Fjölgun borgarfulltrúa - fjárhagsvinkillinn
Fram er komið stjórnarfrumvarp til laga sem ætlað er að taka til baka lögbundna hækkun á lágmarki kjörinna fulltrúa í Reykjavík.
Það má sitthvað segja um þetta, en kannski fyrst og fremst það að tímasetningin, um ári áður en skyldan um að fjölda á að taka gildi, er einstaklega slæm fyrir borgina.
Einnig og ekki síður það að frumvarpið er hvorki sett fram að ósk borgarinnar né í samráði við hana. Það er meira að segja í andstöðu við afstöðu hennar til eldra frumvarps sama efnis.
Þetta sést vel í því að í greinargerð með frumvarpinu er bara slumpað út í loftið á atriði sem hafa verið til mikillar skoðunar hjá borginni í tengslum við þá lögbundnu fjölgun sem hefur verið yfirvofandi í mörg ár:
Verði borgarfulltrúum ekki fjölgað má vænta þess að við það sparist útgjöld hjá Reykjavíkurborg. Hve mikill sá sparnaður yrði er þó ekki að fullu ljóst, enda kann fjöldi borgarfulltrúa að hafa áhrif á annan kostnað í stjórnkerfi borgarinnar.
Skoðum aðeins rýningu á þessu sem fjármálaskrifstofa hefur unnið fyrir forsætisnefnd.
Kostnaður við að fjölga borgarfulltrúum um átta, einn og sér, er metinn 92 milljónir á ári:
Í fljótu bragði mætti því vissulega ætla að nokkur sparnaður fælist í því að fjölga ekki borgarfulltrúum. Þar er hins vegar ekki tekið tillit til þeirrar staðreyndar að í núverandi kerfi eru fjölmargir fulltrúar sem sitja í ráðum og nefndum borgarinnar sem sóttir eru út fyrir raðir borgarfulltrúa. Flokkarnir verða einfaldlega að gera þetta vegna þess að kerfið hefur vaxið í takt við fjölgun íbúa og aukin verkefni sveitarfélaga, án þess að eiginlegum fulltrúum hafi fjölgað. Kerfið sníður sér bara stakk eftir vexti þrátt fyrir það. Kostnaður við þessa aukafulltrúa er tæpar 78 milljónir:
Þannig að tækifærin til að gera þetta með litlum kostnaði eða jafnvel sparnaði (með lækkun álagsgreiðslna til dæmis) eru klárlega til staðar. Það má líka hæglega færa rök fyrir því að það fyrirkomulag að manna ráð og nefndir með fulltrúum kjörnum af lista sé gagnsærra og lýðræðislegra.
Áður hef ég líka skrifað um að þarna eru ákveðin áhugaverð tækifæri gagnvart hverfisráðunum. Þau hins vegar byggjast á því að við höldum okkur við að fjölga fulltrúum.
Verði þetta frumvarp að lögum þarf borgarstjórn sjálf að taka afstöðu til fjölda fulltrúa. Mér finnst það að mörgu leyti óheppilegt enda höfum við fulltrúarnir marga og mismunandi hagsmuni af fjöldanum. Til dæmis græða minni flokkar meira á fjölgun og svo gætu borgarfulltrúar meðvitað og ómeðvitað verið smeykir við að launin dragist eitthvað saman þegar fulltrúum er fjölgað. Þess vegna hefur í raun verið heppilegt að hafa þessa lagaskyldu um fjölgun því þá er markmiðið skýrt og hægt að vinna eftir því í sæmilegri sátt og samlyndi - og greina hlutina út frá skýrum forsendum.
Skýr stefnumótun til framtíðar er mjög mikilvæg í öllum rekstri en það er leiðinleg lenska í pólitík að vera stöðugt að hringla með hlutina eftir því hvernig vindar blása og eftir einhverjum dyntum. Mér finnst engum greiði gerður með því. Nema kannski í þessu tilfelli helst þeim sem eru að leita dyrum og dyngjum að vænlegu kosningamáli fyrir næstu borgarstjórnarkosningar og sjá möguleika í þessu sígilda máli - sem í raun ætti ekki að vera kosningamál.
Athugasemdir