Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Frelsið, nefið og veiran

Hefur ríkið siðferðilegan rétt til að takmarka frelsi borgaranna til að koma í veg fyrir drepsóttir? Einhver kann að segja að   mikil hætta sé   á að óprúttnir stjórnmálamenn noti slíkar takmarkanir sem stökkpall til að gera ríkið almáttugt og kála frelsinu. 

Eða er slík takmörkun nauðsynleg til að hindra þá frelsissviptingu sem drepsóttin getur valdið? Hugsum okkur að   hlutverk ríkisins sé  m.a. það að vernda líf manna og að við lítum á frelsi til að lifa sem æðst frelsisgæða, þá  er  rétt að takmarka annað frelsi, t.d. ferðafrelsi, til að vernda „líffrelsið“.  

Velferð og frelsi

Sé svo þá er opinber heilsugæsla að öllu jöfnu réttlætanleg, hlutverk hennar er m.a. að vernda líf manna og vernda þá gegn þeirri frelsissviptingu sem alvarlegir sjúkdómar eru. Sé rétt að ríkið eigi að vernda borgaranna gegn innrásum þá má fullt eins segja að það eigi að vernda þá gegn innrás sýkla og veira.

Af þessu má draga þá ályktun að velferðarríkið hafi ekki frelsissviptingu í för með sér, gagnstætt því sem frjálshyggjumenn telja. Eða að minnsta kosti ekki eins mikla og þeir halda.

En við skulum ekki ræða þau mál frekar hér, ég varði þá skoðun að velferðaríkið væri ekki frelsinu skeinuhætt í bók minni Kredda í kreppu og vísa til hennar.

Oft er sagt að frelsi megi aðeins takmarka til að vernda frelsi, t.d. verði að takmarka frelsi manna til að taka völdin með vopn í hönd þar eð slíkt og þvílíkt muni ganga að frelsinu dauðu.

Vandinn er sá að frelsismat er gildismat. Ekki er hægt að réttlæta frelsissviptingu til að koma í veg fyrir drepsótt nema menn telji líffrelsi mikilvægara en ferðafrelsi.

Charles Taylor

 Kanadíski  heimspekingurinn Charles Taylor leggur ríka áherslu á þátt gildismats í frelsispælingum. Rangt sé að líta á frelsi eingöngu sem frelsi frá ytri tálmunum eins og frjálshyggjumenn haldi. Í reynd sé til óendanlegur fjöldi slíkra tálmana.

Sú staðreynd að lítið er um umferðartakmarkanir í Norður-Kóreu (vegna bílfæðar) kann að þýða að færri athafnir séu hindraðar þar en á Vesturlöndum. En vestrænir menn telji  tjáningarfrelsi og annað slíkt mikilvægara en frelsi til að ganga óhindrað yfir götur, þess vegna telji þeir Vesturlönd frjálsari en Norður-Kóreu. Og hafi  góða og gilda ástæðu til þess, segir Taylor, þeirra gildismat sé  ágætlega ígrundað.

Kannski er rétt að meta frelsi manna frá drepsóttum meir en ferðafrelsi.

Taylor segir að frelsi sé ekki bara ytra frelsi frá tálmunum  heldur líka innra frelsi, þ.e. sálrænt frelsi. Óskynsamleg hræðsla getur til dæmis komið i veg fyrir að við förum inn á þá starfsbraut sem við helst vildum fara.

Athugið að hafi Taylor á réttu að standa þá er ekki sérlega frjótt að telja frelsi  nokkuð  sem takmarkist við nefbrodd manna. Frelsi sé ekki síst að finna á bak við nefið, í huganum. Það  sé matsatriði hvað teljist mikilsvert eða einskisvert frelsi.

Philip Pettit

 Annar snjall heimspekingur, Írinn Philip Pettit, segir að frelsi sé ekki bara frelsi frá óumbeðnum afskiptum, gagnstætt boðskap frjálshyggjunnar.  Hann talar um “frelsi sem forræðisleysu” (e. liberty as non-domination).

Menn geti lifað lífi sínu óáreittir (án óumbeðna afskipta)  en samt verið upp á náð annarra manna komnir. Þeir síðastnefndu gætu hafa látið geðþótta sinn ráða er þeir afréðu að láta mennina í friði.  En þessir menn séu ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði. Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað.

Þetta þýðir m.a. að menn geti ekki verið frjálsir í einræðisríki. Þótt einræðisherrann leyfi þegnum sínum allra náðarsamlegast að valsa frjálsir um þá lúta þeir eftir sem áður forræði hans. Gagnstætt þessu hafa frjálshyggjumenn sagt að sá möguleiki sé fyrir hendi að menn séu frjálsari í einræðis- en í lýðræðisríki.

 Að raða (e. rank)

„Hún Ranka var rausnarkerling…“ ég hef  sagt í fyrri færslu að oft sé  skynsamlegra  að raða  stjórnmálaskoðunum en að trúa þeim.  Ég nefndi að heimspekingurinn Robert Nozick hefði talið rétt að raða heimspekiskoðunum fremur en að trúa þeim.

Enda hefðu heimspekingar átt í mesta basli með að ráða gátur sínar, höndla heimspekilegan sannleika. Vel athugað hjá Nozick, ég kýs að raða kenningum um frelsi fremur en trúa einhverri þeirra.

Ég raða gildismatskenningu Taylors mjög hátt en er ögn efins um ágæti kenninga hans um innra frelsi (Kristján Kristjánsson hefur gagnrýnt hana af all mikilli hind enda raða ég hans frelsiskenningum æði hátt).

Pettit er mér meira að skapi, ég raða hans kenningum ögn hærra. Frelsiskenningum frjálshyggjunnar raða ég bara miðlungi hátt.

Lokaorð

 Við höfum séð að engin goðgá er í því að takmarka frelsi manna á mörgum sviðum til að vernda þá gegn frelsissviptingu drepsóttarinnar. En allur er varinn góður, koma verður í veg fyrir að frelsisvipting kórónatímans festist í sessi.

Alltént er varla nein  frelsissvipting af opinberri heilsugæslu, a.m.k. að  því gefnu að menn meti frelsi frá drepsóttum og öðru slíku meira en ýmislegt annað.

Taylor hefur lög að mæla er hann segir hugtökin um frelsi og gildismat samofin. Kenning Pettits um frelsi sem forræðuleysa er verulega slagferðug.

Nefkenningin  um frelsi er ekki ýkja góð og skal skipað lágt.

Helstu heimildir:

Philipp Pettit (1997): Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.

Charles Taylor (1996a): "What is Wrong With Negative Liberty?", Philosophical Papers 2. Cambridge: Cambridge University Press, Bls. 211-229.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu