Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

XD - Deilum og drottnum

XD - Deilum og drottnum

Eftir að hafa setið eitt kjörtímabil í borgarstjórn tel ég mig þekkja ágætlega til fjármála sveitarfélaga, rekstrarumhverfis þeirra og helstu áskorana þar. Ég byrjaði á pistlaseríu um þetta málefni sem ég hugsa að ég haldi áfram með árlega þó ég sé núna orðinn aftur óbreyttur borgari.

Skemmst er frá því að segja að sveitarfélög búa augljóslega við sama rekstarumhverfi, ramma sem því er settur af Alþingi í gegnum lög. Þrátt fyrir tal sem stundum heyrist um meintan mikinn mun á til að mynda sköttum milli mismunandi sveitarfélaga er staðreyndin sú að það er lítill munur. Útsvar er í hámarki, 14,52%, í 55 af 72 sveitarfélögum og það er undir 14% í aðeins 9 þeirra. Útsvar er líka stærsti tekjustofn sveitarfélaga, stendur undir rúmum helmingi tekna þeirra. Það er burðarásinn, ólíkt til dæmis hjá ríkinu þar sem skattar á tekjur og hagnað einstaklinga standa ekki undir nema um fimmtungi af tekjunum.

Líkt og sést af tilvitnuðum orðum bæjarstjóra Garðabæjar í fyrsta fjármálapistli mínum hafa fulltrúar sveitarfélaganna lengi kallað eftir endurskoðun tekjustofna þeirra. Línan er samræmd og einföld - kröfurnar sem gerðar eru til þjónustustigs sveitarfélaganna í lögum ríma illa við getu þeirra til að sækja sér tekjur og þess vegna þarf aðkomu Alþingis að því að endurskoða rekstrarumhverfið. Ég gæti hlekkjað á margar fréttir og skýrslur því til sönnunar að mikið var rætt um þetta á síðasta kjörtímabili sveitarfélaganna og að ráðherrar og sér í lagi fjármálaráðherra var og er fullkunnugt um þetta. Sveitarfélögin eru áhugasöm um að sækja sér tekjur með öðrum leiðum en beint í vasa almennings en þurfa til þess samvinnu við ríki og þing, sem ráða því hvaða ramma sveitarfélögunum er settur.

Sitjandi ríkisstjórn hefur út frá allri þessari umræðu líka gefið fyrirheit um að vinna með sveitarfélögunum að þessu mikilvæga verkefni. Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga kom inn á þetta í pistli þann 1. desember 2017 en þar skrifar hann um fyrirheit núverandi ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála um að „Ríkisstjórnin mun auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti“ Einnig segir þar að „Skilgreina þarf hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu“ sem og „Gistináttagjald færist yfir til sveitarfélaga á kjörtímabilinu í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofna“ 

 Nú ber hins vegar svo við að fjármálaráðherra ákveður einhliða að henda þeirri sprengju inn í viðkvæma kjarasamninga að nú skulu verkalýðsfélögin snúa sér að sveitarfélögunum af því ríkisstjórnin hafi gengið eins langt og hún geti í að létta álögum af lágtekjufólki og sveitarfélögin innheimti jú meira úr vasa lágtekjufólks en ríkið. Vissulega er það rétt, en það er að sjálfsögðu vegna þess að ríkið hefur tæki á borð við persónuafslátt og skattþrepaskiptingu til að dreifa þessum byrðum. Sveitarfélög hafa ekki slík tæki, þar er ein útsvarsprósenta á alla óháð tekjum. Þetta er sumsé atriði sem er út af fyrir sig rétt en er samt vísvitandi hálfsannleikur þar sem er horft framhjá miklvægustu atriðunum. Aftur þá er þetta atriði sem þyrfti aðkomu ríkisstjórnar og þings til að breyta - og ef allt væri eðlilegt væru einhverjar slíkar aðgerðir hluti af útspili ríkisstjórnarinnar um heildarskoðun alls tekjumhverfisins, bæði ríkis og sveitarfélaga, í samræmi við fyrirheit í stjórnarsáttmála.

Allt er hins vegar greinilega ekki eðlilegt fyrst að fjármálaráðherra ákveður að láta svona. Hann veit auðvitað sjálfur að hann ber sjálfur ríka ábyrgð á þeim veruleika sem hann lýsir varðandi það hvernig tekjuskattur láglaunafólks skiptist og að sveitarfélögin geta ekki unnið þetta í tómarúmi.  Ef markmiðið er virkilega það að létta útsvari af lágtekjufólki þá gengur einfaldlega ekki að segja  verkalýðshreyfingunni að banka bara upp á hjá sveitarfélögunum. Þetta verður ekki gert nema með aðkomu ríkisins. Enda hafa viðbrögð fulltrúa sveitarfélaganna við þessu dæmalausa útspili Bjarna, sem fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tekið undir, hingað til verið fyrirsjáanleg - sveitarfélögin eru aðþrengd fjárhagslega og myndu þurfa breiðari tekjustofna ef þetta ætti að ganga upp. Líkt og vitað hefur verið í mörg ár!

Þetta er ekki beinlínis það sem hægt er að kalla lausnamiðaða pólitík. Ekki heldur ábyrga. Þetta er þvert á móti eitt óábyrgasta útspil sem ég hef séð um allnokkurt skeið. Það lyktar af furðulegri örvæntingu, fálmi út í loftið. Tilraun til að losa pressuna af sér með því að deila og drottna. Það sorglegasta er að hér eru í raun allar forsendur fyrir hendi til þess að leysa málin með samvinnu. Viljinn hjá öllum aðilum er til staðar og bara ef fulltrúar ríkis og sveitarfélaga gætu sest niður til að móta útspil í kjaraviðræður í samræmi við ríkt ákall um endurskoðun tekjustofna, þá gæti allt eins komið eitthvað mjög ásættanlegt fyrir alla út úr því.

En nei, leiðin sem Bjarni kýs að fara er ekki leið samvinnu og sátta heldur kýs hann vísvitandi að horfa framhjá því sem hann veit að er satt og rétt til að þyrla upp ryki og skipta í lið. Láta eins og sveitarfélögin og þeirra umhverfi komi honum í raun ekkert við, þangað eigi verkalýðshreyfingin bara að snúa sér næst til sækja frekari kjarabætur.  Veruleikinn er sá að sveitarfélögin eru ekki aflögufær nema með aðkomu ríkisstjórnar og Alþingis - og jafnvel þó þau væru það þá þyrfti samt sem áður aðkomu þeirra til að endurskoða skattaumhverfi sveitarfélaga í því skyni að létta álögum af láglaunafólki. Það sem fjármálaráðherra landsins segir verkalýðshreyfingunni að sækja til sveitarfélaganna verður ekki sótt þangað nema með hans eigin aðkomu - og hann veit það fullvel sjálfur.

Allt saman vekur þetta margar spurningar en sú stærsta er sennilega sú hvort að forsætisráðherra ætlar að horfa þegjandi upp á þetta atferli fjármálaráðherra og þingliðs hans.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni