Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Eru fagurbókmenntir til?

Eru fagurbókmenntir til?

Á Íslandi hafa geirabókmenntir lengi þótt hafa átt undir högg að sækja. Miskunnarlaust grín var gert að þeim sem voguðu sér að skrifa vísindasögur, ástarsögur, glæpasögur og eiginlega allt sem ekki flokkaðist til fagurbókmennta. Hvað svo sem það orð þýðir.

Rithöfundurinn Stefán Máni kom með kenningu um það þegar hann var í viðtali við DV og sagði fagurbókmenntir einungis fínt orð yfir leiðinlegar bækur. Í sama viðtali kvartaði hann yfir því að íslenskir höfundar hugsi of mikið um stíl, kunnugleg ásökun og ekki alveg röng. Sumir fagurkerar svöruðu fyrir hönd stílista og töluðu um að Stefán Máni hlyti að hafa minnimáttarkennd. Það getur vel verið að hann hafi slíka minnimáttarkennd, kannski ómeðvitað, enda ólst hann upp á Íslandi sem var undir ægivaldi „fagurbókmennta“ en það bókmenntalandslag sem er á landinu í dag er allt öðruvísi. Hann nefnir sjálfur höfundana Alexander Dan Vilhjálmsson og Emil Hjörvar Petersen sem rithöfunda sem hann lesi sjálfur, þetta eru tvær helstu vonarstjörnur íslensku furðusögunnar sem vex dag frá degi ... en furðusagan á þó langt í land með að ná viðlíka vinsældum, umfjöllun og umræðu og glæpasagan hefur haft seinasta áratuginn. Í raun hefur glæpasagan og reyfarinn ýtt fagurbókmenntunum af stalli sínum og gert að jaðargrein. Meginstraumur íslenskra bókmennta er ekki lengur sósíalískt raunsæi, eða heimspekilegar stílæfingar, eða sveitarómantík (ef það var einhvern tímann rauninn). Aðdáendum stílfærðrar sveitarómantíkur hefur lengi gramist þetta, samanber þessa gömlu grein eftir Jón Kalmann Stefánsson:

En daður skáldsagnahöfunda við reyfaraformið þynnir ekki bara skáldsagnaformið, og gerir skáldsöguna grynnri, hættulausari, heldur spillir einnig lesendum, bókaforlögum – og fjölmiðlum. Skáldsagnaformið þarf, eins og öll önnur listform, stöðugt að leitast við að endurnýja sig, en þetta er ekki endurnýjun heldur eftirgjöf. Það er eðlilegt að bækur eins og Skáktyrkinn, Mæling heimsins seljist vel, þær eru skemmtilegar, spennandi, lipurlega skrifaðar, en það er hættulegt, það hringir viðvörunarbjöllum ef lesendur og gagnrýnendur hefja þær upp sem merkilegar skáldsögur. Og ef útgáfulistar helstu bókaforlaga hér á Íslandi og í nágrannalöndunum eru skoðaðir, sést að við lifum á tímum hnignunar. Metsöluskáldsögur og krimmavæðing er við það að kaffæra skáldsöguna, hvað þá smásöguna, svo ég tali nú ekki um ljóðið.

Í greininni Ofurvald Söguþráðarins heldur Jón Kalmann því fram að krimmabókmenntir séu í raun óæðri eiginlegum fagurbókmenntum. Að þær skildu fá aukna athygli er merki um hnignun, því þær ali lata og heimska lesendur. (Það væri forvitnilegt að vita hvað honum þykir um furðusögur eða myndasögur). En hann fékk að sjálfsögðu svar frá einum af reyfarahöfundunum Jón Hall Stefánssyni sem hæddist að honum og líkti við Dan Brown. (Ef einhver myndi nokkurn tímann líkja mér við Dan Brown myndi ég kýla hann og ég vona að Jón Kalmann hafi gert það).

Afhverju leitum við að svörum þegar þau finnast í ljóðunum? 

Hvað í andskotanum þýðir þetta? Frá mér séð hljómar þetta einsog einhver nýjaldarspeki, jafnvel eitthvað upp úr Dan Brown sem ég sit nú og þýði ásamt fleirum. Heimulleg skilaboð frá frímúrurum. Guð býr í garðslöngunni, fyrirgefið ljóðinu, og við ættum að hlusta á það en ekki skáldsöguna.

Þessi orðaskipti áttu sér stað fyrir nokkrum árum og sýna að rígurinn er ekki nýr milli fulltrúa hins fagra stíls og ófagra söguþráðar. (Það er svo spurning hvernig eitt þeirra getur verið til án annars, enda meira að segja lélegur söguþráður saga og illa uppbyggð bók með uppbyggingu). Þessi gamalgróna fyrirlitning á plottinu hefur því miður kostað Ísland talsvert, við höfum t.d. fengið afskaplega léleg leikskáld upp úr þessu viðhorfi.

Reyfarinn, fantasían, krimminn og vísindaskáldsagan eru nefnilega ekki undirmálsbókmenntir þótt þær séu undirflokkar og það er ruglingslegt að horfa bara á yfirborð þeirra. Þessi snobbuðu viðhorf einskorða sig alls ekki við Ísland, þeirra gætir í bókmenntaumræðu víða um heim, þar sem sumir furðusagna höfundar sverja af sér furðusöguna, en horfa ekki til þess að í raun eru þessar skilgreiningar ekki skapaðar af listamönnunum sjálfum heldur þörfum markaðssetningar.

Og meira um það í næsta hluta þar sem ég tek fyrir nokkra parta úr samtölum Neil Gaimans, Ursulu K. Le Guin, Kazuo Ishiguro og Margaret Atwood svo nokkur dæmi séu nefnd.


Sjá framhaldsgrein hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu