Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Misógeðslegar styttur

Fyrir stuttu átti ég leið í verslun sem seldi myndir, vasa og annað fínerí til að skreyta með híbýli fólks. Þar sá ég m.a. tvær styttur. Önnur var eftirgerð af grískri brjóstmynd, hin var frekar lítil, ljót og groddaleg stytta í indverskum stíl. Það vakti athygli mína að indverska styttan var mun þyngri en sú gríska, var hún þó margfalt minni. 

Gríska brjóstmyndin höfðaði miklu meira til mín. Fíngerðir drættirnir mynduðu geðþekka heild. Hin styttan fannst mér fráhrindandi og ósmekkleg.

Af einskærri hendingu varð mér hugsað til þessa atviks í gær þar sem ég sat og horfði á fótbolta. Ég hef verið að hugsa dálítið um skoðanir og gagnrýna hugsun upp á síðkastið – og án nokkurs fyrirvara áttaði ég mig á að rök eru dálítið eins og þessar tvær styttur sem ég var að skoða um daginn. Rök verka á tilfinningar manns. Þau geta verið geðfelld, moðvolg eða ógeðfelld – allt eftir samhengi. En þau hafa líka vigt. Vigtina finnur maður ekki fyrr en maður tekur á þeim.

Fari maður ekki þeim mun varlegar er freistandi að taka ekkert á rökum – en láta nægja að upplifa þau tilfinningalega. Það er enda miklu auðveldara, því þótt ég segi að rök hafi þyngd þá er ekkert SI-kerfi til staðar til að vega þau með. Þar sem grammafjöldi góðra raka er í flestum tilfellum afar óljós þarf ekkert að koma á óvart að þau séu oftar en ekki metin út frá þokka.

Vandinn er að gagnrýnin hugsun er óhugsandi án raka. Við þurfum mjög alvarlega á því að halda að kunna að vega og meta rök. Meðal annars til að geta borið rök saman. Aðeins þannig getum við tekið sæmilega þroskaðar ákvarðanir í þessu samlífi okkar sem samfélagið er. Hvað hver og einn gerir svo í sínu prívatlífi kemur okkur hinum ekkert við.

Jæja, þessi pæling fylgdi mér heim af leiknum. 

Í kvöld mundi ég svo eftir þessu. Ég ákvað að gúgla málið. Þá fann ég rannsókn sem virðist staðfesta þetta.

Fólk með ákveðnar heilaskemmdir sem koma í veg fyrir úrvinnslu tilfinninga á ekki aðeins erfitt með upplifanir – það á ekki síður erfitt með að komast að niðurstöðu.

Við höfum kannski ekkert skynfæri sem kann að vega rök – en við erum flest fjári góð í að upplifa þau tilfinningalega.

Þannig getur sami óttinn bæði sannfært okkur um skaðsemi mengunar og innflytjenda – og þar með ýtt okkur að niðurstöðu í rökræðu um efnið.

Og kannski vissu þetta allir alltaf nema ég.

Svona virka flestir fjölmiðlar.

Svona virka flestir stjórnmálamenn.

Ég held nebblega að ég sé búinn að vera svolítið vitlaus.

Ég vissi að ég væri með ógeð á því þegar reynt er að háfa tilfinningar mínar með rökum.

Ég fattaði ekki að ógeð er líka tilfinning.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni