Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þrjú kerfi

Kerfi eitt, 

Það er til heill iðnaður í kringum kvótakerfið. Þá er ég ekki að tala um sjómenn eða fisksölumenn, eða skipaframleiðendur og frystihúsastarfsmenn. Ég meina lögfræðinga. Lögfræðinga sem gegna stöðum sem sjávarútvegsfyrirtæki styrkja og inn á milli koma með órökstuddar fullyrðingar fyrir því að ekki fyrirfinnist neitt sem geti kallast „þjóðareign.“

Það er heill iðnaður sem gengur út á sannfæra fólk um að þjóðir geti ekki átt neitt sameiginlega. Og að kerfi sem kemur í veg fyrir nýliðun, og færir arðsemi frá þeim sem veiða til þeirra sem braska sé gott. Kerfi sem tryggir að þjóðin fái hvorki fullt gjald, né eðlilegt gjald (og helst ekki nokkuð gjald) sé af hinu góða. Það eru fáir sem láta sannfærast, nema kannski nemendur í lögfræðitímum, en samt sem áður sitjum við uppi með kerfi sem allir vita í hjarta sér að er ósanngjarnt.

Við fáum ekki nýja stjórnarskrá aðallega út af kergju í kringum þetta mál. Þennan iðnað lögfræðinga og lögfræðimenntaðra stjórnmálamanna sem vita að ef „fullt gjald“ er orðað sem „eðlilegt gjald“ þá sé hægt að treysta á að hæstiréttur dæmi sem svo að „eðlilegt“ gjald gæti verið vel „ekkert“ gjald. Enda eðlileikinn afstæður.

Kerfi tvö,

Annað kerfi sem reynst hefur býsna dýrt er landbúnaðarkerfið. Það er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að styrkja landbúnað á heimskautasvæði. (Þó eðlilegt sé eins og áður kom fram afstætt og menn eru ekkert endilega á vegum stórkapítalsins í Melum þótt þeir séu á öðru máli).

Ef það kostar styrki og skatta að sjá til þess að lambakjöt sé framleitt á Íslandi, og að fersk mjólk finnist í búðum þá er ég ekki með neitt á móti því. En það er undarlegt þegar kemur til tals að ræða fjárútlát upp á sex Hörpur, eða þrjú Icesave, að ekki megi ræða það gagnrýnið. Að þeim sem finnist fullmikið að skuldbinda næstu þrjár ríkisstjórnir til slíkra fjárútláta séu strax ásakaðir um að hata bændur.

Menn hafa beðið um þjóðaratkvæðagreiðslur yfir minna. (Yfir þrisvar sinnum minna reyndar).

Það sem ég vill spyrja varðandi núverandi kerfi er hvort það hvetji til nýsköpunar og sjálfbærrar nýtingar? Er það ekki rangt að fókusa á að framleiða sama kjötfjallið og smjörfjallið ár eftir ár?

Ég skil ekki hvers vegna á Íslandi eru ekki fleiri tegundir af ostum? Í Frakklandi eru kindur ekki bara notaðar til að framleiða kjöt heldur líka mjólk sem nýtist í osta? Þar er svo sannarlega ríkisstyrkt landbúnaðarkerfi, en líka mikil nýsköpun. Þegar ég fór og vann á vínekru í fyrra (var einn af ótal farandverkamönnum sem flestir eru Portúgalar og Tékkar sem fylltu þorp Búrgúndý í September og tíndi ber og hjálpaði við bruggið) komst ég að því mér til undrunar að bændur þar voru sífellt að leita að nýjum leiðum til að bæta framleiðsluna. Ekki bara vínberin, einn bóndinn var að prufa sig áfram með að brugga úr fíflamjólk, annar með kanínur og hunang.

Auðvitað er allskyns nýsköpun í sveitum Íslands líka. Fólk reynir hundarækt, viðheldur geitastofninum, býr til sinn eigin ís og tekur á móti túristum rétt eins og lömbum á vorin.

En þessir styrkir sem eru á við sex Hörpur . . . Ýta þeir undir nýsköpun eða meira af því sama? Eru þeir hvetjandi til þess að nýta framleiðsluna betur á einhvern hátt? Verðlauna þeir sköpun? Er líklegt að ef við samþykkjum þetta þrefalda Icesave að við fáum betri osta í búðir og hugsanlega eitthvað gott að drekka með því? Gætum við fengið sömu niðurstöðu með því að greiða öllum Íslendingum borgaralaun? (Hljómar ólíklega, en það má samt ræða það . . . mér sýnist borgaralaun jafnvel ódýrari kostur).

Þetta er það sem ég spyr mig að og held að við mættum ræða. Það kostar að viðhalda sveit á heimskautasvæði, en hversu mikið ætti það að kosta? Ég held að við höfum gott af því samtali, en ég skil vel ef ungir bændur verða sárir þegar einhverjir kalla þá afætur (ég hef reyndar engan séð gera það). 

Kerfi þrjú,

En þá að þeim sem reglulega eru kallaðir afætur eða listamönnum og þriðja kerfinu.

Listamannalaun njóta stuðnings meirihluta þjóðarinnar. (Í alvöru). En það mætti líka spyrja sig hvort borgaralaun myndu gera sama gagn. (Ég held það ... en það yrði augljóslega dýrara).

Það eru gallar á núverandi fyrirkomulagi, sem snúa ekki að því sem var rætt fyrir mánuði síðan þegar deilur brutust út um hverjir hefðu setið í nefndum og verið útnefndir af hverjum.

Ég spyr mig að svipuðum hlutum og ég myndi spyrja að varðandi kvótakerfið. Er nýliðun góð?

Svo er ekki. Að úthluta fólki sem er vel yfir þrítugt þriggja mánaða verktakagreiðslu sem jafngildir 170 þúsund krónum er ekki að gefa því sjéns. (Og þeir sem fá slíkt, jafnvel eftir nærri áratug af ljóða, smásagna og oft skáldsagnaútgáfu eru fáir).

Það eru ekki miklir peningar í pottinum. Potturinn hefur ekki stækkað með fólksfjölgun á Íslandi, eða versnandi stöðu t.d. bókaútgáfu (sem þarf núna að borga hæsta virðisaukaskatt sem lagður er á bækur í Vestur-Evrópu). En það er ekki þar með sagt að yngri höfundar ættu alltaf að mæta afgangi (eða minna þekktir höfundar).

Þekktu höfundarnir hafa sína málsvara og skiljanlega, þeir hafa sína aðdáendur. En hverju erum við að missa af? Fyrir áratug gátu listamenn sem jafnvel bara höfðu skrifað eina ljóðabók fengið styrki til að vinna að list sinni og fyrir vikið orðið þekkt nöfn í dag. Af hverju á alltaf sá ungi og minna þekkti að víkja? Hvers vegna er það náttúrulögmál? (Svo má reyndar benda á að ekki bara í úthlutunum listamannalauna er verið að markvisst útiloka unga höfunda, líka á bókmenntahátíðum).

Ég veit það ekki. Ekki frekar en fleiri þrítugir einstaklingar skilja í dag hvers vegna hagsmunir fasteigna-eigenda eiga alltaf að ganga fyrir hagsmuni leigjenda. Eru kannski öll kerfin í raun tilraun til að halda einni kynslóð frá og annarri inni?

Það má spyrja sig að því og öðru. (T.d. ef við afnæmum styrkjakerfið í landbúnaði, listamannalaun og örorkubætur og tækjum upp borgaralaun, værum við þá að spara pening? ;) Ég veit það ekki, ég veit bara að Alþingi  er mjög svo á móti því að kanna þessa spurningu og margar fleiri).

En nú bíð ég bara eftir kommenturum hinnar óvægnu, ósvífnu og rætnu íslensku umræðu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni