Hanna Birna II
Enn þverskallast Sigríður Andersen við að gera hið eina rétta, segja af sér. Verð ég að eyða tíma lesenda í að útskýra hvers vegna? Dómsmálaráðherra er einfaldlega ekki sætt í embætti verði embættisfærslur hans dæmdar ólöglegar af Hæstarétti. Einhver kann að segja að litlar líkur séu á að Sigríður víki enda standi Flokkurinn með henni og forsætisráðherra þori ekki að gera neitt í málinu. En minna má á örlög Hönnu Birnu, það tókst að koma henni úr embætti með samstilltu átaki. Reyna ber sömu aðferð núna, þrýsta og þrýsta uns Sigríður sjái sitt óvænna og taki pokann sinn. Spyrja má hve lengi óbreyttir Sjálfsstæðismenn þoli að forystumenn flokksins séu með skandalahala. Þeir hljóta að skilja að það er ein helsta ástæðan fyrir bágu gengi flokksins í kosningum á undanförnum árum. Reyndar gleður minnkandi fylgi Sjálfsstæðisflokksins undirritaðan en betur má ef duga skal. Flokkurinn verður helst að fá minna en 20% atkvæða til að hægt verði að draga vígtennurnar úr honum. En vilji Sjálfsstæðismenn flokki sínum vel þá ættu þeir að krefjast afsagnar Sigríðar og kjósa nýjan formann. Allt um það, Sigríður Andersen skal verða Hanna Birna II!
Athugasemdir