Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Er tal um samkeppnishæfi ríkja della?

Fyrir rúmlega tuttugu árum skrifaði nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman ágæta ádrepu þar sem hann gagnrýndi harkalega hugmyndina um  samkeppnishæfi landa  (Krugman 1994). Fólk haldi ranglega að alþjóðleg samkeppni milli landa sé eins og samkeppni fyrirtækja. Að meta hvort land X sé samkeppnishæft á alþjóðavísu sé eins og að spyrja hvort General Motors sé samkeppnishæft á bandarískum markaði (köllum fylgjendur þessarar kenningar “ríkissamkeppnissinna”, Trump er einn þeirra. Athugið að ég nota "ríki" og "lönd" í sömu merkingu í þessari færslu).

Villandi að líkja ríkjasamkeppni við fyrirtækjasamkeppni

En ríkisssamkeppnisssinnar skilji ekki að þegar við metum samkeppnishæfi fyrirtækja metum við m.a. líkurnar á því  að þau fari á hausinn. Ríki aftur á móti fari einfaldlega ekki á hausinn, því sé vafasamt að tala um samkeppnishæfi ríkja. Fleira skilur með fyrirtækjasamkeppni og ríkjasamkeppni. Fyrirtæki á borð Coca-Cola og Pepsi séu nánast hreinræktaðir keppinautar. Ef Pepsi nær góðum árangri þá sé  það að jafnaði á kostnað Coca-Cola. Starfsmenn þessara  fyrirtækja kaupi ekki nema brot af þeir vöru keppinautarins sem á markaðnum finnst, ef þeir kaupa þá yfirleitt eitthvað af þeirra vöru. Starfsmenn Coca-Cola eru sem sagt ekki meginkúnnar Pepsis.

Gagnstætt þessu láti  þróuð ríki sér ekki nægja að selja hvert öðru  vörur heldur séu þau  helstu markaðirnir  fyrir útfultningsvörur hver annarra. Gangi evrópska markaðnum vel þarf það ekki að vera á kostnað Bandaríkjamanna. Fremur hið gagnstæða, velgengni evrópska markaðarins kann að auka kaupmátt Evrópubúa sem þýðir að bandarísk fyrirtæki fái aukna möguleika á því að selja þeim vörur. Um leið kann velgengi Evrópu að þýða að evrópsk fyrirtæki geti selt Bandaríkjamönnum afbragðsvörur á lægra verði.

Krugman, Trump, Viðskiptaóráð

Krugman hafði kannski á þessum árum oftrú á mátt heimsmarkaðarins til að ná jafnvægi öllum í hag. En hvað sem því líður virðist sú kenning hans velígrunduð  að  samkeppni ríkja sé gagnólík samkeppni fyrirtækja. Þetta skilur Trump ræfillinn ekki, hann heldur að óhagstæður viðskiptajöfnuður BNA sé eins og tap fyrirtækis og merki um að landið sé snuðað af öðrum.

Einhvern tímann var sú hugmynd  í tísku meðal græðgis-Íslendinga að fela dugmiklum viðskiptamönnum allt vald á Íslandi því þeir myndu redda efnahagslífinu (skítt með lýðræðið bara ef nóg er monníið!). En hefðu þeir ekki gert sömu mistökin og Trump? Viðskiptaráð talar einatt í óráði um nauðsyn þess að gera X og Y til að Ísland dragist ekki aftur úr í alþjóðasamkeppni. Ein af órökstuddum imbatillögum óráðsins var að enskuvæða Ísland til að bæta samkeppnishæfi landins. En ef hugtakið um samkeppnishæfi landa/ríkja er inntakslaust líkt og Krugman segir, þá er sú tillaga út í hött.

Heimild:

Paul Krugman 1994: «Competitiviness: A dangerous Obsession", Foreign Affairs, Issue March/April  (Volume 73, No 2).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni