Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

It´s the economy stupid!

 The Wheel of Time turns, and ages come and pass, leaving memories that become legend. Legends fade to myth, and even myth is long forgotten when the Age that gave it birth comes again.

Svona eru upphafsorð Wheel of Time seríunnar eftir furðusagnahöfundinn Robert Jordan en það eru til þeir sem ímynda sér að sagan endurtaki sig í sífellu, ekki bara í skáldskaparheimum heldur í raunveruleikanum. Ég er reyndar ekki alveg frá því, á næsta ári gætum við verið að fylgjast með kosningabaráttu Clinton á móti Bush. Ef það verður niðurstaðan úr prófkjörum Repúblikana og Demókrata í bandaríkjunum þá held ég að margir muni endanlega missa trúna á lýðræði. Og jafnvel þótt það væri ágætt að fá konu sem forseta, þá finnst mér Hillary slök fyrirmynd, það er ógjörningur að skapa narratív um hana sem skýrir pólitískan frama hennar án þess að tengja við eiginmann hennar. Enda segir mér enginn að Hillary Clinton sé hæfasti kven-leiðtoginn í 300 milljón manna þjóð frekar en að Jeb Bush sé hæfasti karlmaðurinn.

Í seinustu kosningabaráttu þar sem Clinton og Bush áttust við, hafði Bill sigurinn á George eldri. Fáir áttu von á því að forseti sem gat státað sig af endalokum kalda stríðsins og hernaðarsigri á vanþróuðu eyðimerkurríki myndi tapa, en Clinton hafði mantrað: Það er efnahagurinn sem skiptir máli, vitleysingar! 

Enginn forseti sem stýrir landi í gegnum efnahagssamdrátt hefur nokkurn tímann verið endurkjörinn. 

En hvað um það. Í Evrópu virðist sagan líka vera að endurtaka sig. Gamlar trúarbragðadeilur skjóta upp kollinum og popúlískir hægri-flokkar sem verið hafa á jaðri stjórnmála frá lokum seinni heimsstyrjaldar eru komnir inn á miðjuna. Í Noregi og Danmörku er búið að gefast upp á að halda þeim frá valdastólum, og í Svíþjóð mun kerfið fyrr eða síðar gefast upp á því líka.

Í Frakklandi eru góðar líkur á að öfgaflokkur sem styður dauðarefsingar nái inn í seinni umferð forsetakosninga, aftur. Breskir íhaldsmenn vilja slíta sig frá Evrópusambandinu og Evrópudómstól (sem íhaldsflokkurinn undir forystu Churchill átti stóran þátt í að stofna). Og ef nýja vinstrinu á Grikkland tekst ekki að fá skuldaafskriftir og smá vægð mun nýja (gamla) hægrið fá annan sjéns til að sanna sig. Það hljómar kunnuglega að lönd sem sligast undan skuldum (hóst, Þýskaland, hóst) hallist til öfga sem kenna útlendingum um ófarir sínar. (Og það hljómar reyndar ekki svo ólíkt Íslandi í dag heldur). Og við erum ekki einu sinni farin að ræða Ungverjaland eða krísuna í Úkraínu og Rússlandi.

Menn spyrja sig: hvernig geta flokkar sem nota minnihlutahópa sem blóraböggla og eru með vafasama afstöðu til mannréttinda unnið hvern kosningasigurinn á fætur öðrum.

Fjölmenningarhyggjan hefur beðið skipbrot segja sumir. Samfélögin hafa brugðist innflytjendum sem laga sig ekki nógu vel að samfélaginu. Og það má vel vera, í Svíþjóð eins og Frakklandi eru gettó þar sem atvinnuleysi er hátt, glæpatíðni há og alls kyns félagslegt óréttlæti á sér stað. 

En svo má velta fyrir sér hvort þetta sé bara spurning um aðlögun. Fáir þjóðfélagshópar höfðu lagað sig jafn vel að vestrænu borgarsamfélagi og gyðingar rétt fyrir seinni heimsstyrjöld. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að þeir hafi skapað það borgarsamfélag, bæði menninguna og iðnaðinn. Kannski var það eitthvað annað.

Kannski er það efnahagskerfið sem skapar glæpina, stríðin og hatrið? Ég veit það ekki, en mér sýnist allt benda til þess að við séum að fara í hringi enn eina ferðina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni