Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Goðsagan um rýtingsstunguna

 

Að leita að blóraböggli er eins algengt og kvef.

Mönnum er tamt að líta svo á að allt sem miður fari sé illum valdsmönnum að kenna.

Þeir rotti sig saman bak við tjöldin og stundi samsæri af verstu gerð.

Blórabögglaleit

Eftir ósigur sinn í fyrri heimsstyrjöld tóku margir Þjóðverjar að leita að blóraböggli.

Þeir höfðu að eigin mati  alls ekki tapað fyrir bandamönnum heldur höfðu ill öfl heima fyrir stungið rýting í bak hins sigursæla hers.

Þýskir Gyðingar og vinstrimenn bæru  ábyrgð á ósigrinum, þeir hafi mundað  rýtinginn. Goðsagan um rýtingsstunguna (þ. die Dolchstoßlegende) varð til.

Hér

Eftir hrun hafa margir Íslendingar verið í blórabögglaleit, orðið hafa til goðsögur um ýmsar rýtingsstungur.

Sú staðreynd að margir lentu í miklum lánavanda í kjölfar hrunsins er skýrð með því að vondir bankamenn hafi um vélt.

Þeir hafi stungið rýtingnum í bakið á saklausum lánþegum. Lág tímalaun eru skýrð með því að meint valdastétt mergsjúgi almenning. Hún styngi rýtningum í bakið á saklausum launþegum.

t.d. hér

En hvernig hyggjast goðsögumenn skýra þá staðreynd að meirihluti Reykvíkinga fer einn í bíl í vinnu?

Hér

og hér

Það þýðir að hjón fara yfirleitt í sín hvorum bílnum, í Ósló fer bara 30% manna í bíl í vinnu  (samkvæmt Aftenposten vor 2014).

Eitthvað hlýtur þessi reykvíska bílamennska kosta. Það getur ekki  þýtt annað en   að Íslendingar búi við mun betri kjör en goðsagnamenn halda, þeir tala eins og menn séu almennt mjög fátækir á Íslandi.

 Einn slíkur sendi mér skilaboð á feisinu og sagði „við (Íslendingar, innskot mitt) erum óskaplega fátæk“.

 Af því að heimiliskötturinn á ekki eigin bíl?

Að gamni slepptu skal játað að margir fóru illa út úr hruninu og eiga við talsverða efnahagserfiðleika að stríða.

Það var nefnilega vitlaust gefið

Eins og áður segir trúðu margir Þjóðverjar  því að þeir hefðu  eiginlega ekki tapað stríðinu.

Íslendingar halda margir að þeir séu  eiginlega fokríkir, sægreifar og orkuþrjótar hafa rænt þá auðnum, stungið þá í bakið.

 Landið sé eiginlega jafn auðugt og Noregur en auðnum hafi verið stolið. Ein sögupersóna í skáldsögu Steinars Braga,   Kötu, er gerð að fulltrúa þessa sjónarmiðs.

Þýska goðsagan um rýtingsstungan  var hrein þvæla, íslenska goðsagan er að miklu leyti ósönn.

Ég hef áður rökstutt að flóknar ástæður séu fyrir lánaruglinu íslenska, það sé að mestu ekki-ætluð afleiðing af fjölda ákvarðana margra einstaklinga. En að græðgi og yfirgangssemi bankamanna hafi gert illt verra.

Hér

Svipað gildir um tímalaun, sú staðreynd að þau eru alltof lág er mestan part ekki-ætluð afleiðing af fjölda ákvarðana og ytri kringumstæðum. En spilltir pólíkusar og gráðugir atvinnurekendur gera illt verra.

Hér

Hafi sægreifar rænt Íslendinga miklum auði þá má spyrja hvers vegna þjóðin var ekki fokrík fyrir daga kvótakerfisins.

Ekki þar fyrir að ég held að margt yrði betra á Fróni ef komið yrði á veiðigjaldi en það er alls ekki öruggt.

Sannleikskjarninn í goðsögunni er sú að of lítið af auðlindarentunni  í sjávarútvegi kemur almenningi til góða.

Hvað um orkuna? Sjálfssagt hafa erlent orkufyrirtæki leikið á Íslendinga og þénað óþarflega mikið á viðskiptum við þá, hið alþjóðlega stórauðvald er ekkert lamb að leika sér við.

En svo lengi sem ekki er til pottþétt tækni til að leggja sæstrengi frá Íslandi og flytja orku út í miklum mæli er ekki hægt að bera vatns- og jarðhitaorkuauðin  saman við norskan olíuauð.

Það er ekkert mál að dæla olíunni upp úr sjónum og í flutningaskip, það er enn sem komið er  erfitt að flytja raforku  frá Íslandi.

Samt tala goðsögumenn eins og spilltir stjórnmálamenn hafi komið í veg fyrir að orkan nýttist almenning með sama hætti og olían norska.

hér

 Spurt er: Komu spilltir stjórnmálamenn í Noregi í veg fyrir að olían nýttist Norðmönnum áður sú tækni varð til sem gerði mönnum kleyft að dæla henni upp af sjávarbotni?

Vissulega er mikilvægt að muna að Ísland býður upp á marga möguleika sem nýtast gætu þjóðinni þegar fram í sækir.

 En þá verða menn líka að kjósa sér skárri ríkisstjórnir en þá sem nú situr.

Valdastétt ?

 Stór hluti goðsagnamanna „veit“ að  Gyði…ég meina valdastéttin, stendur að baki ósómanum og kúgar og arðrænir saklausa alþýðu.

En sé til ein valdastétt, sem sitji yfir hlut manna, þá hlýtur hún að vera sérlega ódrjúg við arðrán.

Því eins og ég hef margklifað á þá sýna staðtölur að tekjudreifing á Íslandi er með þeim jöfnustu meðal OECD landa.

Auðs- og eignadreifing er litlu ójafnari en í meintum jafnaðarparadísum á borð Svíþjóð og Danmörku (kannski að IKEA arðræni Svíagreyin).

En hafa ber í huga að auðs- og eignadreifing á Norðurlöndum er frekar ójöfn, Finnland er undantekningin sem sannar regluna.

t.d.  hér

Nýlega frömdu hagfræðingar við Vínarháskóla rannsókn á  félagslegum hreyfanleika milli kynslóða í ESB-ríkjum og tengdum löndum.

 Þær sýna að Ísland er meðal þeirra Evrópuríkja þar sem auðveldast er fyrir fólk að gera það betur efnahagslega en foreldrar þeirra.

En þó er hreyfanleikinn aðeins minni en á hinum Norðurlöndunum, svipaður og í Hollandi en meiri en í sextán öðrum Evrópuríkjum sem við sögu komu.

Hér

Væri raunveruleg valdastétt til á Íslandi þá myndi hreyfanleiki milli kynslóða  vera lítill.

Af ofansögðu má ráða að eitthvað mikið er bogið við söguna um valdastétt, hún er réttnefnd „goðsögn“.

Fjöl-kjarn-ræði

Í flestum samfélögum er munur á Jóni og séra Jóni, sumir sitja ansi miklu nærri  kjötkötlum valdsins en aðrir. Vestræn nútímasamfélög eru engar undantekningar.

 En yfirleitt er ekki líklegt að þeim sé stjórnað af einni valdastétt heldur sennilegra að margir valdamiklir hópar kljáist  um völdin. Auk þess hefur  alþýða manna umtalsverð áhrif.

Hin meinta jafnaðarparadís, Noregur, sker sig hreint ekki úr.

Á  árunum 1945-1970 byggðu norskir kratar upp hrikalegt valdakerfi, verkalýðshreyfingin var hluti af flokknum, samvinnuhreyfingin var krata-apparat, embættiskerfið gegnsýrt af flokknum, ríkisútvarpinu ávallt stjórnað af flokksmönnum, Statoil líka o.s.frv.

Fræðimaðurinn  Jens Arup Seip hélt því fram að landið hafi verið einsflokksríki, kratastjórnin hafi nánast hunsað stórþingið.

Hér

En kratar voru ekki alvaldir, skipsreiðararnir voru líka mjög valdamiklir. Þeir fengu skattfríðindi í stórum stíl enda höfðu þeir hreðjartak á efnahagnum. 

Af þessu má sjá að  Noregur er/var fjöl-kjarnræðis-samfélag (e. multi elite society) eins og önnur Vesturlönd.

Kratabrodda-kjarninn og skipsreiðara-kjarninn áttust við, þeir eru enn mjög valdamiklir. Við hefur bæst olíuelíta og vinstrirétthugsendur sem ráða miklu í fjölmiðlun, bókaútgáfu, menntakerfinu og þróunaraðstoðar-apparatinu.

Ísland er líka fjöl-kjarnræðis-samfélag, verkalýðsbroddar berjast við atvinnurekendur, Baugsmenn háðu einvígi við Davíðsliða, Albertsmenn við gamla auðvaldið, SÍS-auðvaldið við íhaldsauðvaldið.

Vinstri-elítur voru og eru enn áhrifamiklar í menningarlífinu o.s.frv.. Og almenningur hefur töluverð áhrif, átti m.a. þátt að gera núverandi ríkisstjórn mögulega, illu heilli.

En íslensku valdakjarnarnir eru tvímælalaust rotnari en þeir norsku.

Og á þessari öld hafa verið blikur á lofti, máttur auðsins hefur aukist, sérstaklega á útrásartímanum.     

Haldi Íslendingar áfram að kjósa yfir sig ríkra-ríkisstjórnir þá er voðinn vís, þá gæti orðið til raunveruleg valdastétt á Íslandi.

Hefðu norskir kjósendur haldið áfram að veita Verkamannaflokknum meirihlutafylgi eftir 1965  þá gætu kratarnir norsku hafa orðið hreinræktuð valdastétt.

Ekki marxistar, heldur…

Það vekur athygli mína að goðsögusmiðirnir virðast hvorki vera marxistar né sósíalistar af öðru þótt þeir tali um valdastétt og arðrán.

Þeir eru hvorki á móti markaðskerfi né einkaeign heldur eru þeir á móti ákveðinni gerð einkaframtaks, t.d. sægreifa og orkukapítalista.

Kannski minna þeir meir á hægriróttæklinga  í Þýskalandi eftir fyrra stríð. Menn  sem voru út af fyrir sig ekki á móti markaðskerfi og einkaeign heldur á móti ákveðinni tegund af einkaframtaki, einkaframtaki Gyðinga.

 Leiðtogi þeirra hét Adolf Hitler.

En gott og vel, það er nokkuð langt gengið að kenna goðsagnamennina íslensku við nasisma. Aðalmálið er að þeir  leika sér að eldi.

Lokaorð

Þýska goðsögnin um rýtingsstunguna var hrein þvæla, hættuleg vitleysa. Sú íslenska er ekki eins fáránleg, samt er hún vafasöm.

Væri þjóðin stórlega arðrænd þá væri hún vart  svona bílvædd.

Væri ein stétt við völd þá væri tekjum mun ójafnar skipt og félagslegur hreyfanleiki miklu minni.

Sannleikskjarninn er sá að haldi áfram sem horfi gæti orðið til hreinræktuð, arðrænandi, valdastétt.

Hvað sem því líður þá  hlýtur að vera hægt að andæfa kvótakerfi og ríkra-ríkisstjórn án þess að taka heilann úr sambandi, reka upp skaðræðisvein og taka trú á langsóttar samsæriskenningar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni