Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Deilan um Dylan

 Netheimar loga nú vegna nóbelsnafnbótar Bob Dylans og sýnist sitt

hverjum.  Sumir fagna ákaft, aðrir segja Dylan óhagmæltan dægurlagasöngvara. Deilan er mjög af hinu góða því list á að hreyfa við mönnum, hvetja þá til umhugsunar og andmæla, kappræðna og rökræðna. Það rýrir ekki upplifunargildi listanna. Upplifun, tilfinningar  og hugsun verða að haldast í hendur þegar við nálgumst listaverk með það fyrir augum að skilja og meta þau.

Texti og tónlist

Helgi Ingólfsson birtir texta Dylans If not for you á feisbókarsíðu sinni og segir hann engu betri en popplag á borð við Ást á pöbbnum, jafnvel verri. Þessu  má svara með því að benda á að hjá Dylan haldast lög og textar í hendur, meta verður lagið líka og hvort lag og texti hæfi hvort öðru. Enginn neitar því að rímur séu bókmenntaverk, samt er illmögulegt að meta þær nema heyra þær kveðnar. Orð og söngl eru eitt í rímum. Dróttkvæðin hafa örugglega verið flutt með líkum hætti, gaman væri ef einhver reyndi að endurgera kveðandi þeirra og kveða opinberlega. Hómer hóf Ilionsrímur, ég meina Ilíonskviður,  með því að söngla „Syngdu sönggyðja…“, Sveinbjörn Egilsson þýddi svona: „Kveð, þú gyðja…“ Rétt eins og hún hafi lesið ljóðin upp á samkomu menningarvita. Sveinbjörn þýðir þetta eftir að tengsl söngs og ljóða höfðu  rofnað. Hann athugaði ekki að forngrikkir greindu ekki skarplega milli ljóða og söngs, forngrísk ljóð virðast ávallt hafa verið flutt með undirleik, söngluð eða sungin. Dylan reynir að endurvekja þessa hefð, kveða nútímarímur. Vissulega er hann ærið mistækur textahöfundur, sumir textar og sum lög alger hryllingur (fáir neita því að Ezra Pound hafi verið meginskáld, samt eru sum kvæða hans hreinlega léleg). En oft virðist hann vera meðvitað banal, eins og hann sé að rjúfa með því múrinn milli hálistar og láglistar, gefa hálistinni einn á hann (nægir að nefn hið þrælhæðna I‘ll be Your Baby Tonight á plötunni John Wesley Harding). Ekki ósvipað því sem Marcel Duchamp gerði þegar hann stillti hlandskál út sem höggmynd og kallaði „Brunn“. Hlandskálin var skjannahvít rétt eins og höggmyndir manna á borð við Bertel Thorvaldsen, Duchamp vildi gefa þessari tilgerðarlegu  (?) list vel útilátið vandarhögg. Þeir sem telja uppákomu Duchamps af hinu góða ættu að skilja að sum af kántrípopp-lágkúrulögum Dylans gegna svipuðu hlutverki: Að fá okkur til að hugsa um hvað list  eiginlega sé.

Þegar Alexander Calder birtist fyrst á listasviðinu með "móbila" sína var deilt um hvort kalla skyld þá "höggmyndir" eða telja þá tilheyra nýrri myndlistargein, "hreyfilist". Hið síðarnefnda varð ofan á. Með líkum hætti má segja að Dylan hafi enduruppfundið fornt bókmenntaform, söngl-ljóða-formið. Og þróað það í nýjar áttir.

Dylan milli módernisma og þjóðlagahefðar

Sumir af textum Dylans eru þess eðlis að vel má lesa þau eins og ljóð. Verulega góðan kveðskap!  Nægir að nefna Mr. Tambourine Man, Visions of Joanna, Changing of the Guards, og Sad-Eyed Lady of the Lowlands. Í bestu textum sínum tekst Dylan að sameina módernísk áhrif og þjóðlaga/kántrí-stef. Súrrealismi á hestbaki með banjó í hönd! Merkilegt dæmi um þetta er Lily, Rosemary and the Jack of Hearts á plötunni Blood on the Tracks. Við fyrstu sýn virðist textinn eins og handrit að vestra, það er sögð að því er virðist venjuleg saga um atburði í villta vestrinu. En nánari hlustun/lesning sýnir að þetta er einhvers konar módernískur  vestri, The Jack of Hearts er bæði raunverulegur þorpari og óraunverulegt tákn fyrir….hvað? Þessi texti er þess eðlis að ekki er vitlegt að lesa hann ótengdan tónlistin, hún og textinn mynda æðri einingu. Svipað gildir um annan megintexta Dylans, It‘s Allright, Ma (I‘m Only Bleeding), svo ekki sé talað um Masters of War. Dylan lyftir textanum í æðri veldi með mögnuðum flutningi á plötu sinni Freewheelin‘. Ljótur texta-andarungi verðu fagur svanur!

Lokaorð: Verðugur nóbelshafi!

Ekki verður  annað séð en að Dylan sé verulega frumlegur bókmennta-sköpuður sem þess utan getur snert fólk djúpt með verkum sínum. Séu  frumleiki og hæfni til þess að snerta djúpt meðal gæða bókmennta þá má telja Dylan ágætlega að nóbelsverðlaununum komin. Þess utan hefur hann ekki einkarétt á því að vera mistækur, eins og áður segir voru stórskáldinu  Ezra Pound mislagðar hendur.

Dylan er "undarlegt sambland af frosti og funa", af snillingi og ómerkilegum kántrísöngvara.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni