Abraham í jakkafötum. Bág staða ungmenna.
Margir lesenda kannast við lag Leonards Cohen "The Story of Isaac, kvæði
um Abraham Biblíunnar sem ætlaði að fórna syni sínum Ísak að boði Guðs. Á tónleikaplötunni Live Songs segir Cohen er hann kynnir lagið að textinn fjalli um það þegar eldri kynslóðin fórnar ungu kynslóðinni. Svo syngur Cohen:
„You who build these altars now
To sacrifice these children,
You must not do it anymore
A scheme is not a vision
And you never have been tempted
By a demon or a god.“
Hafði Cohen Víetnamstríðið í huga? Miðaldra bandarískir ráðamenn sendu nítján ára unglinga til að berjast fyrir vafasaman málstað. Eða fólskuverk Stalíns sem fórnaði heilu kynslóðunum á altari „hugsjóna“ sinna? Á Íslandi og víða á Vesturlöndum er verið að fórna ungu fólki, ekki á altari hátimbraðra kennikerfa, heldur Mammons. Abraham er kominn í skraddarasaumuð jakkaföt og dansar kringum gullkálfinn, sveiflandi blóðugum fórnarhnífnum. Stundin hefur birt prýðilega en napra úttekt Jóns Trausta um bága stöðu íslenskra ungmenna í því sem hann kallar „landi jakkafatanna“. Margt í þeirri leiðu stöðu á sér séríslenskar rætur, m.a. í háum vöxtum og ferðamannaflaumi sem veldur stórhækkun á húsnæðisverði. Annað er líklega liður í alþjóðlegri vanþróun.
Slæm staða unga fólksins vestanhafs og austan
Velþekkt er sú staðreynd að ungt fólk vestanhafs berst í bökkum. Árið 2013 átti þrítugi meðalkaninn 20% minni auð en jafnaldri hans þrjátíu árum fyrr. Fræðimaður við Stanford háskóla, Raj Chetty, rannsakaði efnahagsstöðu kynslóða og segir að 79% líkur hafi verið á því að Bandaríkjamaður fæddur 1950 þénaði meir en foreldrar sínir. En þeir sem fæddir voru 1980 eiga bara 50% líkur á því sama. Háskólamenntun vestanhafs hefur orðið mun dýrari á undanförnum áratugum og nýútskrifað fólk skuldum vafið. Um leið getur það tæpast bætt kjör sín nema menntast. Þau eru í vítahring því menntun leiðir til þess að þau sökkva í skuldafen. Í Evrópu er ástandið engu skárra, alla vega sunnarlega í álfunni. Vandamálið þar er aðallega mikið atvinnuleysi ungmenna. Tölur frá ESB í október 2016 sýna að tæpur helmingur ungra Grikkja (25 ára og yngri) atvinnulaus, litlu færri á Spáni. Meira að segja í Svíþjóð er um 18% ungmenna án atvinnu enda streyma ungir Svíar til Noregs í atvinnuleit. Portúgölsk ungmenni flytja í hrönnum til Brasilíu og hinna fornu nýlendna Portúgals í Afríku í atvinuleit. Ungir Spánverjar flykkjast til Suður-Ameríku. Landflótti ungmenna er ekki séríslenskt vandamál.
Mögulegar lausnir
Hvað er til ráða? Í Suður-Evrópu þyrfti líklega að gera vinnumarkaðinn þjálli, gera atvinnurekendum auðveldar um vik að reka menn og ráða. En um leið verður að efla endurmenntun og starfsþjálfun svo þeir sem vinnu missa geti haslað sér völl á nýjum sviðum. Vestanhafs þyrfti að fara að ráðum Bernie Sanders, efla velferðaríkið og endurmenntun, auk þess að gera ríkisháskólana ódýrari, jafnvel ókeypis. Á Íslandi væri kannski ráð að afnema ýmsar íþyngjandi reglugerðir um stærð íbúða, það gæti leitt til aukins framboðs á húsnæði, ungu fólki til heilla. Einnig verður að koma böndum yfir húsnæðisauðvaldið sem mergsýgur leigjendur. Námslánakerfinu verður líka að breyta svo dragi úr greiðslubyrði og efla hvers kyns velferðarþjónustu við ungmenni.
Lokaorð
En fyrst og fremst þarf að mölva gullkálfinn illa. Koma verður böndum á Abraham, klæða hann úr jakkafötunum fínu, og velta altari Mammons.
Athugasemdir