum hamförum og mæltist eins og þeirri sem kvað Völuspá. Þeir sem eftir lifa fara til Reykjavíkur og hefst ráðstefnan þar að nýju. Heimspekidísin boðar verkhyggju (e. pragmatism), blaðamanninum ástfangna til óblendinnar ánægju. Í sama knérunn heggur Niall nokkur sem er skegglaus eins og Njáll á Bergþórshvoli og fullt eins vitur. Hann heldur fyrirlestur um verkhyggju John Deweys (1859-1951) og andæfir allri trú á að heimurinn sé texti eða gegndreypa af hugtökum. Dewey telur reynsluna í grunninn vera estetíska og boðar athafnasemi, við öðlumst þekkingu með virku starfi, ekki með setu í hægindastól.
Skoðanir höfundar
Þetta er augljóslega hyggja höfundar, Pedersens, en hann hefur lofað Dewey og aðra verkhyggjumenn í ræðu og riti. Rétt eins og verkhyggjumaðurinn Richard Rorty (1931-2007) boðar Pedersen endalok heimspekinnar, alla vega sem sérstakrar fræðigreinar. Í formála bókarinnar kynnir hann eigin skoðanir. Hann telur að syndafall hafi orðið í heimspekinni þegar Platon hafnaði fagurbókmenntum og vildi gera mælskubrögð útlæg úr heimi spekinnar. Afleiðingin hafi orðið misheppnuð vísindavæðing heimspeki, hennar iðkendur kappkosti að skrifa eins og vísindamenn með vægast sagt klénum árangri. Lausnin sé að tengja myþos og logos á ný, frásögur og rökhugsun. Skapa alheimspeki (e./þý Gesamtphilosophy), samanber allistaverk (þý Gesamtkunstwerk). Þannig megi sætta hægra og vinstra heilhvel, nota bæði er menn hugsa heimspekilega.
Þetta er skemmtileg hugmynd, það er ekkert gegn því að reyna nýjar heimspekileiðir, megi þúsund filósófisk blóm blómgast. En Pedersen er kannski fullfljótur á sér að boða heimspekinnar, búið er að boða hann a.m.k. tvö hundruð. Kannski eru vandamál heimspekinnar einfaldlega flóknari en vandamál raunvísinda, þess vegna séu framfarir mun hægari í henni en í vísindunum. Kannski er manninum ekki gefið að ráða gátur heimspekinnar.
Lokaorð
Eins og lesanda grunar þá er bókin bæði frumleg og smellin, sjaldgæft er að menn skrifi skáldsögur um heimspeki og engum hefur áður dottið í hug að láta ragnarök spekinnar eiga sér stað á Íslandi. En ekki er ég viss um að aðrir en heimspekimenntaðir menn geti notið bókinnar til fullnustu. Hvað um það, ég mæli með þessari óvenjulegu bók.
Athugasemdir