100 ár frá fæðingu stórskáldsins Stefáns Harðar
Í dag, þann 31 mars 2019, eru liðinn hundrað ár frá fæðingu eins mesta skálds Íslands á síðustu öld, Stefáns Harðar Grímssonar. Eins og mörg íslensk skáld fyrri tíma var hann alinn upp við kröpp kjör. Hann varð ungur munaðarlaus, hlaut litla menntun og sá sér farborða með sjómennsku. Fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1946, Glugginn snýr norður. Heitið segir mikið um ljóðin, það er í þeim norðannæðingur. Flest ort með hefðbundnum hætti, skáldgáfan skein í gegn, þótt ljóðin væru misjöfn að gæðum. Fimm árum síðar kvaddi hann sér hressilega hljóðs á skáldaþingi með hinni dásamlegu ljóðabók Svartálfadansi. Ein albesta bók atómskáldanna svonefndu, modernísk ljóð með rómantísku ívafi. Svo yrkir hann í kvæðinu Þegar undir skörðum mána:
„Þegar tregans fingurgómar
styðja þungt á strenginn rauða
mun ég eiga þig að brosi“.
Eitt af mörgum ástarljóðum Stefáns Harðar, annað bráðskemmtilegt ástarkvæði í sama kveri er Halló litli villikötturinn minn:
„Hár þitt
sólskinið á öræfum vetrarins“.
Náttúran var honum ekki síður hugleikinn en ástin, þannig hefst kvæðið Óttan felldi sín blátár:
„Óttan felldi sín blátár
á grös og skóga“
Og eins og títt er um skáld orti hann um mannlega tilvist og dauðans óvissu tíma (í ljóðinu Svartálfadansi):
„Má ég einnig biðja um næsta dans
dansinn fram á nóttu allra nátta?"
Næsta ljóðabók kom ekki út fyrr en nítján árum síðar og bar heitið Hliðin á sléttunni. Ljóðin mörg hver knappari og torræðari en fyrr, í þeim sumum má finna pólitískan þráð sem vart er sjáanlegur í fyrri kvæðum. Erfitt er að skilja ljóðið Síðdegi öðru vísi en sem fordæmingu á stríðsrekstri Bandaríkjamanna í Víetnam. Ólíkt öðrum kvæðum Stefáns Harðar, þau fáu kvæði Stefáns Harðar sem teljast mega hafa pólitískan þátt eru helst af náttúruverndartoga. Kvæðið Eindagar er auðlesið, skáldið kallar manninn helsta meindýr jarðarinnar og skrifar í hálfgerðum predikunartóni en í lokin má finna óvæntan hnykk, ítursnjallan:
„Fyrirgefið mér guðir þessar jórtruðu tuggur vikublaðanna.
Lofið varir ljóðið og ástina
fram á yztu nöf“.
Ástin birtist enn á ný í Flugmundum:
„Hann krýndi vindinn blómum
og þau hafa angað
síðan hún fann þau.
Syngdu fugl
syngdu nótt af vegum“.
Tilvist okkar fær líka sinn skammt, í Þrettán gular ein svört yrkir hann um smæð mannsins
„Við salt jarðar
Sviti einnar skopparakringlu“.
Á níunda tug aldarinnar komu þrjár ljóðabækur frá hendi Stefáns Harðar. Farvegir komu út árið 1981, ljóðin miðleitin og knöpp eins og einatt. Skáldið bjó til mörg ljóðræn nýyrði, t.d. Þögnuðuholt sem kemur fyrir í fyrsta ljóði bókarinnar. Í öðru ljóði, Syngjum fyrir fuglana, segir:
„Enn gengur þögnin á vatninu
á ný leitar hún í faðm söngsins.“
Þögnuðuholt birtist aftur í næstu bók, Tengslum, og þá sem ljóðaheiti. Annað ljóð í þessari bók er kannski hans knappasta, það ber heitið Inni og er svona:
„Þú
Hjúpur veralda
án þín“
Í ljóðinu Með fyrirvara gerir skáldið heiftarlegt grín að oftrú á kennikerfi:
„...þótt alhæfing rói höfuðskeljar um sinn
og kenning sé virðuleg brúða með slaufur í fléttum“.
Hinsta bókin, Yfir heiðan morgun kom út árið 1989 og fékk skáldið íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hana. Kvæðið Sumar enn hefst á þessum orðum:
„Nornir hafa snúið mér ljúfan þráð“.
Þessar nornir hljóta að vera örlaganornirnar, ljóðmælandi virðist segja að örlögin hafi verið sér góð og enn sé sumar þótt hann sé aldurhniginn.
Stefán Hörður var afar myndvíst skáld, hvað það varðar minnir hann á Snorra Hjartarson en myndir Stefáns Harðar eru módernískari. Báðir náttúrumyndaskáld. Hann orti mörg prósaljóð, tónlistarryþmi er oftast ekki mjög áberandi í ljóðum hans gagnstætt a.m.k. tveimur öðrum atómskáldum, tónlistarmanninum Jóni Óskari og leiðsluskáldinu Hannesi Sigfússyni. Stefán Hörður var íhugull í ljóðum en ekki eins intellektúel og Sigfús Daðason. Hann var kaldhæðinn á köflum en ekki eins kaldhæðinn og Steinn Steinarr, sá meistari íroníunnar. Hann var stundum pólitískur en síður pólitískur en Sigfús, Steinn og jafnvel Snorri. Ekki nærri því eins rammpólitískur og Hannes Sigfússon. Hannes var mælskt ljóskáld, Stefán Hörður fremur skáld þagnar og þess sem finna má undir rós. Þannig má staðsetja ljóð hans í hnitakerfi atómskáldskaparins.
Hann lést árið 2002.
Athugasemdir