Hernám í sjötíu og fimm ár
Mig minnti að Bretar hefðu hernumið Ísland þann tíunda júní 1940 og ætlaði að blogga um málið á sjötugasta og fimmta afmælisdeginum.
En svo kom í ljós að ég hafði farið mánaðarvillt, hernámið hófst þann tíunda maí.
Betra er seint en aldrei, ég nota nú tækifærið til að minnast þessa örlagaríka atburðar.
Langtímaáhrif
Þó hyggst ég ekki ræða einstaka sögulega viðburði heldur langtímaáhrif hersetunnar, þá sérstaklega þeirrar bandarísku.
Ég neita því ekki að hún hafi haft sínar góðu hliðar, komið Íslendingum í nánari tengsl við nútímann og hugsanlega veitt þeim vernd.
Alltént var rétt af Íslendingum að ganga í NATÓ. En ég held að herveran hafi spillt þjóðinni og jafnvel verið henni efnahagslega skaðvænleg þegar til langs tíma er litið.
Siðrof í kjölfar herkomu
Eitt er fyrir sig að herkoman olli miklum og skyndilegum samfélagsbreytingum. Svo snöggar og víðtækar breytingar leiða oft til siðrofs (anomie).
Hefðgróin siðaboð missa gildi sín án þess að ný komi í stað þess, afleiðingin er ringulreið og jafnvel hreint siðleysi. Þessari ringulreið lýstu ýmsir rithöfundar vel, t.d. Indriði G. Þorsteinsson í 79 af stöðinni.
Siðleysið birtist m.a. í ástandinu þegar fjöldi stúlkna vart komnar á gelgjuskeið lögðust með hermönnunum.
Ég efast um að slíkt hafi verið algengt, hvorki fyrir 1940 né eftir að mesta hervíman var runnin af þjóðinni.
Siðferðishömlur hvað kynlíf varðaði gufuðu allt í einu upp þegar herinn birtist.
Alþjóðarembungar keppast við að verja ástandið enda telja þeir allt útlent af hinu góða.
Þeir segja með vissum rétti að yfirvöld hafi farið illa með stelpugæsirnar en gleyma því að hermennirnir hljóta að teljast barnaníðingar.
Þeim hefði átt að stinga inn.
Bretavinnan og slugsið
Hvað sem því líður þá segja margir sem upplifðu stríðsárin, að Breta- og Kanavinnan hafi eyðilagt vinnusiðferði Íslendinga.
Menn komust upp með að slugsa í Bretavinnunni, Sigurður Pálsson bregður upp skemmtilegri mynd af því í leikriti sínu Hlaupvídd sex.
Þar liggja karlarnir á vörubílapallinum og dorma meðan einn stendur vakt og ræsir þá ef offíserinn skyldi birtast.
Ég hef sterklega á tilfinningunni að ýmislegt vinnuslugs hafi orðið landlægt á Íslandi við herkomuna.
Það kann að vera ein skýringin á litlum afköstum á unna klukkustund sem aftur er ein meginskýringin á lágu tímakaupi.
Hið ameríska græðgisfræ
Til að gera illt verra sáði Kaninn græðgisfræi í hugum margra Íslendinga, hugsanlega óafvitandi.
Þá hófst hið Ameríkuættaða lífsgæðakapphlaup, það orð er ekki hægt að þýða á norsku.
Þökk sé nægjusemi sinni og aga hefur Norðmönnum tekist að reka fremur skynsama olíupólitík enda urðu þeir ekki fyrir amerísku siðrofi.
Hin Kanaættaða græðgi kann að koma í veg fyrir sam-framtakssemi af norska taginu, því að geta lyft grettistaki (olíuauð) með samstilltu átaki
(sam-framtaksemin norska hefur sínar skuggahliðar, skort á einkaframtaki og þrúgandi sáttamenningu, nánar um það síðar).
Hefðu Íslendingar ekki fengið Kanann í hausinn má vera að þeir hefðu getað skipað fiskveiði- og orkumálum sínum með skynsamlegri hætti. Með öguðu, samstilltu átaki.
Græðgin Kanakynjaða hefur verið Íslendingum stórskaðleg og er ein af ástæðum þess að þjóðin er skuldum vafin.
Vel kann að vera að þjóðin hefði verið fátækari án Kanans en hún hefði líklega verið nægjusamari.
Menn hefðu verið ánægðari með sitt, ekki haft mikla þörf fyrir að eignast meira góss og þéna meira fé.
Kanagullið og spilling
Kanagullið olli spillingu á Íslandi rétt eins og víða um lönd, .t.d. á Ítalíu þar sem Marshallaðstoðin lenti að nokkru í klóm mafíunnar.
Fræg er skopmyndin í Speglinum af íslensku ráðherrunum sem komu aftur til Íslands eftir fundarhöld vestanhafs skömmu eftir stríð. Lítið barn bendir á þá og spyr móður sína „,mamma, hvor er kók og hvor er kóla“?
Ráðherrarnir höfðu notað tækifærið til að verða sér út um umboð á amerískum kúl-varningi.
Nokkru síðar er fyrirtækið Íslenskir aðalverktakar stofnað, fyrirtæki sem hafði einkarétt á framkvæmdum fyrir herinn.
Sagt er að Sjálfsstæðis- og Framsóknarmenn hafi ráðið hvor sínum helmingi fyrirtækisins.
Sé það rétt þá lagði herinn óafvitandi grunninn að helmingaskiptakerfinu. Fyrir stríð hötuðust Sjálfsstæðis- og Framsóknarmenn.
Siðrof hernámsins kann að hafa átt þátt í að skapa það siðleysi sem virðist alltof algengt meðal jafnt ráðamanna sem almennings.
Um „afrek“ ráða- og viðskiptmanna þarf ekki að fjölyrða, tillitsleysi Íslendinga í umferðinni er dæmi um siðleysi alþýðu manna.
Þegar herinn kom misstu gömul siðaboð gildi sitt, allt virtist mögulegt og allt leyfilegt.
Herinn og hækjuhagkerfið
Herinn skapaði líka ákveðið hækjuhagkerfi, Íslendingar gátu allt í einu fengið mikið fyrir lítið bara vegna þess að Kaninn vildi hafa þá góða.
Sagt er að Loftleiðir hafi fengið rétt til að fljúga til Bandaríkjanna bara vegna hersins, ekki vegna þess að fyrirtækið væri svo stórkostlegt (á þeim árum fengu aðeins fáein erlend flugfélög að fljúga til BNA).
Þetta skapaði hækjuvæntingar, Íslendingar gerðu innst inni ráð fyrir því að Kaninn reddaði þeim ef illa færi.
Eins og Böðvar Guðmundsson orti „því amríski herinn svo réttsýnn og rogginn, hann réttir oss vafalaust eitthvað í gogginn“.
Þetta ýtti undir ábyrgðaleysi, vel má vera að ofur-ábyrgðarleysi útrásarinnar hafi átt frumrætur í hækjuvæntingunum.
Blame-game?
Nú kann einhver að spyrja hvort ég sé ekki farinn að leika „blame-gameið“ sem ég hef gagnrýnt „ónýtunga“ fyrir að leika. Leita að allsherjar blóraböggli þess sem miður fer á Íslandi.
Svar mitt er að ég er að velta vöngum, velta því fyrir mér hvort herveran hafi haft neikvæðari áhrif en margur hyggur.
Ég efast ekki eina sekúndu um að gallar hins íslenska samfélags eigi sér margháttaðar orsakir, síst vil ég firra ráðamenn og almenning ábyrgð.
Játað skal líka að erfitt er að sannreyna tilgátur mínar um áhrif hersins. Samt gætu þær vel verið sannar. Í því má pæla.
Lokaorð
Af hverju heitir pistill þessi „Hernám í sjötíu og fimm ár“? Er ekki herinn löngu farinn?
Meginstef pistilsins er að hann sé fráleitt farinn, hugur Íslendingsins sé enn hernuminn.
Athugasemdir