Undarleg frétt um Breiðholtsskóla
Nú er fréttastofa Rúv líklega enn sú fréttastofa sem nýtur einna mestrar virðingar. Sjálfur tek ég ósjálfrátt meira mark á Rúv en mörgum öðrum miðlum. Ég hef þó tekið eftir því að þegar kemur að skóla- og menntamálum eru fréttir miðilsins ansi æði grunnar – og jafnvel smellsæknar fram úr hófi.
Nú veit ég ekkert um málefni Breiðholtsskóla sem ekki kemur fram í fréttum. Ég veit samt að þessi frétt skilur eftir mun fleiri spurningar en hún svarar.
Fréttin segir að hópi foreldra sé svo stórlega misboðið hve einelti sé leyft að grassera innan skólans, ásamt vanlíðan starfsfólks, að börnin skaðist af því. Svo er vitnað í yfirmann skólamála í Reykjavík sem segir að gerð hafi verið skýrsla um skólann sem staðfest hafi flestar ábendingar foreldra. Seinna kom svo önnur frétt um að búið væri að setja stjórnendum skólans afarkosti vegna úrbóta.
Lesi maður niðurstöður skýrslunnar er erfitt að sjá að þessi harkalega umfjöllun eigi rétt á sér. Að minnsta kosti fer því fjarri að hún staðfesti þær ásakanir sem koma fram í fréttinni. Þvert á móti er sagt að innan skólans sé öflugt eineltisteymi sem vinni eftir skilgreindum ferlum. Hugmyndir til umbóta í þessum málum eru að gera áætlanir til að fyrirbyggja einelti.
Um stjórnun skólans kemur fram í skýrslunni að ánægja starfsmanna hafi aukist síðustu ár, þvert á fullyrðingar í fréttinni um að ástandið hafi hríðversnað. Þá kemur fram að ánægja foreldra með skólann sé svipuð og hjá öðrum skólum af sömu stærð.
Það er rétt ég ítreki aftur að ég þekki ekki til í Breiðholtsskóla. Hitt veit ég þó að því fer fjarri að umrædd skýrsla staðfesti þær alvarlegu ásakanir sem koma fram í fréttinni. Hér er annað hvort um að ræða dómgreinarskort hjá blaðamanni eða Helga Grímssyni, yfirmanni skólamála hjá Reykjavíkurborg. Og það nokkuð alvarlegan.
Ég veit líka að félagsleg vandamál skella af fullum þunga á skólum á öllum skólastigum. Allt sem aflaga fer í samfélaginu skilar sér með einum eða öðrum hætti inn í skólana. Það getur verið gríðarlega erfitt. Ég þekki mikinn fjölda kennara sem saklausir hafa þurft að glíma við tilhæfulausar ásakanir um brot í starfi – sum mjög alvarleg.
Nú veit ég vel að kennarar og skólastjórar eru mannlegir og geta bæði klúðrað málum og brotið af sér. En þeir lifa og hrærast í mannlegum heimi – þar sem allir brestir og breyskleikar bitna reglulega á þeim af fullum þunga.
Loks veit ég að framkoma við skólastjóra hefur verið svívirðileg síðustu ár. Þeir hafa verið settir í óverjandi aðstöðu. Þeim hefur verið falið að reka skóla af vanefnum, þeim hefur verið stillt upp andspænis undirmönnum sínum í grimmum slag um hagsmuni – og þeir hafa lítinn stuðning haft frá baklandi sínu. Og til að bæta gráu ofan í svart spila sveitarfélögin mjög harðan bolta gegn þeim í kjaramálum – svo laun skólastjóra eru orðin svívirðilega léleg.
Það er stór áskorun að halda í skólastjóra eftir það sem á undan er gengið. Faglega riða heilu skólasamfélögin til falls, ekki síst vegna illrar meðferðar á skólastjórum síðustu misserin.
Að hengja þá í fjölmiðlum með þeim hætti sem Rúv gerir með reipi sem virðist komið frá yfirmönnum skólastjóranna sjálfra – er fullkomlega ámælisvert, ósanngjarnt og heimskulegt.
Fréttamenn þurfa að vera vandari að virðingu sinni en þetta. Svona skrifa tröllahirðar og smelludólgar.
Athugasemdir