Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

"Ég sjálfur á mitt eigið lík" Enn um málstofuna með Hannesi H.

Baldur Arnarson, blaðamaður á Morgunblaðinu, var svo vinsamlegur að senda mér frétt sína um málstofu okkar Hannesar. Er skemmst frá því að segja að hann skýrir vel og skílmerkilega frá fundinum. Hannes fór um víðan völl í fyrirlestri sínum og hélt sig engan veginn við þema málstofunnar. Þess vegna taldi ég ekki ástæðu til að svara nema hluta af staðhæfingum hans á málstofunni en bæti að nokkru úr því hér.

Sjálfseign?

Hannes reifaði meginhugmyndir frjálshyggjunnar,  þar á meðal kenningu Robert Nozicks um að við eigum okkur sjálf (sjálfseignarkenningin). Eins og frjálshyggjufrömuðurinn og fyllibyttan Þórður Malakoff kvað forðum «ég sjálfur á mitt eigið lík og síst er ég þín senditík».

Hannes nefndi ekki gagnrýni mína á þessa kenningu Nozicks en hana reifaði ég í kveri mínu Kredda í kreppu. Þar vitnaði ég m.a. í heimspekinginn Susan Okin Moller sem tók Nozick á beinið. Ef við eigum allt sem við framleiðum úr eigin efniviði þá hljóta foreldrar að hafa rétt til að selja börn sín. Bann við slíku jafngildir banni við frjálsum samskiptum lögráða fólks. Börnin voru jú sköpuð með frjálsu samþykki beggja foreldra.

Bæta má við að ef við eigum börnin okkar og megum gera það sem okkur sýnist við eigur okkar hljótum við að mega myrða þau og pynta.  Sú var auðvitað ekki ætlun Nozciks að verja slíkan ósóma en vörn fyrir honum er röklega byggð inn í rök hans.

Sjálfseignarrökin leiða að minni hyggju til þversagna: Ef flestir menn eru afurðir þess sem foreldrar þeirra gerðu af fúsum og frjálsum vilja þá hljóta þeir að vera eign foreldra sinna. En þau eru svo aftur eign sinna foreldra nema nauðgun hafi komið til. Afi og amma eru eign langafa og langömmu og svo koll af kolli til Adams og Evu. Þau voru sköpunarverk Guðs sem því hlýtur að eiga mannkynið. Sjálfeignarrökin leiða því til fáránlegra niðurstaðna: Menn eiga sjálfan sig og þeir eiga allt sem þeir skapa úr eigin efniviði. En þá eiga þeir ekki sjálfan sig heldur eiga foreldarnir þá en þeir eiga sig ekki sjálfa heldur þeirra foreldrar og svo framvegis. Menn eiga sig sjálfa um leið og þeir eiga sig ekki sjálfa. Hugmyndin um sjálfseign leiðir því til þversagna. Köllum þær ”þversagnir sjálfseignarinnar”.

Frjálst þrælahald?

Við má bæta að Nozick staðhæfði að ekki megi banna mönnum að selja sig mansali. Ef menn láta þrælka sjálfa sig hlýtur að leiða af sjálfeignarrökunum að börn þeirra tilheyri þrælahaldaranum. Enn má bæta við að ef við eigum okkur sjálf með sama hætti og «venjulegar» eigur þá væri eðlilegt að leyfa skuldaþrælkun. Geti menn ekki staðið í skilum með skuldir er eðlilegt að taka eigur þeirra upp í skuldir en þar eð þeir sjálfir eru meðal þessara eigna má telja sjálfsagt að taka þá sjálfa upp í skuldir, láta þá þræla þar til  skuldin er greidd.

Nefna má að fornmenn hefðu alls ekki skilið sjálfseignarkenninguna, menn tilheyrðu  ættbálki sínum. Og Rómverjar litu svo á að börn tilheyrðu föður sínum, hann gæti gert hvaðeina við þau, drepið og pyntað.

Lokaorð

Niðurstaðan er sú að sjálfeignarkenning Nozicks sé liðónýt kenning sem leiðir til þverstæðna. Engin ástæða er til að þenja eignahugtakið út, skynsamlegast er að líta á eign sem afurð mannasetninga, gagnstætt því sem Nozick hélt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni