Tannholdið er ekki tabú
Ég var hjá tannlækni. Nánar til tekið tannholdssérfræðingi. Við vorum að fara yfir stöðuna í ljósi aðgerða sem hann fór í með mér.
Þannig er að ég hafði verið hjá sama tannlækninum frá því að ég var krakki. Mjög fínum. Þannig vill líka til að tennurnar mínar eru óaðfinnanlegar, þar hafa aldrei fundist skemmdir eða önnur vandamál og ég er meira að segja með alla endajaxlana. Hins vegar var ég farinn að lenda í verulegum vandræðum með tannholdið, þar voru bólgur og blæðingar. Allt að flettast upp og minnka. Ég var ráðþrota gagnvart þessu og ráðleggingar tannsa hjálpuðu lítið til. Hann lagði áherslu á að hér væri líklega um arfgengan sjúkdóm að ræða og að eina leiðin til að takast á við þetta væri að bursta betur og nota tannþráð. Þó væri í raun lítið hægt að gera gagnvart undanhaldi tannholdsins til lengri tíma. Ég taldi mig nú bursta bara ágætlega, reyndi samt að bæta mig á milli heimsókna til hans og nota tannþráðinn líka en alltaf sagði hann að þetta væri ekki nógu gott. Ég var orðinn frekar örvæntingarfullur og hélt að þetta yrði alltaf ómögulegt.
Svo gerðist það hreinlega í fyrra að tannlæknirinn fór á eftirlaun og ákvað þá loksins að vísa mér til tannholdssérfræðings. Sá byrjaði strax á að kortleggja stöðuna á tannholdinu ítarlega. Hann rakti vandamálið beint til þess að ég hafði ekki sinnt því að hreinsa á milli tannana og útskýrði afleiðingarnar með myndrænum hætti, sem var söfnun á gerlapokum í tannholdinu. Hann ráðlagði mér í því hvernig ég ætti að hreinsa það, ekki bara með tannþræði með sérstökum burstum sem hann lagði mér til og sýnd hvernig ætti að nota. Síðan fór ég í tvo tíma hjá honum þar sem ég var deyfður og tannholdið djúphreinsað. Þarna var ekkert tal um arfgenga sjúkdóma, bara beinar aðgerðir og réttar ráðleggingar sem vöktu von um að það væri hægt að laga þetta.
Núna er staðan þannig að tannholdið er miklu betra, mælingar sýna mikinn árangur og blæðingarnar hafa hætt. Tannlæknirinn lagði áherslu á að þetta væri fyrst og fremst því að þakka að ég hefði tileinkað mér tannholdshreinsunina vel en að ég þyrfti núna að passa að halda henni við. Mér varð hugsað til þess hvað ég hafði verið örvæntingarfullur áður og hvað það væri frábært að hafa loksins náð utan um vandamálið, og hafði orð á því. Það skipti öllu að hafa sérfræðing sem skildi nákvæmlega rót vandans og hafði fulla trú á því að hægt væri að laga hann. Hann sagði að þetta væri fyrst og fremst mér að þakka, hans hlutverk væri aðallega að ráðleggja og styðja.
Mér varð óhjákvæmilega hugsað til þess þegar ég lenti á geðdeild 2011 og var greindur með geðrof, sem er eðli málsins samkvæmt tímabundið og laganlegt ástand, frekar en eitthvað varanlegt. Hversu miklu máli skipti það fyrir mig? Sennilega öllu. Von um að með aðgerðum eins og tímabundinni lyfjameðferð, sálfræðimeðferð og því að hætta að reykja gras (þó ég hafi því miður ekki tekið það síðara til mín alveg strax, það tók smá tíma) var lykilatriði. Ég hef þurft að gera heilmargt til að koma mér upp úr þessu og halda mér góðum - en til þess að gera það hef ég þurft að búa yfir von um að árangur sé mögulegur. Ég hef líka sjálfur viðað að mér alls konar módelum sem setja geðsjúkdóma í merkingarbært samhengi sem hægt er að vinna með, frekar en að missa mig í að þetta sé tilgangslaust vonleysi. Forsendurnar voru fyrst og fremst mínar, alltaf.
Svona á heilbrigðisþjónusta að virka, eftir því sem það er mögulegt. Aldrei taka vonina frá fólki nema það sé 100% öruggt að hún eigi ekki rétt á sér. Alltaf gefa von þar sem hana er að finna og hjálpa því að takast á við vandamálin sjálft. Vísa á þann aðila sem best til þekkir og getur stutt best við sjálfshjálpina. Greiningar eiga að vera hnitmiðaðar og þær eiga að vera til að hjálpa fólki að skilja og takast á við hlutina á sínum forsendum, ekki til að hólfa niður og einfalda. Það hjálpar kannski lækninum að einhverju leyti að greina manneskju með t.d. geðklofa eða arfgengan tannholdssjúkdóm, en ég sé ekki alveg hvernig það hjálpar manneskjunni, nema því fylgi rosalega skýrar leiðbeiningar um hvernig má takast á við það.
Geðheilsan er ekki tabú. Tannholdið er ekki tabú. Ég er ekki tabú.
Athugasemdir