Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Freki karlinn sigrar

Í skáldsögu Jóns Kalmans, Eittvað á stærð við alheiminn, segir ein

sögupersóna að Íslendingar hafi alltaf litið upp til frekjuhunda og ranglega talið ósvífni merki um styrk. Enda sigrar freki karlinn einatt í kosningum, Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar voru yfirleitt sigursælir. Sigmundur Davíð vann frægan sigur árið 2013.

Þegar Bjarni Ben var prúður súkkulaðidrengur gekk honum ekki vel í kosningum. Nú kemur hann fyrir sem frekur karl með þóttasvip og það svínvirkaði í kosningunum. Sjálfsstæðisflokkurinn hefur líklega tapað einhverju fylgi til Viðreisnar en unnið þess meir frá Framsókn og jafnvel fengið slatta af nýjum kjósendum. En það er huggun harmi gegn að Sjálfsstæðisflokkurinn nær ekki 30% fylgi, á árum áður var hann yfirleitt með 35-42% kjósenda á bak við sig. Ekki má gleyma því að ríkra-ríkisstjórnin er fallin, góðu heilli.

Mesta gleðiefni kosninganna er afhroð Framsóknar en sá flokkur hefur því miður níu líf, kemur sjálfsagt aftur. Píratar fá slöttungsfylgi, gott að þessi sérstæða hreyfing verði afl á þingi (en ekki of mikið afl).  Viðreisn er svo lítið spurningarmerki í mínum huga, margt gott í stefnu flokksins en of margir  gamlir  peningasjallar  í forystusveitinni. Björt framtíð á framtíð fyrir sér og er ekkert nema gott um það að segja. Góður árangur VG  er ánægjulegur þótt viss framsóknar- og jafnvel fornkommafýla sé af sumum vinstrigræningjum. Það er Íslendingum til mikils sóma að meira eða minna rasísk framboð fá bókstaflega ekkert fylgi.

En afhroð Samfylkingarinnar er mér þyngra en tárum taki, Ísland þarf sterkan jafnaðarmannaflokk. Og ömurlegt að hugsa til þess að kosningabandalagið hafi ekki átt glætu í meirihluta.

Nú mun freki karlinn mynda stjórn, eina ferðina enn.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni