Ár sterka mannsins, reiða karlsins
Árið 2016 er ár sterka mannsins og reiða karlsins. Reiði karlinn gerði sterka
manninn Trump að forseta og sagði Bretland úr lögum við ESB. Sterki maðurinn er einatt líka reiður karl, Trump fær útrás fyrir reiði sína í kjánalegu tvitri. Erdogan hinn tyrkneski er bæði sterkur og reiður, styrkur hans hefur aukist mjög eftir valdaránstilraunina misheppnuðu í sumar sem leið. Fólki er stungið í fangelsi í þúsundatali, sjálfstæðir einstaklingar mega dúsa í prísund meðan sterki karlinn lætur skrílinn hylla sig. Leiðtogi Kínverja, Xi Jipiang, festir sig mjög í sessi og virðist ætla að verða nýr Deng eða jafnvel Maó. Orban hinn ungverski er að sálga réttarríkinu, gera Ungverjaland að rétta-ríki þar sem mannsauðir láta reka sig í réttir af yfirvöldum.
Ungverjajöfur og Trump fara ekki dult með aðdáun sína á sjálfum frum-sterka karlinum, Vladimir Vladimirovitsj Pútín, manninum sem lætur sprengjum rigna yfir sýrlensk börn. Pútín styður skákmeistarann Sergei Karjakin með ráðum og dáð enda skákmeistarinn yfirlýstur aðdáandi hans. Í gær tók þessi fulltrúi sterka mannsins óvænt forystu í heimsmeistaraeinvíginu gegn heimsmeistaranum norska, Magnus Carlsen. Carlsen er ekki fulltrúi neins nema sjálfs síns, hann virðist vera að missa heimsmeistaratitilinn í hendur manns sem er á vegum sterka karlsins.
Sterki maðurinn vinnur, einstaklingurinn sjálfstæði tapar.
Athugasemdir