FÆÐING ÞJÓÐAR. Andóf gegn rússneskri menningarheimsvaldastefnu
Heimspekingurinn Hegel mun segja einhvers staðar að mælikvarði á það hvort hópur manna teljist þjóð sé hvort hann er tilbúinn til að verja lönd sín vopnum.
Vilji Úkraínumanna til að verja sig gegn innrás Rússa sýnir alla vega að þeir líta á sig sérstaka þjóð, gagnstætt því sem Pútín harðráði heldur. Skoðanakannanir, sem gerðar hafa verið eftir hernám Krímskaga 2014, sýna aukna þjóðerniskennd.
Hafi úkraínska þjóðin ekki verið til fyrir innrásina þá fæddist hún á blóðvöllum hennar. Gagnstætt því sem alvaldurinn vonaði.
Úkraínumenn ganga nú upp í því að af-rússneska landið, kennt skal eingöngu á úkraínsku frá fimmta skólaári. Níutíu prósent af öllu sjónvarpsefni skuli vera á því tungumáli.
Rifnar eru niður styttur af Katrínu miklu og stórskáldinu rússneska Púskín, götur sem áður voru kenndar við rússneska rithöfunda hafa verið endurskírðar (Strøm 2023).
Lögð er áhersla á það hve illa Moskvuvaldið hefur farið með Úkraínumenn og menningu þeirra. Stalín stóð fyrir Holodomor, bændur voru rændir uppskeru og búfénaði með þeim afleiðingum að milljónir sultu í hel.
Úkraínumenn halda því fram að Stalín hafi viljað með þessu útrýma þeim. En þeir athuga ekki að Holodomor bitnaði líka á bændum annars staðar í Sovétríkjunum.
Þessi helstefna var liður í iðnvæðingu Sovétríkjanna, ránsféð var notað til að fjármagna iðnvæðingu enda efnahagskerfið svo misheppnað að það gat ekki stuðlað að iðnvæðingu með öðrum hætti.
Ekki þar fyrir að Stalín stuðlaði að rússavæðingu Úkraínu en úkraínsk menning átti sér blómaskeið á fyrstu árunum eftir byltingu.
Hún var nánast bönnuð á dögum Stalíns, 300 af helstu skáldum og menntamönnum landsins voru skotnir af ódrengjum alræðisherrans.
Kannski var Holodomor að einhverju leyti liður í tilraunum hans til að sverfa að úkraínskri menningu.
Lunde um rússneska menningarheimsvaldastefnu
Spurningin er hvort Úkraínumenn fara offari í baráttunni gegn rússneskum áhrifum. Alla vega ber þeim að viðurkenna að stór hluti þjóðarinnar er rússneskumælandi, nokkuð sem ekki gerir þá að Rússum.
Írar tala flestir ensku en engum dettur í hug að kalla þá Englendinga. Zelenskí forseti hefur sem kunnugt er rússnesku að móðurmáli.
En norskur prófessor í rússnesku, Ingunn Lunde að nafni, ver úkraínskt andóf gegn rússneskum bókmenntum með athyglisverðum rökum (Lunde 2023).
Menning hafi löngum verið tæki sem rússneska heimsveldið hafi notað til að efla vald sitt. Þegar á átjándu öld höfðu Rússakeisarar hirðskáld sem lofuðu þá.
Og gagnstætt sem margir halda hafi hinir miklu rithöfundar nítjándu aldarinnar verið fremur valdsins megin en hitt. Þjóðskáldið Alexander Púskín hafi vissulega oft verið gagnrýninn á samfélagið, jafnvel á keisarann, og þurft að berjast við ritskoðunina.
En hann hafi ekki gagnrýnt hið rússneska heimsveldi, hann hafi staðhæft að Rússar hafi fært íbúum Kákasusfjalla siðmenningu þegar þeir lögðu þau undir sig (ég spyr: Í líki bændaánauðar?).
Lunde bætir við að í kvæði um orrustuna við Poltava lofi Púskin heimsveldið og fordæmi úkraínska kósakkahöfðingjann Ivan Mazepa sem barðist með Svíum gegn Pétri mikla, Rússajöfri.
Til að gera illt verra hafi Púskín ort kvæði þar sem hann verji það hvernig Rússaher braut á bak aftur uppreisn Pólverja árið 1831 en þeir voru kúgaðir af Moskvuvaldinu. Moskvumenn bönnuðu pólska tungu.
Hvað um Dostójevskí? Sat hann ekki í fangabúðum vegna andófsstarfsemi? Vissulega, svarar Lunde, en hann breytti um skoðun, tók að aðhyllast trúar-mýstík og rússneska þjóðrembu.
Lunde segir að ekki sé óalgengt meðal rússneskra menntamanna að þeir berjist fyrir auknu einstaklingsfrelsi en verji um leið heimsveldið rússneska.
Gott dæmi sé nóbelshafinn Josef Brodskí sem lenti illa í Sovétvaldinu og fluttist til Bandaríkjanna.
Hann hafi ort níðkvæði um Úkraínu þegar landið öðlaðist sjálfsstæði.
Eftir að hafa hellt svívirðingum yfir Úkraínumenn hafi hann lokið kvæðinu á að segja að á dauðastund muni Úkraínumaðurinn vitna í Púskín, ekki í „lygar“ Taras Sévstenkó, þjóðskálds Úkraínumanna.
Pútín hefði ekki getað gert betur.
Lunde segir að ekki megi gleyma því að Rússaher stundi menningarstríð á hernumdu svæðunum. Úkraínskum bókum sé hent út úr bókasöfnum, ég bæti við: Samanber bókabrennur nasista. Einungis sé kennt á rússnesku í skólum, söfn eyðilögð og menningarverðmætum stolið.
Í Maríupol, sem rússnesku yfirgangsseggirnir eyðilögðu, sé komið fyrir stórum skiltum með myndum af rússneskum rithöfundum. Þeir séu tæki heimsveldisins.
Lunde gefur í skyn að úkraínskuvæðing Kænugarðsstjórnar sé skiljanlegt viðbragð við rússneskri menningarheimsvaldastefnu.
Lokaorð
Ég er ekki dómbær á það sem Lunde hefur til málanna að leggja um rússnesk skáld og meinta undirlægjusemi þeirra við Moskvu-heimsveldið.
En hitt veit ég að Rússar hafa löngum reynt að Rússavæða Úkraínumenn og einatt beitt valdi til þess arna.
Þeir síðarnefndu ganga kannski of langt í baráttu sinni gegn Rússavæðingunni en barátta þeirra er skiljanleg í ljósi menningarglæpanna sem Rússar fremja á hernumdu svæðunum.
Napóleon ætlaði sér að ríkja yfir Evrópu en afleiðingin af brölti hans var að þjóðernisstefnu og frjálslyndi óx hvarvetna fiskur um hrygg. Með orðum Hegels þá var hann tæki hins bragðvísa heimsanda.
Þótt Napóleon væri yfirgangssamur átókrat þá má hann eiga að hann efldi réttarríkið, stuðlaði að frelsun Gyðinga og gaf ánauðugum rússneskum bændum frelsi hvarvetna þar sem stórher hans fór um rússneska grund.
Hefði hann sigrað keisarann rússneska væri kannski enginn Pútín í Kreml. Sá hefur rústað réttaríkið, barist gegn frjálslyndi og ætlað sér að leggja Úkraínu undir sig.
Hann uppskar annað, fæðingu hinnar úkraínsku þjóðar.
Heimildir:
Kvæði Brodskís um Úkraínu
https://en.wikipedia.org/wiki/On_the_Independence_of_Ukraine Sótt 8/1 2023
Lunde, Ingunn 2023: „Imperiets diktere“, Morgenbladet, Nr. 1, 6-12 janúar.
Strøm, Ole Kristian 2023: „Slik bryter Ukraina med Russland“, Slik bryter Ukraina med Russland (msn.com) Sótt 8/1 2023.
Athugasemdir