Gamalt og vont? Er allt sem er gamaldags af hinu illa?
Brögð eru að því að íslenskir álitsgjafar afgreiði skoðanir sem þeir eru ósammála með þeim orðum að þær séu gamaldags. Til dæmis hefur Katrínu Jakobsdóttur verið legið á hálsi að hafa gamaldags og forneskjulegar skoðanir. En þetta er næsti bær við ad hominem-rök, í stað þess að rökstyðja í hverju gallarnir við málflutning Katrínar séu fólgnir er hann stimplaður fornlegur. Og það án þess að rökstutt sé að það sé vont að vera gamaldags. Verður skoðun sjálfkrafa ósönn eða óréttmæt við það að vera gamaldags? Eða verður ekki að færa fram rök fyrir því að skoðunin sé ekki sannleikanum samkvæm?
Engar línulegar framfarir!
Á bak við gamaldagstuðið má greina hugmyndina um línulegar framfarir. Því eldri sem skoðun er því fjarri sé hún sannleikanum. Skoðanir og kenningar verði æ betri með degi hverjum, nálgist sannleikann hægt og bítandi. En svo einföld er saga hugmyndanna ekki. Fyrir margt löngu setti Isaac Newton fram þá kenningu að ljósið væri eindafyrirbæri, samanstæði af örsmáum eindum. Hollenski eðlisfræðingurinn Christiaan Huygens var annarrar hyggju, hann taldi ljósið vera bylgjufyrirbæri. Ljósið hreyfðist eins og bylgjur í vatni. Í byrjun nítjándu aldar var gerð úrslitatilraun (e. crucial experiments) til að kveða á um hvor væri rétt. Og bylgjukenningin varð ofan á. Hefðu eðlisfræðingar nítjándu aldarinnar hugsað eins og íslenskir álitsgjafar hefðu þeir sjálfssagt klínt stimplinum „gamaldags“ á eindakenninguna. Talið hana ókúl og gagnstæða hinni ginnhelgu tísku. En viti menn! Í byrjun tuttugustu aldarinnar endurbætti Albert Einstein eindakenninguna og varð hún gjaldgeng á ný. Svo runnu þessar tvær kenningar saman, mér skilst að eðlisfræðingar nútímans telji ljósið vera frá einu sjónarhorni bylgjufyrirbæri, frá öðru eindafyrirbæri.
Framfarir og fræðin um manninn
Tökum dæmi um fræði sem varða manninn. Kenningar Sigmundar Freuds hafa verið vægast sagt umdeildar og hafa ýmsar fræðimenn talið þær óvísindalegar, Freud væri frauð. Karl Popper taldi þær óafsannalegar. Andskoti hans, Adolf Grünbaum, andmælti því og sagði að þær væru afsannanlegar en það vantaði haldbærar sannanir. Væri þá ekki gráupplagt að afgreiða hinar freudísku kenningar sem forneskjulegar? En svo gerðist allt í einu í byrjun aldarinnar að suðurafríski vísindamaðurinn Mark Solms kvaddi sér hljóðs og boðaði taugafreudisma. Nýjar rannsóknir í taugavísindum staðfesta kenningar Freuds, það má meira að segja finna undirvitundinni stað í heilanum, segir Solms. Um sannleiksgildi þessa skal ekki dæmt en dæmið notað til að klekkja á gamaldagstuðurum.
Saga pólitískra hugmynda er engu lakara tæki til þess arna. Um það leyti sem ég fékk fyrst áhuga á stjórnmálum, fyrir rúmum fimmtíu árum, voru flestir sammála um að marxismi og frjálshyggja væru fyrir bí, velferðaríkið og hagstjórn í anda Keynes hefðu leyst vandann sem þessi hugmyndakerfi voru að kljást við. Sjálfsagt hafa menn afskrifað frjálshyggju og marxisma sem gamaldags og lummó. En allt í einu kom Marx aftur með látum, marxísk bylgja reis um 1968 og hneig fljótlega aftur. Þá reis frjálshyggjan úr öskustónni og reið röftum til u.þ.b. 2008. Á hinu nýja blómaskeiði hennar voru jafnaðarhyggja og velferðarríki afgreidd sem forneskjuleg og halló. En á síðustu árum hefur ný velferðartrú og jafnaðarhyggja rutt sér til rúms á ný í hugmyndafræðilegri umræðu, þrátt fyrir bágt gengi krataflokka í kosningum. Stjörnur dagsins eru menn eins Thomas Piketty og Paul Krugman sem gagnrýna aukinn ójöfnuð og verja velferðaríkið.
Landbúnaðarstyrkir gamaldags?
Ekki skal dæmt um ágæti þeirrar gagnrýni hér (það hef ég gert í öðru samhengi, tekið undir margt af því sem þeir segja!). Í stað þess vil ég nota þetta dæmi um skort á beinum og milliliðalausum framförum á sviði stjórnspeki til að vara við barnalegum hugmyndum um framfarir, vara við framfara-gjammi. Enn eitt dæmið um gamaldagstuð er hjalið um að ríkisstuðningur við landbúnað sé gamaldags. Staðreyndin er sú að vestræn ríki tóku ekki að styðja landbúnað fyrr en á síðustu öld. Því má segja að ríkisstuðningur við landbúnað sé nútímalegur, gagnstæða stefnan gamaldags og ókúl. En mér er slétt sama, ég tel að draga beri úr slíkum stuðningi m.a. vegna þess að hann stuðlar ekki að lægra landbúnaðarvöruverði og kemur fremur milliliðum en bændum til góða. Hvað þetta varðar erum við Katrín á öndverðum meiði. Það sem máli skiptir er hvor skoðunin sé nærri sannleika og siðferðilegu réttmæti, ekki hvort hún er forn eða ný.
Lokaorð
Gamaldagstuðið á sér rætur í tískuhyggju íslendinga, ótta þeirra við að tolla ekki í tískunni. En ég afgreiði ekki gamaldagstuðið með því klína stimplinum "tískuhyggja" á það, heldur með þeim rökum sem sett hafa verið fram í þessum pistli.
Athugasemdir