Hegel og alræðið
Ólafur Björnsson, hagfræðiprófessor og þingmaður, var góður hagfræðingur og heiðursmaður sem barðist gegn haftastefnu. Minn fyrsta fróðleik um hagfræði fékk ég er ég gluggaði í lexíkon hans um þau fræði.
En hann missteig sig illa er hann setti saman bók sem nefndist Frjálshyggja og alræðishyggja. Hún kom út árið 1978 og var liður í nýrri stórsókn frjálshyggju en lítið hafði á henni borið um áratuga skeið.
Í bókinni eru stjórnmálaskoðanir dregnar í tvo dilka, frjálshyggju- og alræðishyggju-dilkinn.
Fyrrnefnda spekin væri speki hins góða, sú síðarnefnda hins illa. Æði líkt málflutningi kommúnista um hinn góða marxisma og hina illu, borgaralegu speki. Margt er líkt með skyldum.
Hvað um það, Ólafur ræðir m.a. heimspeki Hegels og er hún fordæmd sem alræðisspeki. En Ólafur studdi sig eingöngu við skrif Karls Poppers um hana, engra rita Hegels er getið í heimildaskrá (Ólafur (1978): 256-257). Samt má finna meintar tilvitnanir í Hegel (t.d. Ólafur (1978): 47-48).
Þær virðast ættaðar úr bók Poppers, The Open Society and its Enemies en Popper hefur verið sakaður með vissum rétti um lesa verk Hegels eins og fjandinn Biblíuna (sjá t.d. Kaufmann (1959): 88-119).
111 meðferð Poppers á Hegel.
Ég mun hefja má mitt á því að gagnrýna þessa 111 meðferð á skepnum, meðferð Poppers á textum Hegels. Svo mun ég gagnrýna þá kenningu Poppers að söguhyggja sé orsakavaldur alræðishyggju.
Samkvæmt kokkabókum Poppers er söguhyggja sú kenning að atburðir í mannheimum lúti ófrávíkjanlegum sögulegum lögmálum. Lítum nú á staðhæfingar Poppers. Hann segir án þess að geta heimilda að Hegel hafi látið stjórnast af hagsmunum Friðriks Vilhjálms, Prússakonungs (Popper (1971): 32 og 41).
Aukinheldur slær hann fram þeirri fullyrðingu að Hegel hafi viljað stöðva skynsamlegar orðræður og enn vantar heimildirnar (Popper (1971: 40).
Svo bætir Popper því við að Hegel hafi verið stríðsæsingarmaður og þjóðrembir. Hegel líti svo á að sumar þjóðir séu bornar til heimsvalda og að sérhvert ríki þurfi að sanna tilverurétt sinn í styrjöldum (Popper (1971): 62).
Þessi staðhæfing er ekki í samræmi við það sem Hegel segir um málið í æskuriti sínu um þýsku stjórnarskrána. Þar segir hann aðeins að hópur manna geti ekki talist þjóð nema hann sýni vilja til að verja landið sem hann byggir (Hegel (1966a): 31).
Ekki bætir úr skák fyrir Popper að hann beitir því billega bragði áróðursmannsins að taka tilvitnun úr samhengi til að sverta andstæðing sinn. Tilvitnun Poppers hljómar svona: "There is an ethical element in war "("Það er siðlægur þáttur í styrjöldum") (Popper (1971): 68).
Lítum á ummæli Hegels sjálfs: "Í því sem áður segir má finna hin siðlæga þátt stríðsins en ekki má líta á stríð sem algerlega af hinu illa og ekki bara sem yfirborðslegt og tilviljunarkennt fyrirbæri…" ("In dem Angegebenen liegt das sittliche Moment des Krieges, der nicht als absolutes Übels und als eine bloss äusserliche Zufälligkeit zu betrachten ist…" Hegel (1986): 492 ( § 324).
Hinn siðræni þáttur er skylda borgaranna til að fórna sér fyrir ríkið í styrjöld.
Hegel til varnar má túlka þessa klausu með þeim hætti Hegel hafi í huga þá skyldu manna að fórna sér fyrir föðurlandið verði á það ráðist. Auk þess virðist hann segja í tilvitnuninni að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott. Þess utan komi þjóðir styrktar út úr styrjöldum og eilífur friður sé fólki ekki hollur (Hegel (1986): 493-494 (§324)).
Hegel til afbötunar má nefna að hann taldi mannúðarblæ á styrjöldum sinnar samtíðar, maðurinn gat ekki séð fjöldaslátranir tuttugustu aldarinnar fyrir. Hann segir að þjóðarréttur og eignarréttur sé virtur í styrjöldum samtímans, (Hegel (1986): 502 (§328)).
Líklega hafði Hegel Napóleonsstríðin í huga en því má ekki gleyma að hermenn Napóleóns hjuggu að feysknum rótum lénsveldisins. Hernámi Frakka fylgdi réttlátara dómskerfi og aukin mannréttindi, það þótt keisarinn væri einræðisherra og gerði sig sekan um ýmsa óhæfu. Því er ekki að undra þótt Hegel væri ekki alfarið á móti hernaði enda dáði hann Naflajón á tímabili og kallaði „þessa heimsál“ í frægu bréfi (Hegel 1806).
Í ljósi þessa er einkennilegt að Popper skuli kenna Hegel við þýska (eða prússneska) þjóðrembu en Napóleon lagði hálft Þýskaland undir sig (Popper (1971): 64 og víðar).
Popper til varnar má nefna að Hegel breytti oft um skoðun, í æsku hafði hann hneigð til þýskrar þjóðernisstefnu eins og sjá má í áðurnefndu riti um þýsku stjórnarskrána.
Poppers hélt því fram að söguhyggjan sé upphaf og endir heimsósómans.
Trú söguhyggjumanna á járnhörð lögmál sögunnar grafi undan mannúð og geri menn stjórnlynda. Sé sagan hæstiréttur hljóti menn að líta svo á að máttur sé réttur, rétturinn er þeim megin þar sem sigurvegarar sögunnar standa (Til dæmis Popper (1962): 3).
Popper eignar Hegel þessi sjónarmið og kennir hann við móðursýkislega söguhyggju (Popper (1971): 59).
Þessu andæfir T.M. Knox og segir að Hegel hugsi með þveröfugum hætti. Hann hafi litið svo á að réttlætið muni sigra, réttur verði máttur þegar til langs tíma er litið (Knox (1970): 23). Hegel hafði hina megnustu skömm á uppskriftum fyrir fyrirmyndasamfélag.
Hann taldi sig fyrst og fremst vera hlutlausan skoðanda samfélagsþróunarinnar. Sú þróun væri lögbundin saga framfara, saga aukins frelsis eins og Hegel skildi frelsishugtakið.
En algert hlutleysi er illmögulegt og skoðanir Hegels skína í gegn um greiningarnar. Ég lít svo á að það sem Hegel taldi hlutlausa lýsingu sína á þróunarhneigð vestrænna samfélaga sé í flestum tilvikum réttlæting á hans eigin viðhorfum.
Víðfræg er kenning hans um bragðvísi skynseminnar (þ. List der Vernunft). Hinir miklu gerendur mannkynssögunna þrái völd og frægð en gerðir þeirra hafa óafvitaðar afleiðingar, rétt eins og athafnir á markaði.
Napóleon var fyrst og fremst valdagírugur en valdabrölt hans leiddi til þess að Evrópubúar kynntust hugmyndum frönsku byltingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þótt það hafi kannski ekki verið ætlun Naflajóns.
Hugmyndin um bragðvísi skynseminnar var líklega innblásinn af hugmynd Adams Smiths um hina ósýnilegu hönd markaðarins. Bragðvísin sér til þess að framfarir verða í sögu mannskynsins rétt eins og ósýnilega höndin á að leiða til efnahagslegra framfara.
Popper segir ranglega að Hegel hafi dýrkað stórmenni mannkynssögunnar en það er rangt. Hann lýsir þeim sem einstaklingum sem eru á valdi ástríðna en ná aldrei markmiðum sínum, Napóleon lenti á Sankti Helenu og Alexander mikli dó ungur.
Hann segir líka að ekki megi líta einvörðungu á einstaklinga sem tæki bragðvísinnar, virða beri trú og siðferði venjulegs fólks sem hvergi komi nálægt meginviðburðum mannkynssögunnar. Trú og siðferði bóndans og geitahirðisins hafi óendanlegt gildi (Hegel (án ártals) Einleitung, inngangur að fyrirlestrum um heimspeki sögunnar). Undarleg staðhæfing hjá manni sem átti samkvæmt kokkabókum Poppers að hafa fyrirlitið venjulegt fólk og gert lítið úr einstaklingnum!
Hegelvirðist hafa trúað á stjórnarskrárbundið konungdæmi þar sem framkvæmdarvaldið væri í höndum konungs, ráðherra og stéttarþings. Landeigendur áttu að vera sjálfkjörnir á þing enda taldi Hegel að þeir hefðu meiri tíma til stjórnsýslu en aðrir vegna auðæfa sinna. Ennfremur geri efnalegur styrkur þeirra þá sjálfsstæðari gagnvart ríkisvaldinu (Hegel (1986): 475 (§306).
Aðra þingfulltrúa skyldu ýmis félagssamtök kjósa, umræður á þingi skyldi gera heyrinkunnar og ritfrelsi skylda ríkja, innan vissra marka þó. Þessi samfélagsímynd er ekki ýkja frjálslynd eða lýðræðisleg á okkar tíma mælikvarða en hafa ber huga að frjálshyggjumenn þeirra tíma voru á móti almennum kosningarétti. Eignamenn einir áttu að hafa þann rétt.
Hvað sem því líður gerði Hegel ráð fyrir mörgum valdmiðjum, "í húsi föður míns eru margar vistarverur". Þess vegna er varasamt að kenna Hegel við alræðisstefnu því alráðungar eru á móti fjölmiðja samfélagi.
Hegel leggur þunga áherslu á frelsi til starfsvals og segir orðrétt (í þýðingu minni): "Í fyrirmyndarríki Platons hafði huglægt frelsi ekkert að segja, þar eð yfirvöld áttu að ráða starfsvali manna. Í fjölda austrænna ríkja ræður uppruni fólks störfum þeirra. Huglæga frelsið, sem taka ber tillit til, krefst þess hins vegar að einstaklingurinn hafi frjálst val." ("Im Platonischen Staate gilt die Subjektive Freiheit noch nichts, indem die Obrigkeit noch den Individuen die Geschäft zuweist. In vielen orientalischen Staaten geschieht diese Zuweisung durch die Geburt. Die subjektive Freiheit, die berücksichtigt werden muss, fordert aber freie Wahl der Individuen." Hegel (1986): 410 ( §262).
Og ennfremur: "Í fornríkjum var sett jafnaðarmerki milli markmiða einstaklingsins og vilja ríkisins, á okkar dögum gerum við kröfu til þess að hafa eigin skoðanir, vilja og samvisku." (In den alten Staaten war der subjektive Zweck mit dem Wollen des Staates schlechthin eins, in den modernen Zeiten hingegen fordern wir eine eigene Ansicht, ein eigenes Wollen und Gewissen".Hegel (1986): 410 (§ 261).
Þá spyr einhver væntanlega "geturðu neitað því að Hegel hafi verið ríkisdýrkandi, sagði hann ekki að við ættum að dýrka ríkið sem hið jarðnesk-guðdómlega? ("Man muss den Staat wie ein Irdisch-Göttliches verehren…" Hegel (1986): 434 (§ 272).
Vissulega, en hvað merkir "ríki" í huga Hegels? Ríki stendur ekki undir nafni, er ekki alvöruríki, nema það sé réttaríki í anda Hegels sjálfs. Hann hefði talið óréttarríki nasista og kommúnista ófullburða ríki. Þessi greiningarmáti er stofnskyldur frummyndakenningu Platons en samkvæmt henni eru fyrirbæri skynheimsins misgóðar eftirlíkingar frummynda (frummyndaheimurinn er hinn raunverulegi heimur, ekki skynheimurinn).
Hegel segir: "Þegar við ræðum um ríki megum við ekki hafa einstök ríki í huga heldur hugmyndina, þennan raunverulega guð." ("Bei der Idee des Staats muss man nicht besondere Staaten vor Augen haben, …man muss vielmehr die Idee, diesen wirklichen Gott, für sich betrachten.") Hegel (1986): 403 (§ 258).
Af þessari tilvitnun má ráða að Hegel var engan veginn gagnrýnislaus unnandi ríkjandi ástands. En hann taldi að finna mætti einhvern jákvæðan, skynsaman þátt í öllu ríkisvaldi. Þannig er hið raunverulega skynsamlegt, finna má frjóanga skynsemi í veruleikanum.
Hegel líkir ríkinu við lífið, glæpamaðurinn, krypplingurinn og sjúklingurinn hafa þann jákvæða eiginleika að vera á lífi (Hegel (1986): 404 (§258)). Hegel vildi eins og Aristóteles kippa frummyndunum niður á jörðina, þær eru áhrifaþættir (frjóangar) í veruleikanum.
Til glöggvunar á þessari díalektík Hegels skulum við ganga í smiðju til T.M. Knox. Maðurinn er skynsemisvera en samt getur hann hegðað sér óskynsamlega. Þrátt fyrir það heldur hann áfram að vera maður, þ.e. teljast skynsemisvera, hversu óskynsamlega sem hann kann að breyta. Knox segir að okkur beri að skilja ríkishugmynd Hegels í ljósi þessa dæmis, alræðisríkið er eins og maðurinn í dæminu (Knox (1970)).
Gefum nú ríkinu lausn í bili og lítum á aðra þætti í samfélagssýn Hegels. Hann leggur þunga áherslu á að halda beri ríki og samfélagi (þý. bürgerliche Gesellschaft) aðgreindum (Hegel (1986): 339-397 (§ 182-256). Einn þáttur samfélagsins sé þarfakerfið (System der Bedürfnisse) sem er nokkurn veginn það sama og markaðurinn eða efnahagslífið á venjulegu máli (Hegel (1986): 346-359 (§ 189-208)).
Hegel var vissulega fylgjandi einkaeignarétti en var efins um ágæti frjálsrar samkeppni. Hann óttaðist að frjáls samkeppni gæti leitt til aukinnar fátæktar hinna verst settu og gífurlegrar auðsöfnunnar hinna ríku. Ekki bæti úr skák að auður getur breyst í vald (kom sagnarandi yfir karlinn? Sá hann fyrir hið djarfa nýja Ísland sægreifanna?).
Lausnin á þessum vanda sé viss ríkisíhlutun í efnahagslífið. Því skyldi engan undra þótt ísraelski kratinn Shlomo Avineri tali eins og Hegel hafi verið frumherji kratismans (Avineri (1972): 87-101). Hegel segir eins og sannur krati að fátæktin sé alvarlegasta vandamál samtímans.
Það sem Hegel hafði einna helst við England að athuga var stéttakúgun í þvísa landi, gífurleg auðsöfnun yfirstétta og hrikaleg örbirgð almúgans. Í frægum blaðagreinum um enskar umbótatillögur segir Hegel að Englendingar státi sig af frelsi sínu en hver sé raunin? Jú, þetta "frjálsa" samfélag einkennist af sérréttindum pótintáta og aðalsmanna.
Allur almenningur búi við bág kjör en ekki er pólitískur vilji fyrir hendi til að skattleggja þá ríku til að standa straum af skuldagreiðslum ríkisins sem rambi á barmi gjaldþrots (Hegel (1966b): 283-284). Vald gósseigenda sé slíkt að fórnarlömb þeirra, leiguliðarnir, séu litlu betur settir en ánauðugir bændur (Hegel (1966b): 292). Reyndar að sumu leyti verr því landeigendur mega reka bændur af jörðinni eftir eigin geðþótta.
Hegel kvartaði sáran yfir því að veiðiþjófum í Englandi sé refsað altof stranglega. Enda ekki nema von því eigendur veiðilendanna setja sjálfir lögin. Hegel talar með fyrirlitningu um þessar ódönnuðu refaskyttur og landjúnkera sem sitja á enska þinginu.
Honum þykir illt að í umbótatillögunum sé hvergi kveðið á um að þingmenn verði að hafa lágmarksmenntun eins og gert sé í Þýskalandi. Hér kemur menntahrokinn upp í Hegel, hann hafði tilhneigingu til að líta svo á að menntamenn ættu að gegna lykilstöðum í þjóðfélaginu.
Hvað um það, hann á ekki orð til að lýsa hneyklsun sinni á meðhöndlun Englendinga á Írum. Jafnvel Hund-Tyrkinn leyfi kristnum mönnum og Gyðingum að halda guðshúsum sínum en Tjallinn tekur kirkjunnar frá kaþólskum Írum og neyðir þá meira að segja til að borga ensku biskupakirkjunni tíund (Hegel (1966b): 291).
Hitt er svo annað að Hegel var ekki ýkja hrifinn af tillögum umbótamanna um rýmkun kosningaréttar. Enska kerfið sé rotið af spillingu, þingsæti ganga kaupum og sölum (Hegel (1966b): 303). Þess vegna standi kjósendum á sama um kosningaréttinn. Til dæmis fækkaði kjósendum á Írlandi um 200.000 vegna hækkunnar kosningagjalds án þess að nokkur hreyfði andmælum. Eins skiptir sérhvert atkvæði litlu og mun skipta enn minna máli fjölgi kjósendum (Hegel (1966b): 307-8).
Þessar greinar voru skrifaðar skömmu fyrir andlát Hegels. Þær eru auðskildar og ættu að taka af öll tvímæli um að Hegel hafi ekki verið alræðissinni. Vissulega lekur ekki frjálslyndi af síðunum en engin skortur er á frjálsræðishugsun í æskuritum hans.
Ég hef ekki síst í huga rit hans um þýsku stjórnarskrána. Þar segir hann að vegna stærðar nútímaríkis geti einstaklingurinn ekki tekið beinan þátt í stjórnarstörfum. Finna verður því ríkinu miðdepil, helst í mynd konungs sem nýtur almennrar virðingar. Síðan á miðstjórnarvaldið að leyfa einstökum geirum samfélagsins, til dæmis bæjarsamfélögum og starfsstéttum að ráða málum sínum sjálfir (Hegel (1966a) : 38-9).
Hegel andæfir beinum orðum þeirri hugmynd að ríkið eigi að ráðskast með allt samfélagið. Á ríkið að skipta sér af ráðningu hvers einasta skólastjóra í smáþorpum eða stjórna fjárveitingum til rúðukaupum í litlum þorpsskólum? Nei, svarar Hegel, ríkið á ekki að skipta sér af öðru en innra og ytra öryggi en láta frjálsa borgara um annað. Frelsið er heilagt, segir Hegel, það ber að vernda skilyrðislaust.
Slíkur frjálshyggjumaður var Hegel á þessum árum (um aldamótin 1800) að hann er helst á því að málsaðiljar eigi að borga kostnað við réttarhöld. Enginn á að borga fyrir það sem hann hefur ekki þörf fyrir nema um sé að ræða almennar þarfir ríkisins (Hegel (1966a): 42).
Í stjórnarskrárritinu hellir Hegel úr skálum reiði sinnar yfir Prússland, landið sem hann síðar lofaði svo mjög. Prússland er land þar sem öllu er stjórnað að ofan. Og hverjar eru svo afleiðingarnar? Jú, menn eru ekki fyrr komnir inn í fyrsta þorpið innan landamæra þessa makalausa ríkis en þeir finna þann þurrkuntuleika og skort á sköpunarmætti sem þessu stjórnarfari fylgir (Hegel (1966a): 43).
Hegel segir að sú þjóð sé sæl sem fái að valsa frjáls án mikilla afskipta ríkisvaldsins.
Víkjum nú talinu aftur að Karli Popper. Popper ásakaði Hegel fyrir Germannahyggju í anda nasismans (Popper (1971): 48). En Popper athugar ekki að orðasambandið "germönsk ríki" merkir í speki Hegels "vestræn ríki", t.d. telur hann Frakkland með germönskum ríkjum.
Í ofan á lag segir í stjórnarskrárritinu að lýðræðisandinn sé andi germannskra þjóða. Fulltrúalýðræðið sé þriðja form (þ. Gestalt) heimsandans og Þjóðverjar sú þjóð sem skapað hefur þetta form (Hegel (1966a): 93).
Forngermannar bjuggu nefnilega við eins konar lýðræði eins og Íslendingar ættu að þekkja því íslenska þjóðveldið var ein síðasta birtingarmynd þess lags lýðræðis (ef lýðræði skyldi kalla!).
Því er engin furða þótt fulltrúar hins síðgermannska alræðis hafi ekki verið ýkja hrifnir af Hegel. Sidney Hook, sem taldi Hegel stjórnlyndan, viðurkenndi að nasistar hafi ekki verið ýkja hrifnir af hugspekingnum, þeim hafi fundist Gyðingafnykur af öllu þessu tali um skynsemi (Hook (1970): 56).
Helsti hugmyndafræðingur nasista, Alfred Rosenberg, bölvaði Hegel í sand og ösku. Heimspeki hans sé andstæð ekta norrænum trúarbrögðum, auk germanskra og grískra vísinda (þetta er endursögn á eftirfarandi klausu: «Die Logik ist die Wissenschaft von Gott», sagte dieser Hegel. Das wort ist ein Faustschlag jeden echten nordischen Religion, einer jeden echten germanischen, aber auch echt griechischen Wissenschaft“. (Rosenberg 1934: 287).
Það er sem sagt tóm þvæla hjá Popper að nasistar hafi verið innblásnir af Hegel.
Skoðum aftur stjórnarskrárit Hegels. Hann hefði ekki verið hann sjálfur hefði hann verið hreinræktaður frjálshyggjumaður. Í ritinu kemur fram sú hugmynd að aðlinum beri visst forystuhlutverk í samfélaginu og að lénsveldið sé hreint ekki svo galið.
Samt var Hegel fremur maður miðstétta en aðals. Í Réttarheimspekinni segir hann að miðstéttirnar séu öðrum stéttum hæfari til að gegna opinberum embættum. Rétt eins og Aristóteles telur Hegel að öflug miðstétt sé forsenda góðra samfélagshátta. Lítum á Rússland, segir Hegel, þar er veik miðstétt og hin versta ógnarstjórn (Hegel (1986): 464-5 (§ 297)).
Jürgen Habermas hendir gaman að þeim sem vilja draga Hegel í dilka nútíma stjórnmála. Honum finnst næstum eins vitlaust að kenna Hegel við vestrænt frjálslyndi eins og að kalla hann alræðissinna (Habermas (1978): 169).
Avineri segir að á þeim árum sem Hegel var prófessor í Berlín hafi Prússland hreint ekki verið það einræðisríki sem margir ætla. Prússar hafi notið góðs af umbótum ýmissa stjórnskörunga en stjórnarskrárritið var samið fyrir þær umbætur (Avineri (1972): 116).
Skylt er að geta þess að Popper hefur aðra mynd af ástandinu, Prússland var hið argasta alræðisríki á þessum árum, segir hann (til dæmis Popper (1971): 41).
Hvað sem því líður segir Habermas að Hegel hafi verið íhaldssamur í eðli sínu og óttast róttækar breytingar. Samt hafi hann gert sér mætavel grein fyrir ágæti hugsjóna hinnar frönsku byltingar. Til dæmis hélt hann ávallt Bastilludaginn hátíðlegan og dró þá byltingarfánann franska að húni.
Habermas, Charles Taylor og fleiri málsmetandi fræðimönnum ber saman um að Hegel hafi snúist gegn frönsku byltingunni vegna andúðar á ógnarstjórn Jakobína (Habermas (1978): 162-169), (Taylor (1975): 416-418).
Ef til er almennt viðurkennd túlkun á stjórnspeki Hegels þá er hún sú að hann reyni að sameina frjálslyndi og stjórnlyndi, íhaldssemi og framfaratrú. Hann hafi talið að þessi sameining væri að eiga sér stað vegna bragðvísis skynseminnar. Sameiningin væri liður í lögbundinni þróun heimsandans.
Hegel var örugglega ekki alræðissinni en óneitanlega verður sambúð frjálslyndis og stjórnlyndis brösótt með köflum í speki hans. Hinn ungi Hegel hafði engar efasemdir um ágæti tjáningarfrelsis en Hegel Réttarheimspekinnar viðurkennir með ólund að tjáning skuli vera frjáls.
Svo flýtir hann sér að segja að auðvitað megi menn ekki segja allt sem þeir vilja. Á að leyfa mönnum að hvetja til uppreisnar og þjófnaðar? Á mönnum að líðast að ærumeiða aðra, ég tala nú ekki um ef þeir eru kóngar eða ráðherrar? (Hegel (1986): 486-9 (§ 319)). Enn og aftur sjáum við tvískinnunginn í speki Hegels.
Það er enginn barnaleikur að rýna í þessar rúnir og deila má um ágæti hinnar hegelsku stjórnspeki. Þó má telja víst að kenningin um alræðistrú Hegels sé hégilja ein.
Eymd kenningarinnar um eymd söguhyggju
Popper taldi að söguhyggja væri undirrót alræðis, elstu ræturnar væri að finna hjá Platoni en hæst hafi hún risið í verkum Hegels og Marx.
Vandinn er sá að engan veginn er víst að söguhyggja sé ávísun á alræðisstefnu. Anthony Quinton er sammála Popper um að telja beri Platon og Hegel söguhyggjumenn. En hann segist ekki sjá nein tengsl milli söguhyggju þeirra og almennra stjórnmálaskoðana.
Söguhyggja var mjög útbreidd meðal frjálshyggjumanna um nokkurt skeið, segir Quinton. Til að mynda var hinn frjálslyndi upplýsingarmaður Condorcet fullviss um að sagan lyti járnhörðum lögmálum. Hin lögbundna þróun sögunnar var að hans mati þróun í átt að frjálsu samfélagi (Quinton (1976): 156-7).
Við má bæta að furðulegt megi telja að Popper gagnrýni John Stuart Mill fyrir söguhyggju en hrósi honum jafnframt fyrir frjálslyndi (t.d. Popper 1957: 71-72). Sem sagt, Popper segir í einni setningu að söguhyggja sem slík sé alræðisvaldur, í hinni setningunni talar hann eins og söguhyggja Mills sé stikkfrí.
Í þriðja lagi er ekki síður undarlegt að Popper skulu varla nefna söguhyggju frjálshyggjumannsins Herberts Spencers. Spencer taldi að sagan lyti ófrávíkjanlegum lögmálum, frjáls markaður myndi sigra hvað sem tautaði og raulaði (samkvæmt t.d. Sweet (2001).
Hvorki ríki né einstaklingar ættu að styðja þurfamenn, komandi kynslóðir myndu þakka okkur ef við sæjum til þess að þeir dræpust úr hor og fjölguðu sér ekki (Spencer 1851: 264).
Stalín og Hitler hefðu ekki getað orðað þetta betur! Samt væri fáránlegt að kenna Spencer við alræðisstefnu þótt öfgafrjálshyggja hans hefði í framkvæmd vel getað leitt til auðdrottnunar eða hrunríkis þar sem hinir sterku kúga þá veiku.
Í fjórða lagi er engan veginn gefið að söguhyggjumaðurinn hljóti að telja rétt að fórna mönnum á altari sögulegra lögmála. Hann gæti fullt eins sagt að vegna þess að sögulegri framvindu verður ekki breytt sé engin ástæða til að færa slíkar fórnir.
Þannig hugsaði jafnaðarmaðurinn Karl Kautsky sem mun hafa sagt það tímaeyðslu að standa fyrir byltingum með tilheyrandi blóðsúthellingum. Sósíalisminn myndi sigra hvað sem á dyndi (um Kautsky, sjá t.d. Kolakowski 2005: 388-400).
Menn geta því verið söguhyggjumenn án þess að vera alræðissinnar (Mill, Spencer, Kautsky) og alræðissinnar án þess að vera söguhyggjumenn (nasistarnir).
Af ofangreindu leiðir að alræðisstefna er tæpast innibyggð í söguhyggju sem slíka þótt til séu dæmi að söguhyggjan hafi verið notuð til að réttlæta myrkraverk (Stalín og Spencer beittu henni með þeim hætti).
Misnota má allar kenningar, til dæmis misnotuðu nasistar skyldusiðfræði Kants, Adolf Eichmann vísaði til hennar þegar hann sagðist aðeins hafa gert skyldu sína
Um Eichmann og yfirgengilega skyldurækni hans má fræðast hjá Hönnuh Arendt 1994. Deila má reyndar um margt í mynd hennar af Eichmann, flest bendir til að hann hafi framið sín myrkraverk ekki bara af skyldurækni heldur líka af sjúklegu Gyðingahatri.
Lokaorð
Það fylgir sögunni að Ólafur virtist hafa trúað bókstaflega öllu sem Popper sagði um söguhyggju, reyndar líka því sem Hayek sagði um eymd áætlunarkerfis og annað slíkt (Ólafur (1978: 79-94) Um leið fordæmir hann bókstafstrú marxista, „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“ (Ólafur (1978):175-178).
Meinið er að marxistar og frjálshyggjumenn eiga bókstafstrú sameiginlega. Marxisminn er öfgaútgáfa jafnaðartefnunnar, frjálshyggja öfgaútgáfa frjálslyndisstefnu.
En þetta kann að vera ofureinföldun, veröld stjórnmálahugmynda er flóknari en svo að frjótt sé að skipta þeim í örfáa flokka (Kristján Kristjánsson gerir sér grein fyrir þessu og talar um fimmvíð stjórnmál samtímans).
Kenningar meginsstjórnspekinga eru líka það flóknar að erfitt getur verið að túlka og skilja þær. Alltént er ekki líklegt að Georg Wilhelm Friedrich Hegel hafi verið með alræðisgrillur. Og var þó enginn grilluskortur í hugsun hans.
HEIMILDIR
Arendt, Hannah (1994): Eichmann in Jerusalem. Harmondsworth: Penguin (upprunalega útgefin árið 1963).
Avineri, Shlomo (1972): Hegel's Theory of the Modern State. Cambridge: Cambridge University Press.
Habermas, Jürgen (1978): "Zu Hegels Politische Schriften", Theorie und Praxis. Frankfurt: Suhrkamp.
Hegel, G. W. F. (1966a): "Die Verfassung Deutschlands", í Politische Schriften. Frankfurt a.M. : Suhrkamp.
Hegel, G. W. F. (1966b)"Über die englische Reformbill", í Politische Schriften. Frankfurt a.M. : Suhrkamp.
Hegel, G. W. F. (1986): Grundlinien der Philosophie des Rechts. Frankfurt a.M.: Suhrkamp.
Hegel, G.W.F (án ártals): Vorlesungen über die Philosophie der Geschichte.https://www.projekt-gutenberg.org/hegel/vorphilo/chap001.html. Sótt 12/9 2020.
Hook, Sidney (1970): "Hegel Rehabilitated?", í W. Kaufman (ritstj): Hegels Political Philosophy, New York: Atherton Press.
Hösle, Vittorio (1986): "Eine Unsittliche Sittlichkeit. Hegels Kritik an der indischen Kultur", í W. Kuhlmann (ritstj.): Moralität und Sittlichkeit, Frankfurt a.M. : Suhrkamp.
Kaufmann, Walter 1959: „The Hegel Myth and its Method“, í From Shakespeare to Existentialism: Studies in Poetry, Religion and Philosophy. Boston: Beacon Press, bls. 88-119.
Knox, T.M. (1970): "Hegel and Prussianism, í W. Kaufman (ritstj): Hegels Political Philosophy, New York: Atherton Press.
Kolakowski, Leszek (2005): Main Currents of Marxism I-III (þýðandi P.S. Falla). New York og London: W.W. Norton & Co.
Ólafur Björnsson (1978): Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Popper, Karl (1971), The Open Society and its Enemies. 2 Hegel and Marx. New Jersey: Princeton University Press.
Quinton, Anthony (1976): "Karl Popper. Poltics without Essences", í A. de Crespigny og K. Minogue (ritstj): Contemporary Political Philosophy, London: Methuen.
Rosenberg, Alfred (1934): Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch-geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen-Verlag, https://archive.org/details/Rosenberg-Alfred-Der-Mythus-Text Sótt 8/5 2019.
Spencer, Herbert (1851): Social Statics: or, The Conditions essential to Happiness specified, and the First of them Developed. London: John Chapman. The Online Library of Liberty, http://files.libertyfund,org/files/273/Spencer. Sótt 12/11 2008.
Sweet, William (2001): "Herbert Spencer", The Internet Encyclopedia of Philosophy. http://www.utm.edu/research/iep/
Taylor, Charles (1975): Hegel. Cambridge: Cambridge University Press.
Athugasemdir