Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Þöggunarstjórnin

Þöggunarstjórnin

Í umræðum um stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra þann 24. janúar talaði núverandi forsætisráðherra um mikilvægi þess að byggja brýr í stað þess að reisa múra. Þetta þóttu mér fín orð og þörf.

Síðan þá hefur margt gerst þó ekki sé liðið heilt ár. Ríkisstjórn hefur fallið og ný er tekin við. Fráfarandi ríkisstjórn féll vegna þess að reistur var þagnarmúr í kringum kynferðisofbeldi. Sumum finnst afskaplega óþægilegt og ósanngjarnt að það sé sagt - en þannig var það einfaldlega.

Þolendur kynferðisofbeldis leituðu til stjórnmálanna og vildu samtal og hluttekningu, skýr svör við sínum áhyggjum. Þær rákust hins vegar á múra. Þær lýsa sinni reynslu þannig sjálfar og þá er það þannig. Þær hafa líka lýst því hvernig þessi reynsla olli þeim miklum tilfinningalegum þjáningum.

Það er sama hvað stjórnmálafólki finnst sjálfu um hvernig það brást við. Fjálglegar útlistanir á því að það hafi ekkert rangt verið gert breyta engu um niðurstöðuna.

Niðurstaðan var þjáningar.

Þetta er þöggun í hnotskurn, hún veldur þjáningum og eina leiðin til að hætta þöggun er að haga sér með þeim hætti sem linar þjáningarnar. 

Ég er sjálfur þolandi og gekk í gegnum töluverðar þjáningar við það að horfa upp á þetta. Ég áttaði mig ekki alveg strax á því hvað var í gangi hjá mér tilfinningalega en svo brast einfaldlega eitthvað inni í mér.  Við tók úrvinnsla, val á vettvangi til að tjá mig og stíf tilfinningastjórnun. Ég lærði meira á sjálfan mig og afleiðingar kynferðisofbeldisins. Ég hef lært af því að reyna að ræða þessa hluti af hreinskilni að fullt af fólki sem býr ekki yfir þessari reynslu skilur hreinlega ekki reynsluheiminn. Það skilur ekki hvað það var nákvæmlega sem ráðherrar og þingmenn gerðu svona rangt, hvað fór svona illa í þolendur.

Lausnin á því er hins vegar að hlusta betur og reyna að skilja. Byggja brýr yfir til þolenda. Það getur örugglega verið erfitt og krefjandi en það er pólitík í hnotskurn. Hún er erfið og krefjandi og fólk getur ekki alltaf valið sér verkefnin. Stundum banka þau einfaldlega upp á og þá reynir á viðbrögðin og siðferðilega hugrekkið.

Nýja ríkisstjórnin undir forystu konunnar sem vildi byggja brýr hefur ekkert gefið út sem bendir til þess að hún sýni þarna skilning og ætli sér að byggja brýr. Í stjórnarsáttmála eru fagrar yfirlýsingar um aðgerðir gegn kynferðisofbeldi, sem er gott og blessað út af fyrir sig en það er ekki það sama og að byggja brýr sem manneskjur. Þú firrir þig ekki ábyrgð á því hvernig þú kemur fram sem manneskja með því að vísa í aðgerðir á blaði sem eitthvað annað fólk á að útfæra. Það er bara meira af því sama. Það er áframhaldandi þöggun. Það er líka áframhaldandi þöggun að leyfa sama fólkinu og þaggaði að sitja sem ráðherrar án þess að draga það að nokkru leyti til ábyrgðar sem manneskjur.

Ég átta mig í raun ekki alveg á því hvað þessi ríkisstjórn snýst um - en ég veit hvað hún snýst ekki um. Hún snýst ekki um að taka á þöggun. Hún snýst ekki um að hafa hátt um kynferðisofbeldi.

Brúarsmiðurinn yfirlýsti tilheyrir flokki sem kennir sig við femínisma, stundum jafnvel róttækan feminísma. Þöggunarmúrar eru hins vegar ósamrýmanlegir þeirri hugmyndafræði.

Enn er að sjálfsögðu smá von til þess að fólk læri og ákveði að forgangsraða með öðrum hætti. Ég myndi fagna því fyrstur manna ef það gerðist.

Þangað til það gerist þykir mér þó algjörlega sanngjarnt og eðlilegt að kalla þessa ríkisstjórn Þöggunarstjórnina. 

#höfumhátt

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni