Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Erna Ýr um frelsi og jöfnuð

Ég ætlaði að svara Ernu Ýr fyrir löngu en gleymdi því. Hér kemur svar mitt:

Erna Ýr Öldudóttir þeysir inn á ritvöllinn og fordæmir jafnaðarstefnu í greininni Helstefna jöfnuðar. Hún finnur jafnaðarstefnu það meðal annars til foráttu að jafnaðarmenn eigi erfitt með útskýra hvað átt sé við með jöfnuði. Erfitt sé að fá þá til að nefna „einhverjar mælanlegar, endanlegar stærðir“.

Hálar staðtölur

Spyrja má hvaða stærðir séu endanlegar, staðtölur eru hálar sem álar og túlkunum undirorpnar. Tökum dæmi sem ættað er frá nóbelshagfræðingnum Paul Krugman: Slatti af slöttólfum með tekjum undir meðallagi sitja á bar. Allt í einu birtist Billy Gates á staðnum og pantar einn tvölfalfdan. Fyrir vikið hækka meðaltekjur viðstaddra all hrikalega, nú er þetta allt í einu orðin hátekjubar. Ljóst má þykja að hér verður að beita öðrum stöðlum fyrir meðaltal en einföldu meðaltali, t.d. miðlínu, þ.e. þeim einstaklingi innan hópsins sem er nákvæmlega í miðjunni hvað tekjur varðar. Séu þrjátíu manns á barnum yrði meðaltekjur skilgreindar sem tekjur þess einstaklings sem er fimmtándi tekjuhæsti. En einnig má nota aðra mælikvarða á meðaltekjur, túlkun ræður. Því er vafasamt að tala um endanlegar stærðir ef um staðtölur er að ræða. Það þýðir ekki að staðtökur séu öldungis huglægar, það er hægt að greina á milli tækra staðtalna og staðtalna sem eru hrein della. En illmögulegt er að finna þær hinar einu, sönnu staðtölur. Erna Ýr virðist gefa sér að slíkar tölur séu til, hún segir sigri hrósandi að staðtölur sýni að hvergi sé tekjum jafnar skipt en á Íslandi. En ýmislegt (t.d. Panamaskjölin) benda til þess að íslenskir ríkisbubbar stingi meira undan skatti en stéttsystkini þeirra í nágrannalöndunum. Sé svo má vera að þessar staðtölur um meintan jöfnuð á Fróni séu villandi. Það vekur athygli mína að Erna Ýr nefnir ekki staðtölur um eignadreifingu á Íslandi. Tölur sem ég hef séð sýna að eignadreifing sé ójafnari á Íslandi en í öðrum vestrænum ríkjum að Sviss og Bandaríkjunum undanskildum (auðvitað gætu þessar tölur verið rangar!). Ætla má að því ójafnari sem eignadreifing er, því valdameiri séu auðmenn og stórfyrirtæki, nóta bene að öllu jöfnu.

Um frelsisins aðskiljanlegustu náttúrur

Ernu Ýr er tíðrætt um frelsi í greininni, hún vill greinilega sem mest af því sem hún kallar „frelsi“. En frelsi er hvorki mælanleg né endanleg stærð. Samt talar Erna Ýr eins og pólitísk markmið sem einhver veigur er í verði að hafa mælanlega hlið. Sé svo þá er hún í mótsögn við sig sjálfa, boðar frelsi en frelsi er ekki mælanlegt. Til að gera illt verra skilgreinir hún alls ekki hugtakið um frelsi og er því frelsis-markmið hennar ekki ýkja ljóst. Hún gagnrýnir aðra fyrir að hafa óljós markmið en gerir sig seka um sömu meintu villu. Lítum á skilgreiningar á frelsishugtakinu: Breski heimspekingurinn Isaiah Berlin greindi á milli þess sem hann kallaði „neikvætt frelsi“ og „jálvætt frelsi“. Hið síðastnefnda kallast líka “getufrelsi”, menn njóta getufrelsis svo fremi þeir hafi mátt til framkvæmda, séu sjálfráðir. Jafnaðarmenn hafa jafnan hampað þessari gerð frelsis. “Neikvætt frelsi” sé einfaldlega “það að vera laus við óumbeðin afskipti annarra”, frelsi er ekkert annað en fjarvera þvingana, frelsi frá einhverju. Við séum frjáls þá og því aðeins að aðrir hindri okkur ekki í að gera það sem okkur sýnist, svo fremi við skerðum ekki frelsi annarra. Frelsi er fólgið í því að fá að vera í friði, vilji menn það á annað borð, því meira svigrúm sem einstaklingurinn hefur því frjálsari er hann (Berlin 1994: 157-168). Við getum verið frjáls þótt við eigum engra kosta völ, þótt okkur sé máttar vant. Enginn segði að fjallgöngumaður sem kominn er í ófærur og á engra kosta völ sé ófrjáls nema hann hafi lent í ógöngunum vegna ofríkis annarra manna, segir frjálshyggjupáfinn Friedrich A. Hayek (Hayek 1960: 12-13). Frjálshyggjumenn eru flestir hverjir fylgjandi einhverri af hinum mörgu útgáfum af hugmyndinni um neikvætt frelsi. Þó tæpast þeirri útgáfu sem Kristján heimspekingur Kristjánsson hefur átt þátt í að skapa, hina svonefndu ábyrgðarkenningar um frelsi (e. the social responsibility view). Fylgjendur hennar telja að frelsi hljóti að vera frelsi frá hömlum en skilgreina   ”frelsishömlur” öllu víðar en frjálshyggjumenn. Hafi foreldrar alið börn sín upp í undirgefni (og það með góðum árangr) þá hafa þau hindrað börnin í að standa á rétti sínum. Foreldrarnir bera ábyrgð á ófrelsi barnanna en ófrelsið er neikvætt (Kristján 1992a: 5-18). Þetta myndi þýða að samfélag þar sem stúlkur eru aldar upp í undirlægjusemi sé hvað þetta varðar ófrjálst samfélag.Athugið að ekki er gefið hvernig skilgreina eigi hugtök á borð við „frelsi“, „frelsistálmanir“ o.s.frv., með svipuðum hætti og ekki er gefið hvaða staðtölu-mælikvörðum eigi að beita þegar tekjur eru mældar. Athugið líka að þessi hugmynd um frelsi getur vel samrýmst hugmyndum jafnaðarmanna um að uppeldi og hugmyndafræði geti gert menn ófrjálsa. Ýmsar rannsóknir benda til þess að ómeðvitaðir fordómar geti valdið frelsisskerðingu:

Tilraunir hafa verið gerðar þar sem sendar voru umsóknir um sömu stöðu og voru umsækjendur með nákvæmlega sömu hæfni en þær umsóknir sem voru sendar í nafni kvenna fengu síður framgang en þær sem sendar voru í nafni karla. Það þótt umsóknirnar væru að öðru leyti alveg eins. En Erna Ýr talar eins og víst sé  að það  ríki jafnrétti milli kynjanna þar eð lögin kveða á um að svo sé. Eigi nefndar rannsóknir við rök að styðjast má efast um þessa skoðun Ernu Ýrar. Hugsanlega má nota slíkar rannsóknir til að styðja þá hugmynd margra vinstrimanna að orðræða geti verið kúgandi, sé hægt að sýna fram að orðræða efli fordóma sem valda kúgun má velta því fyrir sér hvort rétt sé að banna þessa orðræðu. En í reynd er afar erfitt að sanna slíkt.

Lítum frekar á veilurnar við frelsisskilning frjálshyggjunnar: Hugsum okkur samfélag þar sem meirihlutinn hefur látið minnihlutann þrælka sig af fúsum og frjálsum vilja. Þrælunum finnst ekkert sjálfsagðara en að hlýða fyrirskipunum herra sinna og hafa enga löngun til að brjóta í bága við vilja þeirra. Þrælarnir eru ekki beittir neinum ytri þvingunum og hljóta því að teljast frjálsir samkvæmt frjálshyggjuútgáfunni af neikvæðu frelsi. Samt dytti engum heilvita manni í hug að halda því fram að þrælarnir væru frjálsir menn.

Athugum annað: Jafnvel þótt við gæfum okkur að neikvæður frelsisskilningur frjálshyggjunnar sé sá eini rétti þá hjálpar okkur ekki til að svara ýmsum mikilvægum spurningum um frelsi: Er réttur til fóstureyðinga frelsisréttur konunnar til að ráða eigin líkama eða þýðir hann skerðingu á frelsi fóstursins? Það er ekki til neitt einfalt svar við þessari spurningu.

Hinn vinstrisinnaði breski heimspekingur Richard Norman segir að   frjálshyggjuútgáfan af neikvæðu frelsi byggi á þeirri forsendu að skörp skil séu milli einstaklings og samfélags. En þessi forsenda sé röng, hugtökin um einstakling og samfélag séu samofin (að því lúta flókin rök sem ekki verða rakin hér). Þess vegna sé út í hött að líta á frelsi sem það að eiga eigið svið, afmarkað frá samfélaginu. Auk þess leiði af kenningunni um neikvætt frelsi að kalla megi stein "frjálsan" fái hann að vera í friði. Þetta sýni að frelsi verði að vera annað og meira en bara það að við séum óáreitt. Menn geta ekki verið frjálsir nema að eiga einhverra kosta völ. Því betri og fleiri sem kostirnir eru og því hæfari sem við erum til að velja, því frjálsari erum við. Frelsi er því ekki aðeins fjarvera ytri tálmana heldur líka möguleikinn á vali. Frelsi sé á vissan hátt vald (og val). Góð efnaleg kjör, menntun og pólitískt vald geta aukið hæfni okkar til að velja og fjölga um leið kostunum sem kjósa má um. Menntun geti t.d. aukið hæfni okkar til að gagnrýna ríkjandi ástand og þannig sjá nýja félagslega kosti. Bætt kjör þýða að kostum okkar fjölgar og sama gildir um aukið pólitískt vald (Norman 1987: 131-154). Erna Ýr gefur sér að jöfnuður og frelsi fari ekki saman, Norman rökstyður hið gagnstæða.

Verkalýðshreyfing og jöfnuður

Nú fjargviðrast Erna Ýr yfir meintum brotum á samningafrelsi sem rekja megi til öflugrar stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Hún athugar ekki að þær takmarkanir á neikvæðu frelsi sem tryggja verkalýðshreyfingunni þessa stöðu gætu verið nauðsynlegar til að efla jákvætt frelsi, getufrelsi. Þess utan verður líka að takmarka neikvætt frelsi svo eignaréttur verði virtur, mönnum er bannað að nota eigur annarra án þeirra leyfis. Þeir eru ekki frjálsir að til að taka það sem þeim sýnist. Það er erfitt að alhæfa um frelsi en segja má þó að allt frelsi krefjist einhvers konar ófrelsis. Í ofan á lag bendir flest til þess að almenningur búi við hvað best kjör og mest getufrelsi í löndum þar sem verkalýðshreyfingunni er tryggður sérstakur sess í samfélaginu. Staðtölur benda til þess að lífssæld sé hvað mest á Norðurlöndum, í Noreg hefur ríkið feikiöfluga  stöðu í efnahagslífinu, er ríkjandi í olíuiðnaðnum og á 35% allra hlutabréfa. Og Svíþjóð eru skattar stighækkandi og efnahagurinn blómgast. Samt eða þess vegna er félagslegur hreyfanleiki meiri  á Norðurlöndum en í hinum tiltölulega markaðsfrjálsu Bandaríkjunum. Þar vestra hefur félagslegur hreyfanleiki minnkað í réttu hlutfalli við veikingu á stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að það hljóti að vera orsakasamband þar á milli þótt undirritaður reikni með því að svo sé. En flest bendir til að aukin misdreifing tekna og eigna vestanhafs eigi þátt í minnkandi félagslegum hreyfanleika. Skortur á slíkum hreyfanleiki er ábending um stéttræði. Það kann vera nauðsynlegt að gefa verkalýðshreyfingunni ákveðin forréttindi til að hindra stéttkúgun og þar með frelsissviptingu alls almennings. Um þetta snýst barátta jafnaðarmanna fyrir auknum jöfnuði. Það er ekki barátta fyrir mælanlegum millimetrajöfnuði heldur barátta gegn þeirri gerð ójafnaðar sem takmarkað getur getufrelsi manna. Stóraukin ójöfnuðir í eignadreifingu á Íslandi hefur gert auðmenn og stórfyrirtæki feikilega voldug. Þessir aðilar geta keypt heilu stjórnmálaflokkana, rekið blaðamenn sem leyfa sér að hugsa sjálfsstætt o.s.frv.

Til að gera illt verra dregur ójöfnuður úr trausti en traust er efnahagslega hagkvæmt, það kostar mikið að vantreysta öðrum. Ég hef áður nefnt rannsóknir hagfræðingsins Alexander Cappelens en hann heldur því fram að mikið traust í Noregi sé helsta auðlind landsins. Jöfnuður eykur traust og traust bætir kjörin, vilji menn bætt kjör þá hljóta þeir að berjast með jafnaðarmönnum fyrir meiri jöfnuði. En vissulega má gagnrýna jafnaðarmenn fyrir að vera á stundum blinda á hættuna af auknu ríkisvaldi.

Lokaorð

 Hvað sem því líður eru  markmið jafnaðarmanna   sæmilega skýr, engu óskýrari en markmið Ernu Ýrar. Hún gefur sér án raka að frelsisskilningur frjálshyggjunnar sé sá eini rétti. En eins og menn hafa séð eru til voldug rök gegn þeim skilningi. Auk þess gefur Erna Ýr sér að til séu hinar einu sönnu staðtölur en eins og sjá má er það vægast sagt ólíklegt. Ekki bætir úr skák að gagnrýni  Ernu Ýrar á verkalýðshreyfingu og baráttu fyrir jafnstöðu kynjanna er ekki ýkja sannfærandi. Hún skilur ekki að barátta jafnaðarmanna fyrir jöfnuði er barátta fyrir auknu getufrelsi og fyrir trausti sem eflir efnahaginn.

Hún skrifaði ádrepu sína þann 1 maí síðastliðinn, á baráttudegi verkamanna og launþega allra. Á  þeim degi raulaði ég: „Þeir skammta okkur frelsi, þeir skammta okkur brauð, hver skóp þeirra drottnandi auð?“

Heimildir utan nets:

Isaiah Berlin (1994) "Tvö hugtök um frelsi” (þýðandi Róbert Víðir Gunnarsson), í Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson: Heimspeki á tuttugustu öld. Heimskringla: Reykjavík, bls. 157-168.

Kristján Kristjánsson (1992): “Sendibréf um frelsi”, Hugur, 5 ár, Bls. 5-18. Friedrich von Hayek (1960): The Constitution of Liberty. London og New York: Routledge.

Richard Norman (1987): Free and Equal. A Philosophical Examination of Political Values. Oxford: Oxford University Press.

Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Reykjavík: Heimskringla (mikinn hluta af rökum sem hér eru sett fram má finna í þessari skruddu)..

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni