Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Fátækt þjóðanna. Nýlendustefnan, Indland og þriðji heimurinn

Fyrir rúmum  aldarþriðjungi deildu nokkrir vinstrimenn við Hannes Gissurarson um nýlendustefnu Vesturlanda. Hannes neitaði því alfarið að nýlendustefnan hafi valdið örbirgð í nýlendunum. „Hverju reiddust goðin?“ sagði hann og bætti við að þessi lönd hafi verið örfátæk fyrir daga nýlendustefnunnar og ekki orðið fátækari hennar vegna. 

Handhöggvnir Kongóbúar og kúgaðir Indverjar

Hannes hefði kannski átt að segja Kongóbúum þetta, Adam Hochschild hélt því fram í frægri bók að harðstjórn Leópolds konungs í belgísku Kongó hafi kostað allt að  tíu milljónir manna lífið. Konungur hafi látið stjórnast af græðgi einni saman og gert stóran hluta íbúanna að þrælum sem möluðu honum gull. Þeir sem ekki stóðu sig í stykkinu áttu á hættu að vera húðstrýktir,  handhöggnir eða myrtir (margir þekkja ljósmyndir af handhöggnum Kongóbúum). Samanlagt hafi konungur grætt á Kongónýlendunni a.m.k. 1.1. milljarð Bandaríkjadala  á núvirði (Hochschild 1999).  

Þorvaldur Gylfason gerði ástandið á Indlandi að umtalsefni nýlega í forvitnilegum pistli. Hann  hélt því fram að bresk nýlendukúgun hefði verið Indverjum mjög skaðvænleg. Máli sínu til stuðnings  vitnaði hann í   indverska stjórnmálamanninn  Shashi Tharoor  máli sínu til stuðnings. Tharoor segir í bók sinni Inglorious Empire  að Indland hafi verið eitt ríkasta land í heimi um  árið 1600:

„In 1600…Britain was producing just 1.8 per cent of the world‘s GDP, while India was generating 23 per cent“ (Tharoor 2017: 218).

Landið hafi verið í fremstu röð þeirra ríkja sem voru að stíga sín fyrstu spor í átt til iðnvæðingar. Útflutningsvörur Indverja hafi verið eftirsóttar víða um heim, m.a. vefnaðarvörur, stál, og skip sem gerð voru úr traustari við en þau bresku. En þá kom þjófur í paradís, breska Austur-Indíufélagið sem rústað hafi landið.  Fjölmargir breskir framámenn hafi verið hluthafar í því og hafi því haft beinan hag af ósvinnunni.  Bretar hafi ekki látið sér nægja að brjóta indverska vefstóla heldur jafnvel fingurbrotið vefara líka. Tharoor segir reyndar að ekki sé víst hvort fingurbrotsagan sé sönn en Þorvaldur talar eins og það sé dagsatt (Tharoor 2017: 6).

 Hvað um það, Tharoor segir að  í ofan á lag hafi Bretar  lagt manndrápstolla á útflutning indversks vefnaðar. Með því móti hafi þeir ýtt undir rassinn á breska vefnaðariðnaðnum sem með þessu losnaði við keppinaut. Þegar Bretar lögðu Indland undir sig þá hafi hlutdeild Indverja í heimsútflutningi iðnvarnings verið 27%, þegar þeir yfirgáfu landið 200 árum síðar hafi hlutdeildin verið komin niður í 3%. Um 1750 hafi lífskjör á Indlandi verið svipuð og í Bretlandi, eftir 200 ára breska nýlendustjórn hafi indverskar meðaltekjur aðeins verið tíundi hluti breskra meðaltekna (Tharoor 2017: 221).

Enda hafi  Bretland  iðnvæðst fyrir indverskt fé og í krafti þess að Bretar rústuðu indverskan iðnað. Eins og þetta væri ekki nóg hafi þeir skattpínt Indverja og stolið  öllu steini léttara. Þýfið hafi nýst nýríkum Bretum til að kaupa jarðir og hallir í Bretlandi. Einhver kann að spyrja hvort Bretar hafi gert innfæddum gagn með því að leggja járnbrautir um landið. Nei, segir Tharoor, lestirnar voru aðallega  notaðar til að flytja ránsfenginn til hafna svo sigla mætti með hann til Bretlands. Og flytja vinnuafl þangað sem það nýttist nýlenduherrunum best.

Hinn þekkti fræðimaður Steven Pinker telur að Bretar  beri beina eða óbeina ábyrgð á hungurdauða sautján milljóna Indverja á nítjándu öldinni. Hungurdauða sem hindra hefði mátt ef nýlendustjórnin breska hefði staðið sig í stykkinu (samkvæmt Pinker (2012): 235).

Tharoor tekur í sama streng og bætir við að samanlagt hafi 30-35 milljóna Indverja fallið úr hor á nýlendutímanum. Ein ástæða þess hafi verið skattpíning bænda.  Önnur ástæða hafi verið ofurtrú á markaðsfrelsi, Bretar hafi lítið gert til að bjarga fórnarlömbum hungursneyða frá dauða. Þeir hafi talið að slíkt myndi skekkja hinn ginnhelga markað.     

Nefna má að hið sama var upp á teningum í írsku hungursneyðinni um miðbik nítjandu aldar, eins og Tharoor reyndar nefnir.  Ýmsir breskir frjálshyggjumenn  börðust gegn því að veita sveltandi Írum aðstoð á sömu forsendu, það ylli markaðsskekkjun. Muna menn þegar hinir ábúðarmiklu á Íslandi töluðu digurbarkalega um hætturnar af því að skekkja hinn goðumlíka markað?

Það fylgir sögunni að John Kenneth Galbraith sagði  að frjálshyggjumenn hafi andæft því að hið opinbera gæfi hungruðum Írum mat. Það myndi draga úr gróða einkaaðila og lama viðskipti (Galbrairh (1978): 28-29).

"Kristilega kærleiksblómin spretta, kringum hitt og þetta". 

Niall  Ferguson og félagar

Um þetta deila hinir lærðu.  Sumir fræðimenn segja að Tharoor ofmeti ríkidæmi Indverja fyrir nýlendutímann og mistúlki sumar staðtölur. Hann athugi ekki að minnkandi hlutur Indverja í heimsframleiðslunni sanni ekki  að þeir hefðu verið  arðrændir. Ástæðan væri fremur sú  að vestrænar þjóðir  (ekki síst Bretar) hafi snaraukið sinn hluta í heimsframleiðslunni vegna iðnvæðingar (samkvæmt Nelson 2019).

Alla vega er bókin  ansi áróðurskennd og lýsingin á Indlandi fyrir daga Bretastjórnar orkar á mig eins og þjóðrembuhalejúa. En jafnvel áróðurskenndar bækur geta boðið upp á sannar staðhæfingar.

Bæta má við að breski sagnfræðingurinn  Niall Ferguson dregur upp  allt aðra mynd af nýlendustjórn Breta. Hann segir að fram að 1914 hafi Bretar fjárfest á Indlandi fyrir um 400 milljónir sterlingspunda. Þeir hafi hreint ekki mergsogið Indlandi eins og sjá megi af að verslunarhalli  Indlands við Bretland hafi verið óverulegur, aðeins 1% að jafnaði. Enn fremur hafi þeir áttfaldað áveituland og bætt heilbrigðiskerfið, meðalævi Indverja hafi lengst um ellefu ár á nýlendutímanum.

Í ofan á lag hafi dregið úr ójöfnuði á Indlandi á nýlendutímanum, því til sannindamerkis staðhæfir Ferguson að hlutur þorpanna í efnahagnum hafi aukist frá 45% til 54%. Þrír fjórðu hlutar Indverja bjuggu í slíkum þorpum, aukin hlutdeild þessara meðal-Indverja í efnahagnum hlyti að þýða að hlutur hinna alríkustu hafi minnkað. En hann viðurkennir að hagur Indverja hafi ekki batnað mikið. Verg þjóðarframleiðsla á mann hafi aðeins aukist um 14% um leið og sú breska jókst um 347%  (Ferguson (2003): 216-218). 

Ferguson neitar því ekki að Bretar hafi framið ýmis skammarstrik á Indlandi og í öðrum nýlendum. En hann  telur að þrátt fyrir allt hafi nýlendurnar  þénað á breskri nýlendustjórn þar eð hún hafi stuðlað að hnattvæðingu sem hafi verið öllum í hag.  Karl Marx hefði reyndar skrifað undir það, nýlenduarðrán var að hans hyggju liður í sögulegri þróun sem myndi leiða til framfara þegar til langs tíma liti (sjá t.d. tilvitnun í hann hjá Tharoor 2017: 217-218).  Hægrisinninn  Ferguson og vinstrimaðurinn Marx fallast í faðma! Auk heldur á Ferguson þjóðrembu sammerka með Tharoor, hrifning hans af Bretaveldi og Skotum er illa dulinn.

Samt  vandar Tharoor  ekki Ferguson kveðjurnar og telur hann réttlæta nýlendukúgun með hæpnum rökum. Hver segir að Indland hefði ekki getað alþjóðavæðst án Breta, spyr sá indverski  (Tharoor 2017: 238 og víðar).

Norskir sérfræðingar í sögu Indlands,  Arild Engelsen Ruud, Eldrid Mageli og Pamela Price, segja rangt að Bretland hafi tæmt Indland af verðmætum á nítjándu öldinni. Ekki hafi skort fátækt og eymd austur þar áður en Bretar komu til, ástandið hafi  ekki versnað á nýlendutímanum. Jarðnæðislausum Indverjum hafi ekki fjölgað að ráði á valdaskeiði Breta og þeir hafi ekki gengið að indverskum vefnaði dauðum. Einna helst mætti gagnrýna Breta fyrir að hafa lítið gert til að þróa indverskt efnahagslíf  (Engelsen Ruud, Mageli, og Price (2004): 256).

Hvað er satt, hvað er ósatt?

Undirritaður treystir sér ekki til að dæma um hvorir séu  nærri sannleikanum, Tharoor  eða Ferguson og norsku fræðimennirnir (það má teljast sérkennilegt að jafn lærður maður og Þorvaldur skuli nánast gefa sér að Tharoor hafi á réttu að standa).

  Annað treystir ég mér til að dæma um, þátt vestræns einkaframtaks í nýlendukúgun: Austur-Indíufélagið lagði Indland undir sig án verulegrar aðkomu breska ríkisins.  Breski sagnfræðingurinn  William Dalrymple leggur mikla áherslu á skaðvænleg áhrif Austur-Indíafélagsins sem hafi verið ríki í ríkinu og haft á að skipa risaher. Áður en það fyrirtæki tók að angra Indverja hafi verið risaborgir á Indlandi, miklu fjölmennari en evrópskar borgir. Dalryumple kallar fyrirtækið fyrsta «corporate raider» sem þess utan hafi verið fyrsta fjölþjóðafyrirtækið sem bjargað var með opinberu fé.  Enda hafi margir breskir þingmenn átt hlutafé í fyrirtækinu (Sjá  Dalrymple 2015).

Lokaorð

Þorvaldur bendir réttilega á að Kína hafi staðnað efnahagslega þótti landið yrði aldrei beinlínis nýlenda og sagði að ástæður stöðnunnar hefðu  að verulegu leyti verið heimatilbúnar þóttt uppivöðslusemi Breta hafi gert illt verra.

En það er nánast örugglega rangt að allar nýlendur Vesturlandabúa hafi verið örfátækar fyrir daga nýlendustefnunnar, Kína og Indland voru auðugustu ríki heims langt fram á átjándu öld. Svo má deila um hvers vegna þau stöðnuðu. 

Sagan um samskipti Vesturlanda og þriðja heimsins er flókin og margþætt, og vægast sagt umdeild. Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari segir að samskipti nýlenduvelda og nýlendna hafi verið svo flókin og margslungin að ekkert mál sé að finna sannanir bæði fyrir því að þau hafi verið af hinu illa, eins  sannanir fyrir hinu gagnstæða (Harari (2014): 337).

En athugið að hafi Tharoor og hans líkar á réttu að standa þá veikist fyrir vikið sú kenning frjálshyggjumanna að Vesturlönd hafi iðnvæðst og auðgast fyrir tilstuðlan markaðarins. Séu Ferguson og félagar nærri sannleikanum þá fellur ein af meginstoðum marxismans og vinstriróttækni. 

Er furða þótt  undirritaður sé óforbetranlegur, pólitískur efahyggjumaður?

Heimildir:

 Dalrymple, William (2015): „The East India Company, the Original Corporate Raiders“, The Guardian, 4 mars, https://www.theguardian.com/world/2015/mar/04/east-india-company-original-corporate-raiders    Sótt 10 febrúar 2020.

 Engelsen Ruud, Arild; Mageli, Eldrid;  og  Price, Pamela (2004): Indias historie. Ósló: Cappelen.

Ferguson, Niall (2003): Empire. How Britain Made The Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Galbraith, John Kenneth (1978): Öld óvissunnar (þýðandi Geir Haarde). Reykjavík: Bókaforlagið Saga. 

Harari, Yuval Harari (2014): Sapiens. A Brief History of Human Kind. London: Sapiens.

Hochschild, Adam. 1999. King Leopold’s Ghost. A Story of Greed, Terror and Heroism in Colonial Africa. New York og Boston: A Mariner Book.

Nelson, Ross (2019): Inglorious Empire (ritdómur). Review in History. https://reviews.history.ac.uk/review/2357   Sótt 15/2 2020.

Pinker, Steven (2012): The Better Angels Of Our Nature. Harmondsworth: Penguin.

Tharoor, Shashi   (2017): Inglorious Empire.What the British did to India. Harmondsworth: Penguin.

Þorvaldur Gylfason (2020): „Indland við vegamót“, Stundin. https://stundin.is/grein/10292/indland-vid-vegamot/  Sótt 5/3 2020.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni