Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Týndar tengingar

Týndar tengingar

Lost Connections heitir bók eftir Johann Hari sem kom út árið 2018. Ég kynntist þessum breska/svissneska blaðamanni þegar hann kom hingað til lands í nóvember 2019 í tilefni af útgáfu íslenskrar þýðingar á annarri bók hans, Chasing the Scream eða Að hundelta ópið, sem fjallar um fáránleika og skaðsemi stríðsins gegn fíkniefnum.

 Í Lost Connections leggur hann í það metnaðarfulla verkefni að skoða áhrifaþætti þunglyndis og kvíða, sem hann splæsir saman í sama fyrirbærið, tvær hliðar á sama peningi. Það er óhætt að segja að hann ræðst sjaldnast á garðinn þar sem hann er lægstur og að hann er alltaf mjög vandvirkur í greiningum sínum á þeim viðfangsefnum sem hann ákveður að taka fyrir. Hann skoðar rannsóknir og ferðast um heiminn til að tala við fólkið sem stóð að þeim, tengir saman þræði og setur upp kenningakerfi út frá þeim.

Kenningar hans um þunglyndi og kvíða ganga fyrst og fremst út frá því að aðalorsökina sé að finna í tengslaleysi. Í  skorti á tengingu við annað fólk, við gefandi vinnu, við gildi, við merkingarríka framtíðarsýn, við náttúruna ... allt þetta skoðar hann út frá rannsóknum sem benda til þess að fylgni sé á milli slíks tengslaleysis og andlegra áskoranna á borð við þunglyndi og kvíða. Gildi lyfja telur hann hins vegar ofmetið og hann rekur rannsóknir sem gefa vísbendingar um að það kunni að vera vísvitandi skekkja í mælingum á áhrifagildi þeirra út frá tangarhaldi lyfjafyrirtækja á því hvaða rannsóknir eru fjármagnaðar og birtar. Rauði þráðurinn er gagnrýni á ríkjandi kenningakerfi sem snúast um að líta á andlegar áskoranir sem einkamálefni einstaklingsins, að það sé bara eitthvað að viðkomandi sem þurfi að laga - en að aldrei þurfi að skoða umhverfið og samfélagið í kringum hann og spyrja að því hvort að eitthvað þurfi að laga þar. Mér finnst hann færa nokkuð sannfærandi rök fyrir því að þegar vandamálum af þessum toga fer fjölgandi meðal einstaklinga þá hljóta að vera orsakaþættir í samfélagsgerðinni sem eru að valda því, en ég var svo sem sannfærður um það fyrir.

Geðheilbrigði er sérstakt að því leyti að það er einfaldlega ekki hægt að smætta alveg niður í líffræði heldur eru margir þættir sem hafa áhrif á það og þess vegna er það í eðli sínu mjög pólitískt viðfangsefni. Þetta finnst mér vera sterkasti punkturinn í bókinni þó eflaust megi setja út á sum atriði í henni, en höfundurinn er reyndar sjálfur með ríkulegan fyrirvara á því að það vantar frekari rannsóknir til að renna stoðum undir kenningakerfið sem hann setur fram. Bókin er skrifuð rétt fyrir Covid-faraldurinn sem hefur haft gríðarleg áhrif á getu okkar til að tengjast hvert við annað og ég held að hún hafi ennþá meira gildi fyrir vikið. Allar tölur hérlendis sem og alþjóðlega benda til þess að einangrunin sem fylgir sóttvarnaaðgerðum sé að hafa veruleg áhrif á geðheilsu fólks og það er þekkt að aðrar afleiðingar á borð við vaxandi atvinnuleysi munu líka hafa sín áhrif.

Núna þegar við sjáum til sólar og getum farið að hefja endurreisn er alveg fullt tilefni til að velta því fyrir sér á hvaða grunni það á að vera og ég held að þessi bók sé þar gagnlegt innlegg. Ekki bara fyrir geðheilbrigðisþjónustuna (sem ég veit út frá minni löngu reynslu af henni frá ýmsum sjónarhornum að hefur vissulega verið að þróast hérlendis í átt að því að líta á vanda sinna skjólstæðinga heildstætt) heldur samfélagið allt. Það er til að mynda áhugavert að sjá þarna hugmyndina um borgaralaun skjóta upp kollinum, en Johann Hari rekur rannsóknir á því hvernig tilraunir með þau hafa bætt lífsgæði fólks og dregið úr andlegum kvillum. Þetta gæti verið ein leið til að fleyta fólki sem hefur misst vinnu og tækifæri allavega tímabundið í gegnum kreppuna. Hagfræðingurinn Ólafur Margeirsson hefur líka talað fyrir svokallaðri atvinnuramboðstryggingu og telur reyndar að einhvers konar blanda af henni og borgaralaunum gæti verið góð lausn.

Eftirköst Covid er stórt vandamál sem krefst stórra lausna. Samstaðan um sóttvarnir hefur verið góð en við þurfum líka að vera saman í endurreisninni. Þannig gætum við komið út sterkari en við vorum fyrir en það kemur hins vegar ekki af sjálfu sér. Það krefst íhugunar og aðgerða. Það krefst þess að við viðurkennum að það sé kominn tími til að tengja.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni