Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Spilaborgin

Spilaborgin

House of Cards eru skemmtilegt sjónvarpsefni. (Á ég ekki að kalla þáttaröðina annað hvort „Spilaborgina“ eða „Á tæpasta vaði“ restina af blogginu?)

Skemmtilegt, en raunveruleikinn er talsvert klikkaðri. Enda ekki alltaf hægt að sjá þróunina fyrir. (Eftir á að hyggja ætti kannski enginn að furða sig á því að George Bush og Sarah Palin leiði til Trump, en samt er það eftir á).

Í bandarísku þáttaröðinni leikur Kevin Spacey demókrata frá suðurríkjunum, frekar íhaldsaman pólitíkus sem oftar en ekki berst frekar gegn verkalýðssamböndum en með þeim, og á konu með drauma um eigin stjórnmálaframa (honum Frank Underwood til mikils ama).

M.ö.o. þá er hann Bill Clinton án kynhvatar.

Margt er skemmtilegt í þáttunum, þriðja serían var frekar langdregin en fjórða tók við sér. Svo virðist vera sem að Frank ætli að nýta sér hryðjuverkaógnina og óttann sem hún skapar til að afla sér fylgi á lokametrum kosningabaráttunar. Hann er þar með að umbreytast í fullkominn samruna George Bush og Clinton, (og kosningarnar eru kannski ekki svo ólíkar þeim 2004, í báðum tilvikum er mótframbjóðandinn lagleg stríðshetja).

En þó verð ég að segja að breska þáttaröðin sem BBC gerði fyrir löngu síðan sé miklu betri. Enda eru grundvallar-forsendurnar betri þar. Sé maður „whip“ inn á þingi sem á að þvinga flokksmenn til að kjósa með forsætisráðherranum, þá er vel hugsanlegt að maður geti nýtt sömu pólitísku tæki til að þvinga þingmennina til að lýsa yfir vantrausti á forsætisráðherra og láta hann segja af sér. Það er snúnara með forseta í kerfi sem aðskilur framkvæmda og löggjafarvald mun skýrar. M.ö.o. það er auðveldara að nota þingið til að fremja „valdarán“ í flestum Evrópuríkjum heldur en Bandaríkjunum.

Sögnin í bresku þáttunum er líka sterkari. Í Spilaborginni bandarísku virðist lítil sögn liggja í söguþræðinum. Stundum verður hann melódramatískur, en það eru fá undirliggjandi skilaboð. Kannski „völd spilla“ en þau virðast nánast einvörðungu spilla Frank og engum öðrum. Í bresku seríunni er verið að skoða misnotkun valds á tímum Thatcher, og hún er raunsæ að því leitinu til að hún byggir á bókum eftir ráðgjafa hennar. (Michael Dobbs var ráðgjafi Margaret Thatcher meðan hún var í stjórnarandstöðu og síðar ræðu-höfundur fyrir hana þegar hún var orðin forsætisráðherra, auk þess sem hann gegndi stöðu „Chief of staff“ fyrir íhaldsflokkinn 1986-1987, en skáldsaga hans House of Cards kom út 1989).

En það er þó ekki bara það, heldur einfaldleikinn sem bandarísku seríuna skortir. Sú breska tók sér rúmlega 12 klukkustundir til að segja sögu um ris og fall forsætisráðherra sem vann nokkrar kosningar og með eigingirni sinni rústaði lýðræðishefðinni í landi sínu. Þáttaröðin er svolítið eins og leikrit eftir Shakespeare, (enda vísanir í Macbeth og Ríkharð þriðja og öll kóngaleikritin úti um allt), með tíðum einræðum óþokkans Francis Urquhart.

Mótstaðan við F.U. er afar lítil, hann vefur andstæðinga sína um fingur sér líkt og Ríkharður þriðji gerir, en í lokin verður fall hans óhjákvæmilegt, af því við erum stödd í harmleik sem fylgir þeim strúktúr.

Sennilega er stefnt að svipuðum endalokum og í 12 tíma seríunni bresku, nema að í bandarísku útgáfunni er búið að bæta inn slatta af ástardrama og hliðarsögum sem teygir lopann upp í a.m.k. fimm seríur eða sextíu og eitthvað tíma. Það er gott og blessað. Ég kvarta ekki svo lengi sem mér er skemmt, þó að stundum óski ég þess að bandaríska útgáfan færi örlítið nær þeirri bresku.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu