Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Opnun gagna Reykjavíkurborgar

Opnun gagna Reykjavíkurborgar

Á vorþingi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins var fjallað um gildi opinna gagna fyrir sveitarfélög.

Með opnum gögnum er átt við opinbera útgáfu hrágagna á tölvulesanlegu sniði. Þannig er hverjum sem er frjálst að lesa gögnin, vinna úr þeim og jafnvel skrifa forrit (t.d. vefsíður eða app í síma) sem birtir þau með nýstárlegum hætti.

Sveitarstjórnarþingið telur ótvírætt að opin gögn feli í sér tækifæri til að breyta evrópskum borgum í opnari, gagnsærri og lýðræðislegri stofnanir.  Það er aldrei að vita hvaða nýsköpun kemur út úr opnun gagna og slíkt gagnsæi er hornsteinn lýðræðislegrar þátttöku og upplýstrar umræðu. Því hvetur Sveitarstjórnarþingið sveitarfélög til að setja sér stefnu um opin gögn fyrir alla íbúa.

Hér er gaman að segja frá því að Reykjavíkurborg hefur nú þegar sett sér skýra stefnu um opin gögn. Þetta er eitt af meginmarkmiðunum í nýrri upplýsingastefnu borgarinnar. Stefnunni hefur líka verið fylgt eftir markvisst með því að gefa ítarlegar fjárhagsupplýsingar út á opnu sniði - raunverulegt opið bókhald er orðið að veruleika í borginni.

Píratar hafa allt frá upphafi lagt skýra áherslu á opin gögn, út frá nákvæmlega þeim rökum sem Sveitarstjórnarþingið tiltekur. Þetta var eitt af okkar stærstu kosningamálum í sveitarstjórnarkosningunum 2014 og því er mjög ánægjulegt að sjá það skila sér í verki í Reykjavík. Það þýðir líka að Reykjavíkurborg er komin í hóp framsæknustu borga heimsins á þessu sviði. Ályktun Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins um opin gögn sýnir að Reykjavíkurborg er hér á hárréttri leið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni