Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Goðsagan um haglabyssuna

Goðsagan um haglabyssuna

Margir trúa því að Sigmundur Davíð hafi gengið harðar að kröfuhöfum íslensku bankanna en aðrir stjórnmálamenn.

Það er rangt. Þessi blekking eða goðsaga var sköpuð af honum sjálfum á hugvitsamlegan hátt, enda fáir pólitíkusar snjallari í að skapa einfaldar myndlíkingar. Haglabyssur, kylfur, hrægammar í skógi.

Hið rétta er samt að framsókn stóð með kröfuhöfunum.

Á síðasta kjörtímabili var frumvarp um framlengingu gjaldeyrishafta samþykkt. Það er frumvarpið sem gerði íslenska ríkinu kleift að semja við kröfuhafanna. Framsókn sat hjá. 

Einungis eftir á, þegar lögin voru orðin raunveruleiki, kröfuhafar gátu ekki stungið af með allan peninginn úr bönkunum beint til Tortóla (þar sem eiginkona Sigmundar geymir peningana sína), sneri Sigmundur sér við og fór að tala um hrægamma.

Þetta var snjöll blekking. En blekking engu að síður.

Mun alvarlegri blekking heldur en að neita að svara því nákvæmlega hvort maður sé með mastersgráðu, doktorsgráðu eða í doktorsnámi við Oxford. Sigmundur sat báðum megin við borðið í einu stærsta hagsmunamáli Íslandssögunar.

Pælið í því ef eiginkona forsætisráðherra á tímum landhelgisdeilunnar hefði átt verðbréf í breskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Pælið í því ef fjölskylda forsætisráðherra á sjöunda áratugnum hefði getað grætt á því ef Ísland myndi tapa deilum við erlenda kröfuhafa á fisk innan íslenskrar landhelgi.

Það er eiginlega það eina sambærilega við að eiga fjárfestingarsjóð rekinn af Credit Suisse í London, sem gerir kröfur á alla íslensku bankanna.

Þetta mál grefur undan trausti á stjórn sem þegar er traustminnsta og óvinsælasta stjórn Íslandssögunnar. Forsætisráðherra sem einungis einn af hverjum tíu treystir ætti að segja af sér. En forsætisráðherra sem hefur vísvitandi blekkt þjóðina oftar en einu sinni verður að segja af sér.

Ég get eiginlega ekki séð hvernig þetta heldur áfram. En spyrjum okkur að einu, væri fréttablað í suður-Þýskalandi og alþjóðleg samtök rannsóknablaðamanna að skoða þetta mál ef ekki væri eitthvað verulega grunsamlegt á ferð?

Gæti verið að afsögn núna sé skásti kosturinn í stöðunni fyrir Sigmund Davíð?

Eða vill hann kannski verða Hanna Birna framsóknar . . . það gæti verið snúið að tala sig út úr því í kosningum. Jafnvel fyrir Sigmund Davíð.

 

E.S.

Hvað með hrægamm sem nýja lógó framsóknar? Það væri eitthvað svolítið viðeigandi að hafa tvo ránfugla í stjórnarsamstarfi. Samfylkingin gæti svo tekið upp borgaralega og pínu pattaralega gæs, Björt Framtíð önd, Vinstri Grænir myndu taka snæugluna og Píratar hettumáfinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni