Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Garg og atgangur

Garg og atgangur

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti um daginn þeirri merkilegu meiningu sinni að síðasta ríkisstjórn hafi slitnað út af „gargi og atgangi út af litlu.“ 

Þetta er auðvitað kunnuglegt stef. Benedikt Jóhannesson missti það til dæmis út úr sér í síðustu kosningabaráttu að það myndi nú varla nokkur maður af hverju þessi stjórn hafi slitnað. Hann hafði þó allavega visku til að átta sig á mistökunum, biðjast afsökunar á þeim og stíga til hliðar. Er hann margfalt meiri maður fyrir vikið og vegna þessa vaknaði smá von um að næsta ríkisstjórn færi í uppgjör gagnvart þögguninni og meðvirkninni með gerendum sem leiddi til þess að fyrri stjórn var ekki lengur vært. Að fólk ætlaði sér að taka þetta alvarlega.

Svo reyndist þó ekki vera. Ríkjandi söguskoðun núverandi ríkisstjórnar er nákvæmlega sú sem Páll rekur, að stjórnarslitin hafi verið leiðindagarg og frumhlaup sem bæta þarf fyrir með sterkri stjórn sem lætur ekki smámuni eins og baráttu þolenda gegn kerfi sem lokar á þá og er meðvirkt með gerendum trufla sig. Láti tilfinningar ekki ráða of miklu í þeim efnum.

Ósanngjarnt? Það finnst mér alls ekki.

Þeir stjórnarliðar sem þegja og leyfa mönnum eins og Páli að vaða uppi með sína söguskoðun styðja hana með þögninni. Það er nefnilega þannig í þessari baráttu að þögn jafngildir því að styðja ekki baráttana, vera henni beinlínis andsnúin.

Þess vegna er #höfumhátt til, það þarf að hafa hátt til að menn eins og Páll heyri. Ef hann heyrir en finnst þetta bara eitthvað óskiljanlegt og tilgangslaust garg - þá þarf að hafa enn hærra. Þetta er þolinmæðisvinna, þar sem fólk sem býr við þau forréttindi að vera ekki þolendur skilur illa þennan reynsluheim, en það er gríðarlega mikilvægt upp á úrbætur í málaflokknum að fólk sem fer með völd skilji hann eftir fremsta megni.

Nú er #metoo komið rækilega á kortið, enn eitt myllumerkið sem snýst um að tjá sig af hugrekki til að ná eyrum þeirra sem fara með völdin. Þessu hefur pólitíkin tekið fagnandi, þvert á flokka. Dropinn holar steininn en málið sem felldi ríkisstjórnina virðist vera fjári stór og seigur steinn. Þar virðist stolt og flokkshagsmunir ennþá vera samkenndinni sterkari. Allt of erfitt að viðurkenna mistök af auðmýkt þar greinilega.

Kannski það þurfi núna enn eitt myllumerkið - #gargogatgangur?

Væri það eitthvað?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni