Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Vammlaust fólk

Vammlaust fólk

Þann 6. september 1985 birtist í DV aðsend grein eftir Skúla Helgason, ömmubróður minn heitinn.

Tilefnið var mótmæli íbúa Teigahverfis gegn því að félagið Vernd fengi að koma upp áfangaheimili fyrir fanga í hverfinu. Þeir höfðu haldið fund þar sem þáverandi borgarstjóri, Davíð Oddsson, var mættur, og lofaði hann víst að gera sitt til að vinda ofan af málinu fyrir þeirra hönd, jafnvel láta færa heimilið yfir í annað hverfi eins og Breiðholt.

Skúli heyrði frétt af fundinum í útvarpinu og svo morgunbæn strax á eftir þar sem lagt var út af sögunni um miskunnsama Samverjann. Um hugrenningar sínar segir hann í greininni:

Mér flaug í hug hversu mjög siðgæðisvitund og hjálpsemi mannsins, sem þarna var á ferð, fyrir tvö til þrjú þúsund árum hefði tekið fram því sem við í dag auðsýnum náungum okkar.

Það væri synd að segja að íbúar Teigahverfisins, sem til fundarins boðuðu, hafi tekið sér miskunnsama Samverjann til fyrirmyndar, og skelfingar ósköp hlýtur þetta að vera vammlaust fólk sem þorir að auglýsa sig á þennan hátt.

Mér flýgur í hug að þarna sé kominn sá syndlausi sem meistari Kristur bað að henda fyrsta steininum. Þekkja íbúar Teigahverfis kannski ekki þá sögu? Ég held satt að segja að þetta ágæta fólk ætti nú alvarlega að huga að þeim stóra bjálka, sem greinilega er í augum þess, og hætta að leita að flísinni í auga náungans. Það væri greinilega hollt fyrir það að ihuga vel og vandlega gamla orðtækið sem segir: Maður, líttu þér nær. Það skyldi nú aldrei vera að innan um þá ólánsmenn, sem þarna var huguð vist, væri einhver sem ætti uppruna sinn í Teigahverfinu?

Kannski er þetta ágæta fólk bara að dansa kringum gullkálfinn eins og Ísraelsmenn forðum meðan Móses gamla dvaldist á fjallinu og ólíkt hefði stjarna Daviðs risið hærra ef hann hefði brugðist svipað við og Móses forðum.

Þessi ágæta ádeila frænda míns rifjast upp fyrir mér við að sjá frétt af því að ákveðnir íbúar Norðlingahverfis fengu samþykkt lögbann á fyrirhugað áfangaheimili fyrir fáein ungmenni í vímuvanda sem hafa lokið meðferð. Það fór alveg ágætlega á því að DV tók upp mín orð þar sem ég setti harðlega út á þau viðhorf sem mér þykir augljóslega liggja þarna að baki. Skúli frændi var réttsýnn maður og því er hér hreint ekki leiðum að líkjast. Þetta er hins vegar leiðinlegt að því leyti að það þurfi enn að standa í svona baráttu gegn fordómum. Hér eru það meira að segja börn sem verða fyrir barðinu á þeim - viðkvæmur hópur sem flestir styðja í orði en greinilega því miður ekki alltaf á borði. Munurinn felst líka í því að fangarnir fengu að lokum og þrátt fyrir allt athvarf í Teigahverfi, á meðan börnin þurfa að leita eitthvert annað.

Eitt virðist þó hafa breyst á þessum rúmum 30 árum sem liðin eru. Hluti íbúa hverfisins sér ástæðu til að rísa upp og bjóða börnin velkomin. Þá er kannski til einhvers barist. Ég vil þakka þessu fólki kærlega fyrir hugrekkið. Skúli frændi brosir örugglega við því, hvaðan sem hann er staddur núna.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni