Dylan nóbelsskáld!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Mikil tíðindi, Bob Dylan fær nóbelsverðlauniní bókmenntum!!!!
Maðurinn með andlitin mörgu (grímufjöld?), maðurinn sem endurskapar sig sjálfan fimmta hvert ár eða svo. Fyrst reiða unga manninn, mótmælandann með kassagítarinn, svo dularfulla, innhverfa, skáldið og kúlmennið með rafmagnsgítarinn. Næst kántrígaurinn með skæru röddina, þá nýja útgáfu af dularfulla skáldinu. Svo þann heittrúar- kristna, þá Gyðinginn endurborna o.s.frv., o.s.frv.
Póstmódernistinn Dylan
Það er póstmódernistafnykur af grímuleik Dylans, póstmódernistar hafna jú hugmyndinni um heildstætt sjálf. Dylan er eins og safn af grímum,maður án eiginleika, án heildstæðs sjálfs. Eða hvort er hann Robert Allen Zimmerman eða Bob Dylan? Enda var Dylan einn af frumherjum póstmódernismans eins sést af því hvernig hann blandar saman há- og lágmenningu, textarnir oft margræðir en tónlistin einföld alþýðutónlist. Gott dæmi er Mr. Tambourine Man, textinn nánast nýstefnuljóð, lagið af popptagi. Löngu áður en það varð alsiða í bókmenntum tók Dylan að blanda saman þáttum úr lág- og hámenningu í textum sínum. Hámenningarskáldið Ezra Pound og lágmenningarmennið Óperudraugurinn mætast í textanum Desolation Row.
Pólitík og póstmódernismi Dylans
Póstmódernistapáfinn Jean-François Lyotard sagði að póstmódernistar geldu varhug við stórsögum (fr. les grands récits), þ.e. hugmyndafræðilegum kerfum. Dylan hefur ávallt verið illstaðsetjanlegur í pólitík, hann hefur tekið skýra afstöðu til einstakra mála en aldrei verið málsvari pólitískra “isma” af einu eða neinu tagi. Hann lætur sér stuttsögur nægja eins og sannur póstmódernisti. Hvað þetta varðar minnir hann ekki eilítið á annan meginpóstmódernista, Michel Foucault. Rétt eins og Dylan var hann vart staðsetjanlegur í pólitík, varði byltinguna í Íran og skaut skildi fyrir Ísrael. Hann var kallaður “anarkisti”, “kommúnisti”, “nasisti” og “gaullisti”. Til að kóróna allt saman daðraði Foucault við frjálshyggjuna í fyrirlestrum sem hann hélt fyrir aldarþriðjungi. Um leið tók hann skýra afstöðu til einstakra mála, barðist t.d. fyrir fangelsisumbótum í Frakklandi. Með líkum hætti barðist Dylan fyrir því að boxarinn Reuben Carter yrði náðaður. Hann söng af innlifun gegn stríðsmöngurum í Master of War, gegn kynþáttamisrétti í Blowin' in the Wind og fleiri lögum. En bæði hægri- og vinstrimenn hafa andæft stríðsbrölti og rasisma, Dylan hefur aldrei boðað trú á pólitíska kerfishugsun. Hafi Dylan einhvern hugmyndafræðilegan boðskap fram að færa þá er hann þessi “…there is no leftwing or rightwing, only upwing and downwing”. Það er sem hann vilji brúa bilið milli vinstri og hægri.Persneski spámaðurinn Zaraþústra skóp gjánna milli góðs og ills, Zaraþústra Nietzsches vildi brúa gjánna og boða komu ofurmennisins. Dylan-Zaraþústra vill brúa gjánna milli vinstri og hægri og boða komu “the SuperZimmerMan” (eða SuperJokerman eða SuperTambourine Man eða…).
Til hamingju Dylan, til hamingju Dylanaðdáendur nær og fjær!
Athugasemdir