Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Ayn Rand og hinir ómissandi

Einhver leiðinlegasta skáldskaga, sem ég hef lesið,  er Atlas Shrugged eftir frjálshyggjupostulann Ayn Rand. Hún er illa skrifuð, óþolandi langdregin og persónusköpun engin. „Hátindurinn“ er löng og leiðinleg ræða aðalpersónunnar John Galts.

Hann stóð á bak við eins konar verkfall skapandi fólks og annarra afburðamanna, ekki síst athafnamanna. Þeir hreinlega yfirgáfu samfélagið og komu sér fyrir á leyndum stað.

Fyrir vikið lá við að samfélagið færi á hausinn en afleiðingin varð stefnubreyting, markaðsfrelsið sigraði. Boðskapurinn var sá að fámennur hópur afburðamanna skapar mestallan auð.

Einhvern tímann skrifaði ég bloggfærslu þar sem ég sneri sögu Rands við. Ræstitæknar, hjúkrunarfræðingar og rafyrkjar yfirgefa samfélagið og allt fer á hausinn.

Í sögu Rands kemur hvergi fram hverjir þvo gólf, tæma ruslið og gera við raflagnir á leynda staðnum þar sem afburðaliðið hafði hreiðrað um sig. Einnig má spyrja  hvaðan  það  fékk mat, ekki hafa athafnamennirnir og tónskáldin haft kunnáttu til að stunda landbúnað.  

Hvað hefði gerst ef farsótt hefði herjað á mannskapinn? Gat afburða-bisnessliðið og tónskáldin læknað sig sjálft? Hvaða hópar manna hafa verið ómissandi nú á dögum veirunnar?

Hvorki viðskiptasnillingar né tónskáld heldur ósköp venjulegir hjúkrunarfræðingar, læknar,  ræstitæknar, sorphirðufólk, bændur  o.s.frv.

En auðvitað hafa snjallir vísindamenn, uppfinningamenn og athafnamenn átt sinn þátt í að skapa lyf til lækna menn af veirunni og tæki til að stunda landbúnað. En þeir hefðu ekki komist langt án verkafólks, skrifstofufólks, bænda, í stuttu máli almennings.

 Og listamenn geta stytt okkur stundir, jafnvel huggað okkur, á þessum undarlegu og erfiðu tímum.

Við erum  háð hvert öðru, ef einn hlekkur samfélagsins brestur þá kunna hinir hlekkirnir að bresta um leið.

Við erum öll ómissandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu